17.04.1975
Efri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3020 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

229. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Steingrímur Hermannason) :

Herra forseti. Laxveiðilöggjöf okkar íslendinga er að því leyti nokkuð sérstæð að við leyfum almennt ekki laxveiði í sjó. Ég held að megi örugglega rekja til þessarar staðreyndar að laxgengd í íslenskar ár hefur a. m. k. haldist og jafnvel aukist á sama tíma og yfirleitt hefur orðið verulega minni laxgengd í ár nágrannaþjóða okkar. Við íslendingar höfum einnig verið mjög framarlega í flokki þeirra, ef ekki fremstir, sem á opinberum vettvangi hafa beitt sér mjög fyrir því að laxveiði væri bönnuð í sjó eða mjög takmörkuð. Á þessu hefur þó verið sá ljóður á ráði, að í laxveiðilöggjöf okkar eru undantekningar í 14. gr. laxveiðilöggjafarinnar. Þar er 3. liður, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nú hefur laxveiði í sjó verið metin sérstaklega til dýrleika í fasteignamati því er öðlast gildi árið 1932 eða tillit hefur verið tekið til hennar við ákvörðun fasteignaverðs í því mati og er þá sú veiði leyfileg.“

Með frv. til l. á þskj. 438, sem við flytjum fjórir þm., er gert ráð fyrir því að fella brott þetta ákvæði í 14. gr. og sömuleiðis 5. lið þessarar gr. sem leiðir af því fyrra. Hér er ekki um víðtækan atvinnuveg að ræða. Þetta er á tiltölulega fáum stöðum við landið og eftir því sem við komumst næst mun hér varla vera um nema fárra millj. kr. virði, þannig að ekki þarf þessu að fylgja mikill kostnaður. Hins vegar hafa þessari undanþágu fylgt ýmiss konar vandræði. kærur og deilur manna á meðal. Auk þess, eins og ég sagði áðan, má færa fyrir því rök að þetta sé veikleiki á okkar að öðru leyti góðum málflutningi á þessu sviði.

Þetta er meginefni þessa frv., að þetta ákvæði verði niður fellt.

Í 2. gr. frv. eru gerðar smávegis breytingar á 94. gr. laganna, 2. málsgr. Fyrst og fremst eru breytingarnar fólgnar í því, að kveðið er á um það að þeir menn, sem héraðsdómari dómkveður, ef um mat er að ræða, skuli eins og fyrr vera tveir, en annar þeirra skuli vera vatnalíffræðingur. Einnig er tekið inn í gr.: „Matsmenn skulu rökstyðja niðurstöður sínar.“

Ég vil geta þess, að þetta frv. er nú flutt í þriðja sinn, – það var flutt á 93. og 94. löggjafarþingi, — hefur því þegar verið í meðferð n. Það er von okkar flm. að frv. geti nú fengið skjóta afgreiðslu með tilliti til fyrri athugunar.

Ég vil einnig geta þess, að borist hefur áskorun frá Landssambandi ísl. stangveiðimanna þar sem eindregið er mælst til þess að frv. þetta yrði endurflutt og samþ.

Með þessum orðum vil ég lýsa þessu frv. og óska þess að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.