21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla að endurtaka það einu sinni enn þá að þetta frv. kemur hvergi inn á veiðarnar, vegna þess að takmörkun þeirra er byggð á gildandi l., en kemur aðeins inn á það að samræma vinnslu afla og veiðar, sem háðar eru sérstökum leyfum skv. gildandi löggjöf.

Ég furða mig á því, sem hv. 8. landsk. þm. sagði, og vil í fullri vinsemd benda honum á, af því að þetta er ekki meira lestrarefni en raun ber vitni, að það væri nauðsynlegt fyrir menn, áður en þeir kæmu í ræðustólinn, að gera sér grein fyrir því um hvað frv. fjölluðu, en hann talaði hvað eftir annað um rækju og humar. Hér er enginn skelfiskur unninn nema hörpudiskur og á hann er minnst í frv. og rækju. Þetta nær engan veginn til humarveiða, ekki á nokkurn hátt og hefur aldrei verið til þess hugsað, enda er humar unninn í hraðfrystihúsum, en ekki í sérstökum vinnslustöðvum. Þetta ætla ég að biðja hv. þm. að athuga áður en hann fer í ræðustól, að hlaupa ekki svona hrapallega á sig.

Það kemur manni hálfundarlega fyrir sjónir þegar sanntrúaðir kratar eru allt í einu orðnir boðberar frelsis og skefjalausrar fjárfestingar á öllum sviðum. Annað hefur maður heyrt úr þeim herbúðum, a.m.k. af og til. Þetta er kannske nýja stefnan eftir flokksþingið sem þm. var að reifa. Ég vil spyrja þennan hv. þm. að því: Telur hann þá eðlilegt að breyta öllum veiðiheimildum á þann veg að hver og einn geti farið á tiltekið svæði og veitt rækju eða hörpudisk alveg eins og hver kemst að? Vill hann standa að afnámi þessara kafla laganna, sem í gildi eru um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi, og hleypa öllum bátum, sem vilja þessar veiðar stunda, inn í Ísafjarðardjúp, í Arnarfjörð og í Húnaflóa? Er það þessi stefna, sem hann var að boða hér áðan í sinni ræðu? Það væri fróðlegt að fá skýr svör við því.

Mér er alveg sama þó að þessi hv. þm. hafi verið að hnýta í mig fyrir það að ég væri farinn að framkvæma þetta frv. áður en það væri orðið að lögum. Ég vísa því algerlega heim til föðurhúsanna. Hitt er alveg rétt, að við í sjútvrn. settum skilyrði fyrir því að bátarnir frá Blönduósi lönduðu þar ekki, en við getum engan veginn komið í veg fyrir að þeir setji upp vélar á Blönduósi. En fullyrðingar í samtölum og þó sérstaklega við Alþýðublaðið um tugmilljóna króna fjárfestingu við rækjuvinnslu á Blönduósi læt ég mér í léttu rúmi liggja. Það er engin bygging þar á ferðinni yfir rækjuvinnslu, en hins vegar er sláturhús til á Blönduósi og þar átti að setja þessar vélar inn. Þegar ég síðast vissi var ekki farið að ræða við dýralækni eða yfirdýralækni einu orði um hvort það væri leyfilegt að nota sláturhúsið í þessum tilgangi. Síðast þegar ég vissi var ekki farið að ræða við Fiskmat ríkisins um hvort það mætti leyfa fiskvinnslu í þessu tiltekna sláturhúsi.

Ef þetta er það skipulag, sem þessi hv. þm. vill taka upp, þá er ég ánægður yfir því að vera andstæðingur hans í þeim málflutningi. Ég tel að hér sé ekki verið að vinna til góðs fyrir sjávarútveginn eða fyrir hina ýmsu staði sem byggja lífsafkomu sína á tilteknum greinum. Þeir, sem hófu rækjuveiðarnar við Húnaflóa, Hólmvíkingar og Drangsnesingar hafa séð hverja vinnslustöðina rísa upp á eftir annarri á Skagaströnd, á Hvammstanga, en það er ekki hægt að veita ótakmörkuðum fjölda báta leyfi til veiða. Hér er farið eftir því sem Hafrannsóknastofnunin á hverjum tíma leggur til. Sjútvrh., hvorki núverandi sjútvrh., fyrrv. sjútvrh. né þeir tveir sjútvrh., sem voru á undan honum, hafa aldrei upp á sitt eindæmi afmarkað eða ákveðið hvað skuli veiða á hverju svæði. Það hefur alltaf verið byggt á till. fiskifræðinga, till. Hafrannsóknastofnunar, og við það hefur setið. Þegar ég fékk tilkynningu síðla dags 30. sept. frá Hafrannsóknastofnuninni um það að hún mælti gegn því að leyfa veiðar á rækju við Ísafjarðardjúp, þá datt mér ekki í hug, þó að ég væri þm. þessa héraðs, að líta ekki á þá aðvörun, en hún lagði til að veiðunum yrði frestað um hálfan mánuð. Ég auðvitað féllst á hálfan mánuð þó að ég væri mjög leiður yfir því hvað þessi dómur eða till. kom seint fram. Ráðh. eða ráðuneyti leyfir sér aldrei, alveg sama hverjir fara með þau mál, að taka ákvarðanir upp á sitt eindæmi í þessum efnum.

En þessi litla framleiðslugrein virðist vera farin að taka ansi mikinn tíma í þessu rn., og ég tel brýna nauðsyn á því að setja ákveðnari ákvæði í lög. En eins og ég sagði áðan, þegar ég svaraði hv. 3. þm. Sunnl., ef Alþ. vill afnema allar þessar heimildir, sem eru í gildandi löggjöf og koma þessu frv. ekkert við, þá er það auðvitað annað mál. Þar er ég auðvitað algerlega á móti og skiptir engu máli hvort ég er sjútvrh. eða ekki. Ég hygg að þá væri unnið fyrir gíg allt það sem búið er að gera til verndar fiskstofnum á einstökum svæðum.

Ég skil mætavel það sjónarmið 3. þm. Sunnl. að það er alltaf erfitt að setja ákvæði um svona svæðaveiðar og binda þær við ákveðin svæði. Þetta er búið að vera í gildi í fjöldamörg ár og treystir enginn sér til að afnema það af þessum ástæðum.

Ég býst við því að það megi segja að þeir, sem eru nálægt auðugum miðum, hverrar tegundar miðin eru skiptir ekki máli, þeir hafa auðvitað forréttindi fram yfir aðra og við því er ekkert að segja, það verður að taka því. Annaðhvort er að veita þessi leyfi með hliðstæðum hætti og gert hefur verið, en þó setja inn fyllri ákvæði, eða þá banna þau að öllu leyti og leggja algerlega niður þessa grein sjávarafurða. Hitt kemur engum til hugar, alveg örugglega ekki einum einasta alþm., að það sé mögulegt að hleypa ótakmörkuðum fjölda báta inn á svona afmörkuð tiltekin svæði.