21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. sjútvrh. að mér urðu á þau mismæli að nefna humar í stað skelfisks og leiðrétti ég það hér með. Hafi ég lesið rangt, þá hefur hæstv. ráðh. líka hlustað rangt vegna þess að hann lagði þannig út af mínum orðum að ég væri að hvetja til þess að allir fengju frjálsan aðgang að rækju- og skelfiskveiðum. Hann spurði: Vill þm. heimila hverjum sem er að ráðast inn á t.d. Ísafjarðardjúp eða Arnarfjörð og sækja þar rækju eins og hver vill hafa? Þetta sagði ég aldrei. Þetta kom ekki fram í minni ræðu. Þessi spurning er gersamlega óþörf. Ef hæstv. ráðh. er eitthvað í vafa um mína skoðun á þessu máli, þá get ég sagt það honum til hugarléttis að ég er honum sammála um það og ég held að allir þm. séu það, að það ber að hafa eftirlit með þessum veiðum o veita leyfi til þeirra eins og gert hefur verið. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að ég held að ég muni það rétt að það var Alþýðuflokksmaðurinn Eggert G. Þorsteinsson, sem þá var sjútvrh., sem beitti sér hvað mest fyrir slíkri leyfisveitingu og slíku eftirliti með rækjuveiði og vinnslu og öðru af slíku tagi.

Hitt benti ég ráðh. á, að í 2. ,gr. frv. væri verið að leggja út á nýja braut. Ég benti honum á að þar væri verið að fara inn á þá braut að taka upp leyfisveitingar og fjárfestingarleyfisveitingar, — menn geta kallað það höft eða hverjum orðum sem menn vilja. Ég hélt að hæstv. ráðh. skildi best heitið höft á því, vegna þess að málgagn hans, Morgunblaðið, hefur yfirleitt notað það nafn um slíkar athafnir. Ég benti líka á að þetta væri mál sem væri mjög erfitt við að fást, m.a. vegna þess hver viðbrögð heimamanna gætu orðið við því, og benti á Blönduósmálið sem dæmi og notaði til hliðsjónar þær fregnir sem borist hafa um þau mál í blöðum. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hæstv. sjútvrh. veit miklu meira og betur um það mál heldur en ég og aðrir þm., því að eftir því sem mér skilst mun hann hafa fengið töluvert mikið af grg. og bréfum um einmitt það mál, eins og hann upplýsti sjálfur hér áðan, þegar hann sagði að þetta litla mál hefði tekið ótrúlega mikinn tíma í rn.

Jafnaðarmenn eru að sjálfsögðu fylgjandi áætlunarbúskap í þjóðarbúskapnum. En það er vandamál að framkvæma slíkan áætlunarbúskap. T.d. um þessar leyfisveitingar, sem hér er verið að ræða um, þá verða menn að geta gengið að því gefnu hvar má reisa slíkar fiskvinnslustöðvar og hvar ekki. Það á ekki að hleypa mönnum í það, kannske af vankunnáttu þeirra sjálfra, að þeir byrji undirbúning að því að byggja slíka stöð, séu búnir að kosta miklu fé til þess þegar neiið kemur allt í einu eins og þruma úr heiðskíru lofti frá sjútvrn. Það er rétt stefna að leitast við að byggja upp fiskvinnsluver og önnur atvinnufyrirtæki eftir einhverri fyrirframgerðri áætlun um það hvernig fjármagnið verði best nýtt og hvernig viðkomandi vinnslustöðvar geti best nýst heimabyggðum sínum, sjómönnum og landverkafólki. En ég sagði og endurtek það: Þetta fer allt eftir framkvæmdinni. Það er ekki fyllilega ljóst hvernig þetta mál á að framkvæma fyrr en ráðh. hefur sett reglugerð skv. 3. gr. þessa frv. Ég varaði við því og vara við því enn, að þetta mál er mjög viðkvæmt fyrir heimamenn, og ég vil skora á hæstv. ráðh. og ég efast ekkert um það að hann er af vilja gerður til þess að verða við þeim áskorunum að reyna að hafa sem fyllst samráð við heimamenn um gerð slíkrar áætlunar, vegna þess að hann þekkir úr sínu eigin kjördæmi hversu viðkvæm þessi mál eru.