16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

130. mál, fóstureyðingar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Virðulegi forseti. Það líður nú senn að því að fátt verði ósagt um þetta mál, svo lengi sem það er búið að vera á döfinni. Það hefur, að því er sumir segja, farið í heilann á fólki, og maður hefur heyrt hér á Alþ. einstaka þm. tala um frv., sem þeim eru ekki geðfelld, að það beri að eyða þeim í staðinn fyrir að fella þau hvort sem það eru áhrif frá þessu frv. Því var líka hvíslað í eyrað á mér hér einn daginn af einum ágætum landsbyggðarþm, að við skyldum bara láta þetta fóstureyðingarfrv. gilda í Reykjavík, þá úti á landsbyggðinni vantaði fleira fólk. En fjarri sé það mér að hafa þetta mál í flimtingum og gera það að gamanmáli. Þetta er, viðurkennum við öll, vandasamt, viðkvæmt og mannlegt vandamál sem við hljótum öll að taka afstöðu til samkv. vandlegri íhugun og bestu samvisku.

Það er enn sem fyrr viss gr. frv., sú 9., sem er aðalágreiningsefnið, og ég verð að segja það að ég hef fellt mig illa við það að heyra sífellt talað um að „fóstureyðingu að ósk konu hafi nú verið hafnað“. Að sjálfsögðu vita allir þeir sem nokkuð hafa kynnt sér þetta mál að sú staðhæfing er í sjálfu sér alröng þó að það ákvæði, sem hefst á þessum orðum, hafi verið fellt burt með niðurfellingu 1. hluta 9. gr. Það, sem gerst hefur við endurskoðun fyrra frv., er hins vegar það að ósk konu um fóstureyðingu ein saman án nokkurra læknisfræðilegra eða félagslegra ástæðna er í þessari gerð frv. ekki talin fullnægjandi til að fóstureyðing sé heimil. Þetta orðalag — „að ósk konu hafi nú verið hafnað“ — er því senn neikvætt og villandi. Að sjálfsögðu er það enn sem fyrr ósk konunnar sjálfrar sem fyrst og fremst ræður því hvort fóstureyðing er framkvæmd eða ekki. Það, sem deilt er um, er það hvort sjálfsákvörðunarréttur konunnar skuli þýða alræðisvald hennar eða hvort hann skuli háður einhverjum skilyrðum og takmörkunum.

Ég tel það alrangt og mistúlkun á frv., eins og það liggur fyrir nú, það sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði rétt áðan, að samkv. því væri konan allra manna síst talin til þess fallin að taka ákvörðun. Ég hef fyrir mitt leyti frá upphafi verið þeirrar skoðunar að fyrir konu, sem stendur frammi fyrir svo alvarlegri ákvörðun sem fóstureyðing er, sé visst aðhald í lögum í margfalt fleiri tilvikum mikilvægur og kærkominn stuðningur fremur en skerðing á framtíðarmöguleikum hennar og lífshamingju. Ég get í því tilliti tekið undir það sem kom fram í umræðunum hér fyrr í dag, m. a. í máli Ragnhildar Helgadóttur, að í því aðhaldi, sem felst í þessu frv., sé fólginn viss réttarvernd konunni til handa. Og ég sé ekki enn hvernig fóstureyðing, án þess að fyrir liggi nein af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í 9. gr. í þremur liðum, geti samrýmst því margyfirlýsta einróma viðhorfi til þessa máls að fóstureyðing sé alltaf neyðarúrræði.

Í 9. gr. frv., eins og það liggur fyrir nú, eru hinar félagslegu aðstæður skilgreindar mun skýrar en í fyrra frv. og ætti það að tryggja að sama skapi betur rétt konunnar til að slíkar ástæður séu teknar til greina. Ég verð um leið að játa að mér finnst síðasti stafliðurinn, þ. e. d-liðurinn í 1. hluta gr., sem tekur til „annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður“ — og þá er átt við allar hinar félagslegu ástæður — mér finnst þetta ákvæði svo teygjanlegt og óljóst að erfitt verði í mörgum tilvikum að meta hvort aðstæðurnar eru sambærilegar eða ekki. Ég tel að þetta ákvæði geti haft í för með sér á viðkvæmu stigi málsins þref og þras sem geti haft óæskileg og tefjandi og um leið afdrifarík áhrif fyrir afgreiðslu málsins. Ég tel að hver lög þurfi að vera eins skýr og ótvíræð og kostur er og því betri eru þau því færri krókar og smugur sem eru í þeim til þess að torvelda framkvæmd þeirra. En það er í sjálfu sér augljóst að þetta ákvæði er þó greinilegt rýmkunarákvæði, en að mínu mati er það í sjálfu sér ónauðsynlegt og mér væri ósárt um þótt það félli út úr frv.

Segja má að ákvæði 11. gr. — þar sem til kemur álit tveggja lækna eða læknis og félagsráðgjafa — þrengi eða geti verkað nokkuð hamlandi á framkvæmd 9. gr. En með tilliti til yfirlýsingar íslenskra lækna um stuðning við frv. eins og það liggur fyrir nú, þ. á m. að sjálfsögðu 9. gr., þá virðist mér ekki ástæða til tortryggni um að ekki verði framfylgt í reynd þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Í því sambandi má einnig vitna til þeirra upplýsinga frá landlækni nýverið að á undanförnum tveimur árum hafi verið synjað aðeins 2% þeirra umsókna um fóstureyðingu sem á þessum tíma bárust nefnd þeirri sem fjallar um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir samkv. núgildandi lögum, sem koma til með að rýmkast stórkostlega með umræddu frv. ef það verður að lögum. Þessi staðreynd virðist mér benda ótvírætt til þess að hafi viðhorf lækna áður verið fullþröngsýn til þessara mála, þá hefur þetta breyst mjög mikið og það áður en gengin er í gildi rýmri löggjöf um fóstureyðingar. Það liggur auk þess fyrir að þessi synjuðu 2%, sem um er að ræða, voru að miklum meiri hluta til komin vegna þess að meðganga fósturs var komin of langt á leið.

Um hinn margumtalaða sjálfsákvörðunarrétt og ábyrgð konunnar, sem verið hefur þungamiðjan í umr. um þessi mál hér sem annars staðar, vil ég segja þetta: Að sjálfsögðu vega þessi atriði þungt á metunum. En það hefur að mínu mati verið furðuhljótt um þá spurningu hvort þessi sami sjálfsákvörðunarréttur og ábyrgð konu komi alls ekki til fyrr en svo langt er komið að hún þarf á fóstureyðingu að halda, hvort hún þyrfti ekki og ætti ekki á fyrra stigi málsins að ráða yfir sínum „eigin kroppi“, eins og það hefur oft verið orðað í umr. um þessi mál, hvort hún hefði ekki fyrr þurft að vera sér meðvitandi um ábyrgð kynlífsins, afleiðingar þess og ávöxt. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á hlut karlmannsins, sem hingað til hefur sloppið vægast sagt „billega“ hvað ábyrgðina snertir, og um leið dóm almenningsálitsins. Væri sannarlega til athugunar hvort ekki væri hægt með löggjöf að tryggja betur hlut konunnar gegn ábyrgðarleysi mótaðilans í þessum efnum. Ég vil þó jafnframt benda á að hlutur karlmannsins mætti vera meiri en frv. gerir ráð fyrir í þeirri gerð sem við höfum það fyrir okkur nú hvað snertir ákvörðun hans um fóstureyðingu þar sem afkvæmi hans á í hlut.

Það þýðir ekki að flýja undan ábyrgðinni, sagði hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, er hann við 1. umr. þessa frv. af karlmannlegu göfuglyndi talaði fyrir auknu frelsi og ábyrgð konunnar. Sjálfsagt hefur Magnús viljað tala þetta af hellum hug og þeir aðrir með honum sem fylgjandi eru takmarkalausu og skilyrðislausu frelsi til fóstureyðingar og saka hina, sem ekki eru alveg á sömu skoðun, um þröngsýni og tvískinnung. En mér er spurn: Gætir ekki allverulegs tvískinnungs í þeirri afstöðu að eðlilegt sé og réttlætanlegt að láta ábyrgðina lönd og leið þegar stofnað er til fósturlífs, en höfða síðan til hinnar sömu ábyrgðar sem heilagrar skyldu og kröfu konunnar þegar hún á ein að bera ábyrgðina á því að eyða því sama lífi?

Af því að ég er nú að tala um hv. 3. þm. Reykv., þá vil ég um leið minnast á staðhæfingu hans um að fyrri gerð 9. gr. — þar sem var kaflinn sem hófst á orðunum „að ósk konu“ — sá kafli og ákvæðin eins og þau voru samkv. fyrra frv. væru ákaflega langt frá því að vera frjáls, að veita rétt til frjálsra fóstureyðinga, og hann tíndi til einar 3–4 ástæður, m. a. 12 vikna meðgöngutíma og álit og ráðgjöf læknis og sálfræðings með meiru. Mig langar í því sambandi að benda hv. þm. á að nefnd sú, sem undirbjó gamla frv. og samdi með því mjög vel unna og ítarlega grg. upp á 250 síður, sú n. segir í grg. sinni orðrétt, með leyfi forseta:

„Með umræddu ákvæði — að ósk konu — er gengið það lengst sem hægt er við rýmkun löggjafar um fóstureyðingu.“

Þessi nefnd, sem hv. þm. Magnús Kjartansson og fleiri hafa lofsungið mjög og að verðleikum, því að sú nefnd vann starf sitt mjög vel, er greinilega ekki á sama máli og hv. þm. Magnús Kjartansson, og mér verður að spyrja: Hvað meinar hv. þm. með að fyrra frv. hafi verið mjög langt frá því að veita algert frjálsræði? Hvað vill hann meira frjálsræði en þar er gert ráð fyrir? (MK: Ég var ekki að segja að ég vildi það.) Í bókinni um frelsið spyr breski höfundurinn og hugsuðurinn John Stuart Mill: Hvar á að setja mörkin? Hver eru réttu hlutföllin milli einstaklingsfrelsisins og félagslegs aðhalds? Hvaða reglur eiga að gilda? Mesta spurning mannlífsins er hverjar þessar reglur skuli vera. Það kann sumum að verða að orði að Mill sálugi sé úreltur og gamaldags. Ég hygg þó að þetta sé spurning sem bæði John Stuart Mill og fjöldamargir aðrir hafa fyrr og síðar lagt fram og fæst sennilega aldrei neitt algilt og endanlegt svar við. En öll munum við þó vera sammála um að í siðmenntuðu þjóðfélagi hlýtur einstaklingsfrelsið jafnan og óhjákvæmilega að verða margvíslegri skerðingu og takmörkunum háð. Frjálsar fóstureyðingar og frjálst kynlíf eru þar engar undantekningar.

Löggjafinn hlýtur þó hverju sinni að taka mið af aðstæðum og aldaranda samfélagsins og gæta raunsæis og hófs í kröfuhörku. Þannig væri það vafalaust hvorki gáfulegt né vænlegt til árangurs að sett væru lög um það hvenær unglingar mega byrja að sofa saman í von um að færri barnungar stúlkur þyrftu á fóstureyðingu að halda. Sjálfsagt verður það pillan og aðrar getnaðarvarnir sem við verðum að treysta á í þessum efnum fremur en sterkt og heilbrigt almenningsálit á meðan hinir fullorðnu, foreldrar og leiðbeinendur barna og unglinga, með brosi út í annað munnvikið virðast líta á það sem nokkuð sjálfsagðan hlut og jafnréttismál að börn byrji að lífa kynlífi um fermingaraldur. En hér erum við raunar komin að stórri spurningu uppeldislegs eðlis sem ég ætla mér ekki að fara nánar út í hér, en væri þó vel þess virði að athuguð væri og rædd.

Hvaða áhrif hefur fóstureyðing á konu eftir á, er önnur spurning sem mér finnst að hafi verið minni gaumur gefinn en mátt hefði ætla í umr. um þessi mál. Sýnt hefur verið fram á það með læknisfræðilegum rökum og tölum að líkamleg áhætta við fóstureyðingu sé alfarið minni en við meðgöngu og fæðingu og á sú áhætta vafalaust eftir að minnka með vaxandi tækni læknisfræðinnar og reynslu. Um hina hlið málsins, hina sálrænu og tilfinningalegu, liggja fyrir færri tölur og upplýsingar. Í hinni ítarlegu grg., sem ég talaði um áðan, sem fylgdi fyrri gerð frv., er þó getið um eftirrannsókn sem gerð var árið 1971 á 76 íslenskum konum sem fengið höfðu fóstureyðingu hérlendis á árunum 1966 og 1967. Þar kom fram að 72.4% af þeim hópi fundu ekki til neinnar eftirsjár, 18.4% fundu nokkra og 9.2% liðu á eftir mikla hugarkvöl. Í öllum tilvikum þessara 76 fóstureyðinga lá að baki ótvíræð og knýjandi nauðsyn til fóstureyðingar svo að ákaflega hæpið virðist að taka þessa könnun til almennrar viðmiðunar við gerð nýrra og frjálslegri laga, eða eins og segir í grg. um eina þeirra kvenna sem ekki fundu fyrir neinni eftirsjá: „Til þess voru erfiðleikarnir á heimilinu allt of miklir.“ — Um þetta segir enn fremur orðrétt í grg., með leyfi forseta: „Ein af þessum 76 konum varð tvisvar ófrísk eftir fóstureyðingu, lét eyða í annað skiptið og fór fram á að hún yrði gerð ófrjó, en fékk því ekki framgegnt. Þessi kona hafði 14 sinnum orðið ófrísk og fætt 10 börn. Hún hafði alls ekki getað annast þessi börn. Þrjú hafði hún gefið, en önnur höfðu verið undir eftirliti barnaverndarnefndar. Þrjú af börnum hennar eru í dag hálfgerðir aumingjar vegna drykkjuskapar og lögbrota. Að sögn barnaverndarnefndar hafa alltaf verið vandræði á heimilinu.“

En þannig og kannske enn þá meiri — sumar kannske minni — þannig voru ástæðurnar alfarið fyrir fóstureyðingu þessara 76 kvenna sem eftirrannsókn var gerð á.

Ég minnist þess er ég á sínum tíma las hina umtöluðu bók Gift, æviminningar dönsku skáldkonunnar Tove Ditlevsen, þá vakti sérstaka athygli mína hvernig hún lýsti sínum innri viðbrögðum er hún stóð frammi fyrir fóstureyðingu í annað sinn. Henni hafði ekki tekist að losna við áleitni eftirþanka sinnar fyrri reynslu. Henni fannst barnið hennar, sem ekki fékk að lifa, fylgja sér eftir sem skuggi og hana hryllti við samfylgd tveggja slíkra skugga. Tove lýsir hugarástandi sínu á hispurslausan hátt eins og henni er lagið, laus við tilfinningasemi og væmni.

En þessi hlið málsins, sú eftirsjá og hugarkvöl sem ég hygg að hljóti að verða því meiri fyrir konuna, því minni og léttvægari sem ástæðan var til þess að fóstureyðing var framkvæmd, þessi hlið málsins er að mínu mati ein hin alvarlegasta og örlagaríkasta fyrir jafnvægi konunnar og lífshamingju eftir á. Veit ég vel að almenningsálitið, viðhorf manna til þessara mála, hefur breyst meira en lítið á síðustu árum frjálsum fóstureyðingum í vil. Já, sumir, einkum ungar upplýstar konur, vilja jafnvel meina að móðurtilfinning og móðurást sé ekki annað en gamaldags kredda sem óþarfi sé lengur að taka mark á og orðið fórnfýsi virðist hreint eitur í þeirra beinum.

Í samtalsþætti í útvarpinn fyrir skömmu um fóstureyðingar og frv. það, sem liggur fyrir, kom það fram sem raunar kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., Jóns Skaftasonar, í dag — það sakar ekki þótt ég endurtaki það hér því að mér finnst upplýsingarnar dálítið sláandi — en þar kom fram að sænskar skýrslur frá Gautaborg sýna að árið 1971 voru í 16–19 ára aldursflokki stúlkna sem fengu þar fóstureyðingu á því ári, þá voru 24% endurteknar fóstureyðingar innan 11/2 árs. (Gripið fram í: 24.5) 24.5 ég þakka fyrir leiðréttinguna, hálfu prósenti meira. Að sama brunni bera upplýsingar sem ég hef góðar heimildir fyrir frá íslenskum lækni í Svíþjóð um 14 ára stúlku sem kom þrisvar sama árið til að fá fóstri eytt.

Það ætti ekki að dyljast neinum að slíkt hömluleysi í þessum málum hlýtur með svo háskalegum hætti að slæva heilbrigða siðgæðiskennd og tilfinningalíf þeirra kvenna sem þar eiga hlut að máli að þær biði þess margar aldrei bætur. Sérstakt áhyggjuefni í þessu tilliti hljóta að vera hinar barnungu stúlkur sem eiga allt lífið fram undan. En þarna á aukin fræðsla og leiðbeiningar að koma til samkv. frv., og síst vil ég gera lítið úr þeim þætti, verði honum framfylgt eins og til er ætlast. Ég er heils hugar sammála hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni um að þarna er einn allra mikilvægasti þáttur frv. og varðar öllu að það, sem þar stendur, verði ekki aðeins orðin tóm. En við vitum öll mætavel að öll fræðsla um þessi mál hefur verið í molum hjá okkur og er enn þótt unnið sé að því nú í menntmrn. að fella kynlífisfræðslu bæði á félagslegum og líffræðilegum grundvelli inn í námsstig grunnskólans. Ég vil, úr því að ég er komin út í það, greina frá upplýsingum um það efni sem ég fékk frá starfsmanni skólarannsókna.

Fræðsla um kynlífið í skólakerfinu er þannig á vegi stödd í dag hjá okkur að næstkomandi haust verður farið af stað með tilraunakennslu í 1. bekk í barnaskóla í sambandi við fræðslu um fjölskylduna og heimilið, Hinn félagsfræðilegi þáttur fræðslunnar heldur svo áfram í 3., 4., 7. og 8. bekk barnaskólans. Hinn líffræðilegi þáttur kemur svo inn í eldri bekkjum á 4., 5. og 8. ári. Ekki voru svör á reiðum höndum um það hvenær kennslan gæti hafist almennt eftir þessu fyrirhugaða skipulagi. Það er unnið að þessum málum í rn., en ég hygg því miður að full framkvæmd fyrirhugaðrar fræðslu eigi alllangt í land.

Það hefur líka verið talað um félagsráðgjöf sem mikilvægan þátt í leiðbeiningum til konu sem sótt hefur um fóstureyðingu. Ég get ekki að því gert, fyrst þegar ég las yfir hið fyrra frv. og grg. með því, að mér fannst kenna nokkurrar léttúðar í setningu eins og þeirri að félagsráðgjöf skyldi fara fram þar sem henni verður við komið. Mér verður nú hugsað til landsbyggðarinnar okkar í þessu sambandi. Þó að ég út af fyrir sig hafi enga oftrú á félagsráðgjöfum, þá veit ég að þeir eiga og geta gegnt þarna mjög mikilvægu hlutverki séu þeir starfi sínu vaxnir. En mér vitanlega er enginn einasti lærður félagsráðgjafi í starfi utan Stór-Reykjavíkursvæðisins. (Gripið fram í: Einn á Akureyri.), Einn á Akureyri, þá hefur það gerst nýlega og ég fagna því. Þeir mættu vera fleiri úr því að samin er heil löggjöf sem byggir svo mjög á starfi þeirra.

Þetta með fræðsluna kemur vonandi allt með tímanum. En ég held að varlega megum við gera ráð fyrir að þessum þætti frv. verði framfylgt í náinni framtíð og því ærin ástæða til að flýta sér ekki of mikið. Reynsla frændþjóða okkar, sem hafa þó margfalt meira gert en við á þessu sviði fræðslu og upplýsinga varðandi þessi mál. reynsla þeirra ætti að mínu mati að vera okkur alvarleg viðvörun fremur en hvatning til að lögleiða hér algert frjálsræði í fóstureyðingum. Enn vil ég vitna í grg. eldra frv., en þar segir um þetta atriði orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er reynsla annarra þjóða nú, t. d. frændþjóða okkar, að einmitt varnaðarstarfið hafi verið stórlega vanrækt. Þess er getið að auðveldara sé orðið að fá framkvæmda fóstureyðingu þar sem löggjöf hefur verið rýmkuð en að fá leiðbeiningar um getnaðarvarnir.“

Það mun staðreynd í þeim löndum, þar sem fóstureyðingar hafa verið gefnar algerlega frjálsar, að mönnum ofbýður hin óhugnanlega þróun, sem málið hefur tekið, og íhuga jafnvel nauðsyn þess nú að þrengja aftur lögin til að hamla á móti. Þar á ég ekki einungis við þau þrjú Austur-Evrópulönd sem talað hefur verið um og ég get vel ímyndað mér að hvatinn þar að baki sé hagstjórnarlegs eðlis. Þjóð eins og bretar sem hafa m. a. framkvæmt um 200 fóstureyðingar á íslenskum konum, í því landi heyrast nú raddir um að nauðsyn beri til þess að þrengja löggjöfina.

Ég fæ ekki séð að hægt sé af nokkru raunsæi að ætla að þróunin yrði ekki sú sama hér og annars staðar. Íslenskar konur eru í þessu tilliti sjálfsagt hvorki betri né verri en sænskar, danskar eða breskar kynsystur þeirra. Ég tel því að með almenn mannúðar- og siðgæðissjónarmið fyrir augum komi ekki til mála að ljá frekar máls á rýmkun fóstureyðingalaga en gert er í frv. því sem hér liggur fyrir. Það eru að vísu nokkur rök sem ég hef alltaf hlustað á að það er óheppilegt að löggjöf í þessum efnum sé þrengri hjá okkur en í nágrannalöndum okkar þannig að efnahagur og aðstaða konu geti ráðið því hvort hún fær framkvæmda fóstureyðingu eða ekki. En þau rök eru þó ekki haldbær, einfaldlega vegna þess að við sem velmegandi, félagslega háþróuð og kristin menningarþjóð hljótum að leita annarra leiða til að ráða bót á þjóðfélagslegu misrétti heldur en þá að ráðast gegn óbornu lífi í móðurkviði. Að hafna allri rýmkun á núgildandi fóstureyðingalöggjöf væri á hinn bóginn að mínu mati fullkomlega óraunsætt og yrði til þess eins að ólöglegar fóstureyðingar yrðu framkvæmdar í stórum stíl með öllum þeim hörmungum og spillingu sem því fylgir. Við hljótum því, eins og ég hef áður drepið á, að taka mið af viðhorfum samtíðarinnar án þess þó að láta berast gagnrýnislaust og án andspyrnu með straumum erlendra áhrifa og láta undan óbilgjörnum og siðlausum kröfum háværra minnihlutahópa sem lengst vilja ganga í þessum efnum.

Ég vil nú aðeins víkja að læknunum, af því að hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, veittist í dag að þeirri stétt með ósæmilegum hætti að ég fæ ekki orða bundist. Er ég þó enginn sérstakur talsmaður lækna og ég hef oft látið mig hafa það að taka undir gagnrýni í þá átt að læknishugsjónin sé í samtíð okkar að víkja fyrir þeirri líknarhugsjón sem hún upphaflega markaðist af. En hv. þm. Magnús Kjartansson lét þau orð falla að nú væri ekki kvartað af læknum í nafni siðgæðis og mannúðar, heldur vegna þess að tekið væri frá þeim vald. Þetta er það alvarleg og ósiðleg árás á eina stétt að mér finnst að ekki verði við því þagað. Og úr því að ég fór nú út í þá sálma, þá langar mig læknum til málsbóta að lesa upp úr leiðara Læknablaðsins frá því í fyrrasumar nokkur orð, sem falla í ákaflega góðan jarðveg hjá mér, og færi betur að sá maður, sem skrifar þetta, mælti fyrir munn allrar læknastéttarinnar og læknisnám og læknisstarf væri framkvæmt í þeim anda. En hann segir um stúdenta í læknadeild og inntöku stúdenta í læknadeild, með leyfi forseta:

„Í læknadeildirnar verða að veljast menn með háar siðgæðishugmyndir og sálarstyrk til að starfa í anda þeirra siðgæðishugmynda. Núverandi aðferðir við val læknanema eru því úreltar, þurfa að endurskoðast og endurbætast.“ Þetta vil ég heils hugar taka undir.

Í sama leiðara er komið inn á einn viðkvæmasta þáttinn í þessu máli sem er spurningin um það hvenær fóstur verður að manni. Þar segir — og þá eru þeir að tala um Genfarsamþykkt lækna sem er upphaflegi Hippokratesareiðurinn margendurnýjaður og endurbættur — þar segir í þessum siðareglum lækna sem nú er almennt talið að þeir eigi að vinna eftir:

„Í Genfarheiti lækna,“ segir með leyfi forseta, „er skýrt ákvæði um að lækni beri að virða mannslíf öllu fremur frá getnaði þess, enda láti hann ekki kúgast til að beita læknisþekkingu gegn hugsjón mannúðar og mannhelgi“ — eins og það er orðað.

Í framangreindu orðalagi felst sú skilgreining að líta beri á frjóvgaða eggfrumu sem mannslíf. Um þetta atriði eru skiptar skoðanir. Ekki er ágreiningur um að virða beri mannslíf, heldur hitt, hvenær, á hvaða stigi beri að líta á fóstur sem mannslíf. Varðandi afstöðu til fóstureyðinga er þetta frá siðfræðilegu sjónarmiði grundvallarspurning. Með tilliti til þess að kannske er læknum almennt kunnugt um það sem hér segir, þá er óþarfi að undrast yfir afstöðu þeirra gagnvart frjálsum fóstureyðingum.

Út af því sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði um yfirlýsingu Læknafélags Íslands um að yrði algert frjálsræði leyft í fóstureyðingum, þá mundu þeir hafa fyrirvara um ráðningu á þau sjúkrahús þar sem þessar aðgerðir yrðu framkvæmdar, þá má geta þess að í nýlegum frönskum lögum um þetta efni — þau voru staðfest nú um áramótin — eru mjög skýr ákvæði þar sem tekið er fram í þremur aðskildum greinum að hvorki læknar, ljósmæður, hjúkrunarkonur né heldur neins konar aðstoðarmaður á sjúkrahúsi geti orðið skyldaður til þess að vinna að fóstureyðingum ef það sé á móti þeirra ósk og siðgæðishugmyndum.

Ég vil, virðulegi forseti, ljúka máli mínu, en láta í ljós þá von mína að þetta frv. komist nú senn heilt í höfn hér á hv. Alþ. og að framkvæmd þess, ef að lögum verður, megi markast af þeirri festu, skilningi og mannúð sem hæfir þessu máli.