15.04.1975
Sameinað þing: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

170. mál, afnám flýtifyrningar og skattur á verðbólgugróða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Hér er hreyft allumfangsmiklu máli sem ég mun ekki gera tilraun til að gera full skil. en mun þó aðeins vilja koma inn á.

Það má segja að saga skattamála á Íslandi sé að mestu leyti hálfgerð sorgarsaga. Breytingar á skattalögum hafa aðallega orðið á þann veg á undanförnum árum að þær hafa gerst með stuttum fyrirvara, í flestum tilfellum stuttu áður en álagning á að fara fram, og það í mörgum tilfellum vegna þess að beinir samningar við aðila vinnumarkaðarins hafa komið þar til. Það er í sjálfu sér ekki von til þess, þegar þannig er staðið að málum, að vel takist til.

1970 kom fram hér á Alþ. frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem náði aldrei fram að ganga, og við ríkisstjórnarskiptin á árinu 1971 urðu allmiklar breytingar þar á, en þó í reynd mjög litlar. Þar komu inn í lögin ýmis ákvæði sem menn hefðu mátt huga betur að, og ég undrast það mjög hvernig á því stóð að það frv. fór svo gagnrýnislaust í gegnum Alþ. sem raun ber vitni.

Hv. flm. þessarar till. hefur komið inn á ýmsa hluti sem hann hefur nefnt aðferðir til þess að skjóta tekjum undan skatti. Ég er honum alveg sammála um að það eru ýmsar reglur í skattalögum sem eru algerlega fráleitar. En ég tel að hann komi ekki að kjarna málsins. Kjarni málsins er ekki sá að afnema fyrningar, og ég undrast dálítið þann skilning, sem mér hefur fundist koma hér fram í umr. á Alþ., að fyrningar séu algerlega óþarfar. Skilgreining á fyrningum er ekkert annað en það að þar er um kostnað að ræða. Þar er um það að ræða að dreifa fjárfestingarkostnaði yfir ákveðinn tíma. Sá fjárfestingarkostnaður leggst á mörg ár og kemur fram í úreldingu og sliti á viðkom!andi eign, þannig að þetta mál verður ekki leyst með því að afnema fyrningar. Hins vegar má í mörgum tilfellum draga úr þeim fyrningum sem nú eru leyfðar. Kjarni málsins er meðferð á söluhagnaði.

Samkv. núgildandi skattal. er heimilt að fyrna eignir. Lausafé verður skattfrjálst að 4 árum liðnum, en fastafjármunir, húseignir, verða skattfrjálsar að 6 árum liðnum án tillits til söluverðs. Það er afskaplega erfitt að koma því við að láta menn greiða skatt af þeim hagnaði sem þá myndast nema menn kaupi þá ekkert í staðinn. Við getum hugsað okkur að þeir aðilar, sem hafa nú keypt togara til landsins, fyrni sín skip, sem hafa jafnvel kostað 200 millj., niður í 20 millj. og hagnist á þeim, sem sagt söluhagnaður verði — við skulum segja 100 millj. kr. Ef þessir sömu menn kaupa annað skip í staðinn, þá er ekki um það að ræða að hægt sé að ná af þeim skatti af 100 millj., eða um 40–50 millj. kr. Hins vegar á þessi söluhagnaður að skerða þann fyrningarstofn, sem myndast á kaupum nýja tækisins. Ég er þeirrar skoðunar að það megi ýmislegt laga í sambandi við fyrningarnar. En aðalmálið er að breyta meðferð söluhagnaðar. Ef menn fjárfesta áfram í atvinnutækjum og atvinnulífi þjóðarinnar þá hafa þeir ekki aflögu til þess að greiða þar af skatt. Hins vegar ef þessir menn hætta að fjárfesta í atvinnulífi þjóðarinnar, þá eru þeir ekkert of góðir til þess að greiða af því skatt. En það er í sjálfu sér einfalt að segja sem svo að það verði að greiða af þessu skatt, en í flestum tilfellum er það það sama og segja að það verði ekki keypt nýtt atvinnutæki í staðinn nema þá að komi til veruleg lánafyrirgreiðsla á móti. Þetta er meginkjarni málsins, að breyta meðferð söluhagnaðar.

Þá eru nefndar hér ýmsar aðferðir til þess að komast hjá skattgreiðslu og í fyrsta lagi nefnt ákvæðið um varasjóð. Við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að félög greiða heldur hærri tekjuskatt en einstaklingar, eða 53.5%, en einstaklingar 50%. Varasjóðsheimildin er í sjálfu sér ekkert annað en lækkun á tekjuskatti félaga. Raunskattur félaga verður með því móti um 40%. Hins vegar eru ýmis góð ákvæði varðandi varasjóðinn, t. d. það ákvæði, að ef varasjóðurinn er á einhvern hátt skertur, t. d. notaður til að lána hluthöfum, þá verður hann skattskyldur með 20% álagi. Þetta gerir það að verkum að fé er bundið meira í fyrirtækjum en ella hefði orðið, þannig að ég er ekki sammála því að það beri að leggja varasjóðinn niður. Hins vegar hef ég talið að það mætti breyta honum, t, d. í fjárfestingarlánasjóð, sem ég ætla ekki að rekja frekar hér. En varasjóðsákvæðin hafa stuðlað að því — það er enginn vafi á því — að fé hefur verið bundið meira í atvinnulífinu í staðinn fyrir að taka það út úr fyrirtækjunum í t. d. einkaeyðslu.

Ákvæðin um svokallaða verðstuðulsfyrningu voru tekin í lög 1971, og nú hefur komið í ljós að þessi verðstuðulsfyrning verður 70% á lausafé, en var 10% árið áður. Ég er því alveg sammála að þessi fyrning er óraunhæf og allt of há. Ég vil hins vegar leiðrétta það, að það er ekki fjmrh., sem ákveður þessa fyrningu. Þessi fyrning er ákveðin í lögum og stuðullinn er reiknaður út af ríkisskattstjóra í samræmi við þau ákvæði sem eru í lögum. Það varð gífurleg verðbólga á síðasta ári og nú kemur í ljós að verðstuðulsfyrningin verður í takt við hana.

Ég vil aðeins koma að því að lokum, sem hér var nefnt, að það væri rétt að skattleggja verðbólgugróða. Við komum þarna að mjög miklu vandamáli. Það er alveg ljóst að menn hagnast á því í verðbólgu að skulda. Það eru til ýmsar leiðir til þess að ná þessum hagnaði, ef menn vilja orða það svo. Það má vísitölubinda lánin m. a. eða þá það má skattleggja hækkunina. Það er alveg ljóst, að það má segja að ungt fólk, sem fer út í íbúðabyggingar og leggur í miklar skuldir hagnist á því að skulda háar upphæðir, alveg á sama hátt og fyrirtækin hagnast á því að skulda háar upphæðir. Hins vegar verður slíkur verðbólguhagnaður ekki skattlagður, svo að gagni komi, nema við sölu eða upplausn þessa hagnaðar. Og ég vil að menn gái að því, áður en farið er að leggja á slíkan verðbólguskatt, að það er ekki hægt að reikna með því að hægt sé að greiða slíkan skatt nema eignin sé leyst upp.

Ég vil að lokum segja það, að ég vil biðja hv. alþm. að athuga það í umr. um afskriftir og fyrningar að hér er oft og tíðum um kostnað að ræða. Hv. flm. talaði um að það bæri að reikna skatta af brúttóhagnaði. Mér leyfist að spyrja: Hvað er þessi brúttóhagnaður? Er það hagnaður fyrir allar afskriftir? Og telur hann að það sé réttlátt að leggja skatta á fyrirtæki þannig að það séu engar afskriftir, engar fyrningar reiknaðar? Það er alveg rétt að það er ýmislegt sem má lagfæra og betrumbæta, en við megum líka gæta þess að ganga ekki of langt. Aðalatriðið í þessu máli, — ég vil endurtaka það — er að það ber að breyta ákvæðunum um meðferð söluhagnaðar.