17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. 7. þm. Reykv. drap raunar á flest þau atriði sem ég hafði hugsað mér að minnast á svo að ég þarf ekki að lengja þessar umr.

Ég vil fyrst lýsa því yfir að það er sannarlega ánægjulegt að sjá þann áhuga sem þessu nauðsynjamáli er sýndur af Alþ. í vetur. Hins vegar endurspeglast hér í þingsölum sá vandi sem hefur valdið því hversu seint hefur gengið að þetta mál um fæðingarorlof allra vinnandi kvenna næði fram að ganga. Það er ágreiningur um fjármögnun, ekki ágreiningur um nauðsyn málsins.

Till. Bjarnfríðar Leósdóttur um fæðingarorlof kvenna kom fram mjög snemma á þessu þingi. Það er 143. mál þingsins, og þar er gert ráð fyrir að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að gera breytingar á lögum um almannatryggingar til þess að tryggja konum 3 mánaða fæðingarorlof. Ég tek undir orð hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, að mér hefði fundist það eðlilegt og þinglegri vinnubrögð að n., sem fékk þetta til meðferðar, hefði verið búin að afgr. þessa till. Nægur hefur verið tíminn til þess, og þá hefði verið hægt að kanna viðhorf alþm. til þeirrar fjármögnunar sem þar er lagt til.

Það er alkunna og kom fram einnig í ræðu hv. þm. Eðvarðs Sigurðssonar, að ástæðan til þess hversu treglega hefur gengið að fá fæðingarorlofið fram er sú að staðið hefur á atvinnurekendum fyrst og fremst. Þeir hafa verið tregir til að samþ. þessa kröfu kvenna. Þess vegna hefur málið dregist á langinn, enda þótt vitað sé að þessi afstaða þeirra bitnar á konum og verður því verra sem lengur dregst að leysa þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar, að eðlilegra sé og eðlilegt sé, að almannatryggingum sé falið að sjá um þessar greiðslur. Ég held að reynsla undanfarinna ára og barátta verkalýðskvenna sýni að það er eina leiðin ef á að leysa þetta mál. Má færa fyrir því siðferðileg rök að rétt sé að konur fái greitt úr almannatryggingum, jafnvel þó að þær séu ekki ríkisstarfsmenn. Almannatryggingar eru fjármagnaðar af ríkisjóði, og ef við trúum því að við fæðingu barns eigi að vera trygging fyrir sómasamlegri afkomu þess án þess að atvinnuöryggi móður sé skert, þá hlýtur þetta að vera á ábyrgð þjóðfélagsins alls. Fjármögnun almannatrygginga mundi líka tryggja konum óskert full laun, sem frv., sem hér er til umr., mundi tæpast gera.

Það má auðvitað hlægja að því að benda á slysatryggingarnar. En fyrir þá, sem ekki vilja fallast á að þetta verði fjármagnað úr ríkissjóði án nokkurra annarra skilyrða, þá eru það einu tryggingarnar innan almannatrygginganna sem fæðingarorlofið gæti fallið undir. Iðgjöld eru borin uppi af atvinnurekendum og markmiðið er að tryggja afkomu og atvinnuöryggi þess fólks, sem atvinnurekendur hafa í þjónustu sinni, ef eitthvað það ber að höndum að það geti ekki stundað vinnu sína.

Í mínum huga er aðalatriðið að mál þetta nái fram að ganga á þessu þingi, og ég held að umr. um fóstureyðingar, sem hér hafa átt sér stað, ættu að vera okkur hvatning til að reyna að komast að samkomulagi um það og láta ekki ágreining um fjármögnun tefja afgreiðslu þess.

Ég vil því leyfa mér að beina því til hv. 1. flm. að einmitt í þessum tilgangi beiti hún fyrst og fremst áhrifum sínum til þess að þáltill. Bjarnfríðar Leósdóttur verði afgr. úr n. og það verði þá kannað eftir þeim leiðum, hvort almannatryggingar geti ekki valdið þessu verkefni. Ef það kemur í ljós að það þyki algjörlega ófært af einhverjum ástæðum, sem ég hef ekki trú á, þá verður að leita annarra leiða. En til lausnar þessa máls held ég að þetta sé eina rétta leiðin og treysti hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur til að beita áhrifum sínum í þessa átt.