21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Forseti. Ég held að hv. síðasti þm., sem var að ljúka máli sínu, misskilji algerlega þetta frv. Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum á veiðiheimildum eða þeim skilyrðum sem í gildi hafa verið hvað það snertir, heldur er þetta frv. um það eitt að samræma vinnslu sjávarafla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum. Það er það eina sem frv. gerir ráð fyrir.

Hins vegar eru lög gildandi, sem þessi hv. þm. átti töluverða aðild að því að undirbúa, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi, og í þeim 1. segir um rækjuveiðar:

„Ráðh. getur veitt undanþágu til þess að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum. Skal binda leyfin þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja. Einnig er heimilt að miða leyfisveitingar við ákveðnar stærðir báta.“

Um humarveiðar segir:

„Leyfi til humarveiða á tilteknum svæðum getur ráðh. bundið þeim skilyrðum, sem honum þykja nauðsynleg, og skal m.a. vera heimilt að gera upp á milli báta með tilliti til stærðar og annarra atriða.“

Þetta er búið að vera í gildi í mörg ár. Þessi ákvæði breyttust ekkert við endurskoðun l. Það voru miklir garpar sem unnu að undirbúningi þessa frv., gerðu viðreist um landið, og ég sá enga breytingu frá þeim í þessa átt, enda kemur þetta frv., sem hér er um að ræða, ekki inni á veiðiheimildirnar, ekki í einu einasta orði. Það er aðeins samræming á milli vinnslu og veiðiheimilda. Ef meiri hl. Alþ. er á því að fella niður allar slíkar veiðiheimildir og það megi hver og einn veiða þar sem honum sýnist á tilteknum afmörkuðum svæðum, eins og í þessum tilfellum, þá held ég að þessi þjóð geti ekki talað um að það sé verið að vernda fiskistofnana innan landhelginnar, ef það verður ofan á á Alþingi Íslendinga. Hins vegar hefur veiðileyfunum ekkert verið breytt í framkvæmdinni nú í mörg ár.

Hins vegar ætla ég að segja bæði þessum hv. þm. og öðrum það, að ég hef í hyggju á meðan þessi heimild er að afmarka enn frekar þessar heimildir hvað snertir stærð þeirra báta sem fá þessi leyfi, áður en gengið verður svo langt að enginn hefur neitt út úr þessum veiðum. Og það eru tvö sjónarmið uppi hvað mig snertir í sambandi við að afmarka frekar stærð báta. Það er í fyrsta lagi með að afmarka lágmarksstærðina, öryggissjónarmiðið. Ég tel, að það hafi verið gengið allt of langt í þessum efnum að leyfa smáum bátum, allt niður í 6–7 tonn, að stunda þessar veiðar, enda eru allmörg dæmi þess að þessir bátar, þegar þeir hafa fest vörpuna, þá hefur þeim hvolft. Það er líka til þess að minnka ásóknina í þessar veiðar nauðsynlegt að setja markið upp á við og það hef ég haft mjög í huga að gera. Þannig er ástandið á þeim svæðum, þar sem um þessar veiðar er að ræða, að það er sífellt minnkandi meðalafli á bát og ef á að afnema það með öllu og allir geta farið á þessar veiðar alls staðar af á landinu, þá held ég að hver þm. sjái að þá sé búið með þessa framleiðslugrein, því að þá gefst útgerðin auðvitað fljótlega upp.

Ég held að sú stefna, sem hefur verið ríkjandi í þessum efnum, að takmarka þessar veiðar, hafi verið rétt, þó að það megi ýmislegt að framkvæmd hennar finna.

Það er alger misskilningur þm. að með þessu frv. sé nokkurn hlut verið að hreyfa við veiðiheimildum. Ef engar veiðiheimildir verða og allt verður gefið frjálst, þá þarf ekki á þessu frv. eða afgreiðslu þess að halda. En ef það er skoðun alþm. að það eigi að halda áfram í þær takmarkanir, sem þarna hafi verið, þá tel ég brýna nauðsyn á samræmingu á milli vinnslu aflans og veiðanna. Ef við setjum takmarkanir á veiðar, þá verðum við að setja einhverjar skynsamlegar takmarkanir á vinnslu, en að menn geti ekki farið út í skefjalausa fjárfestingu í þeim tilgangi einum að drepa hverjir aðra.