17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Mér virðast umr. um þetta mál einkennast mjög af því, sem vekur athygli nýrra manna á þingi, að kerfið sé óbreytanlegt. Því, sem einu sinni hefur verið komið á, má ekki breyta, hvað sem því líður að allir geti verið sammála um nauðsyn þess máls sem um kann að vera að ræða í það og það skiptið. Hér er mjög gott dæmi um það, að flestallir þm. geta verið sammála um, að fæðingarorlof til kvenna, 3 mánaða fæðingarorlof til allra kvenna, hvort sem þær vinna hjá hinu opinbera eða úti í atvinnulífinu, sé mikilvægt mál, nauðsynjamál og réttlætismál, eins og hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, hóf mál sitt á að segja áðan.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að í samningaviðræðum 1974 voru þessi mál mjög til umr., og þá voru einnig fleiri mál til umr., svo sem kauptryggingarmál o. s. frv. Ég minnist þess að upp úr þeim samningum kom sú niðurstaða m. a. að Atvinnuleysistryggingasjóður tók á sig ákveðnar skuldbindingar í þeim efnum og er það vel. En síðan sagði hv. þm. að það væru takmörk fyrir því hvað Atvinnuleysistryggingasjóður gæti á sig lagt í sambandi við skuldbindingar, og mun tilefni þessara ummæla hafa verið það, að við leggjum hér til að Atvinnuleysistryggingasjóður verði notaður með þeim hætti sem frv. lýsir, þ. e. að tryggja konum úti í atvinnulífinu 3 mánaða fæðingarorlof. Hann sagði, að til þess að það væri unnt, — hann tók ekki fyrir að það væri hægt, — en þm. sagði að til þess að Atvinnuleysistryggingasjóður geti innt þetta af hendi þurfi að leysa hann undan öðrum skuldbindingum, þ. e. a. s. þá þurfi að breyta starfsvenjum Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Ég er þessu sjónarmiði fullkomlega sammála, að að öllu óbreyttu geti Atvinnuleysistryggingasjóður ekki tekið þetta á sig nema að vissu marki. Ég er honum fullkomlega sammála um það, að með tilliti til þessa þurfi að breyta um starfsvenjur hjá sjóðnum til þess að ná þessu markmiði. Hann rakti í mjög ítarlegu máli, hvernig staða sjóðsins væri með tilliti til iðgjaldatekna, vaxtatekna og framlaga árið 1975, og komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða 870 millj. kr. heildartekjur, en áætlaði síðan skuldbindingar, eftir því sem ég best náði, upp á 553 millj. sem væru bundnar. Hann vakti einnig athygli á því, að margar af skuldbindingum Atvinnuleysistryggingasjóðs væru lögboðnar. Nefndi hann sem dæmi að sjóðnum væri fyrirskipað að kaupa veðskuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins. Hv. þm. nefndi einnig að sjóðurinn yrði að standa undir lífeyrisgreiðslum vegna aldraðra að 3/4 hlutum samkv. lögum frá 1970, og svo að sjálfsögðu þyrfti sjóðurinn jafnan að áætla ákveðna upphæð vegna hugsanlegs atvinnuleysis. Þá minntist hann á að sjóðurinn lánaði verulega til sveitarfélaga, ríkisins og einstaklinga.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því hvað Atvinnuleysistryggingasjóður hefur gegnt mikilvægu hlutverki í sambandi við þessi atriði sem rakin voru hér áðan. En ólíkt finnst mér það skyldara hlutverki Atvinnuleysistryggingasjóðs að tryggja þeim konum, sem greitt er af verulegar fjárupphæðir í Atvinnuleysistryggingasjóð — ólíkt finnst mér það skyldara að greiða til þeirra 3 mánaða fæðingarorlof heldur en t. d. að lána til sveitarfélaga og ríkis á svo lágum vöxtum sem raun ber vitni. Um það atriði, að Atvinnuleysistryggingasjóður lánar til Byggingarsjóðs ríkisins, vil ég einnig segja það, að mér finnst það tengdara hlutverki sjóðsins að greiða fæðingarorlof til kvenna, sem greitt er af inn í sjóðinn, heldur en að lána til Byggingarsjóðs. Legg ég að jöfnu að fara þessa leið, sem við bendum á, eins og þegar samið var um að sjóðurinn tæki á sig kauptryggingarskuldbindingarnar samkv. samningunum í ársbyrjun 1974.

Um það, hvað hér geti verið um mikla upphæð að ræða, er erfitt að segja að svo stöddu. Nákvæm athugun hefur ekki farið fram á því um hversu margar konur er hér að ræða, en get ímyndað mér að þær fjárhagsskuldbindingar vegna kvenna úti í atvinnulífinu, sem aðeins hafa 12–18 daga orlofsfrí vegna fæðinga, geti verið yfir 200 millj. kr. á ári miðað við núgildandi verðlag og kauplag.

Varðandi það, hvað hæstv. félmrh. segði við því ef helmingurinn af tekjum Byggingarsjóðs færi í þessar þarfir, þá vil ég segja það fyrir mitt leyti að það er hans mál hvernig hann svarar fyrir sig, en ég endurtek að mér finnst ólíkt mikilvægara að konur úti í atvinnulífinu fái greitt fæðingarorlof úr Atvinnuleysistryggingasjóði en þessum peningum sé varið til þess sem ég vil kalla óskyldar þarfir. Hér er um geysilega mikið réttlætismál að ræða. Við erum öll sammála um það, að því réttlæti verði að fullnægja. En við erum e. t. v. ekki enn þá fullkomlega sammála um leiðirnar. Þetta réttlætismál varðar þúsundir kvenna í atvinnulífinu. Þessar konur búa við mjög ófullnægjandi kjör hvað fæðingarorlof áhrærir, og eins og ég sagði áðan er um að ræða í mesta lagi 2–3 vikur. Ég get nefnt það sem dæmi að í þeirri stétt, sem ég er í forsvari fyrir, eru þúsundir kvenna sem aðeins njóta 12 daga fæðingarorlofs.En við samningana í fyrra samdi Verkamannasamband Íslands, ef ég man rétt, um 3 vikna fæðingarorlof fyrir þær konur sem eru í því sambandi. Þetta er algjörlega óviðunandi. Það er algjörlega óviðunandi að konur búi við svo skert og slæm kjör í þessum efnum, ekki hvað síst þegar það er haft í huga að konur, sem vinna hjá hinu opinbera, hafa notið þessa réttar í tæplega tvo áratugi, þ. e. a. s. 3 mánaða fæðingarorlofs, enda er það talinn lágmarkstími fyrir bæði móður og barn að konur njóti samtals 3 mánaða hvíldar frá vinnu bæði fyrir og eftir fæðingu. Þetta hefur lengi verið baráttumál þeirra stéttarfélaga, sem hafa konur innan sinna vébanda. Árangur þessarar baráttu hefur því miður verið mjög takmarkaður og eru þar mörg ljón í veginum, m. a. andstaða atvinnurekenda og sérstaklega þeirra sem eru með lítil fyrirtæki. Þar hefur ríkt mikið skilningsleysi á þessu máli, enda geri ég ráð fyrir því að í mörgum tilfellum geti verið illframkvæmanlegt að veita þriggja mánaða orlof þar sem fáar konur starfa í litlum fyrirtækjum.

Ef ég man rétt var lögð fram þáltill. á vinstristjórnarárunum af Alþb.-konu, Bjarnfríði Leósdóttur, þar sem hún beindi því til þáv. ríkisstj. að það yrði athugað hvort konur úti í atvinnulífinu gætu ekki fengið þriggja mánaða fæðingarorlof. Sú ágæta kona, sem sat hér á þingi s. l. haust sem varaþm., kom með sams konar þáltill. einnig í vetur. Það, að þessi þáltill., bæði í tíð vinstri stjórnar og nú í tíð núv. stjórnar, — að vísu má segja að þessi till. sé enn í n. og hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu, — en það að þessi till. fékk ekki afgreiðslu í tíð vinstri stjórnarinnar ber þess nokkurn vott að ekki hafi verið mikill vilji hjá hv. Alþ. að afgreiða þetta mál á þann hátt sem hv. 5. landsk. þm., Svava Jakobsdóttir benti á áðan, þ. e. a. s. að koma þessu máli í höfn í gegnum tryggingakerfið. Það hefur greinilega ekki hlotið nægilegan hljómgrunn hér á Alþ. til þess að það verði lengur treyst á þá leið eina.

Þess vegna höfum við leyft okkur, flm. þessa frv., að brydda hér upp á nýrri leið, sem við teljum vænlegri til þess að koma þessu máli í höfn, þ. e. a. s. að koma þessu réttlætismáli, eins og mörgum öðrum réttlætismálum, svo sem kauptryggingarmálinu s. l. ár, í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Eðli málsins samkv. er það mjög skylt raunverulegu hlutverki og tilgangi Atvinnuleysistryggingasjóðs, vegna þess að hér er um tryggingu að ræða, fæðingarorlof, fyrir konu. Þessi framkvæmd er hreintryggingalegs eðlis og jafnframt er hún atvinnulegs eðlis. Atvinnuleysistryggingasjóður er myndaður með framlögum frá hinu opinbera og atvinnurekendum, og í sjóðinn hafa verið greiddar hundruð millj. kr. vegna þúsunda kvenna sem hafa unnið hin fjölbreytilegustu störf úti í atvinnulífinu í þágu þjóðarheildarinnar og sjálfs sín. Ég minni hv. þm. á þær þúsundir kvenna, sem hafa unnið í fiskiðnaði, í verslun, við þjónustu, samgöngur, í iðnaði. Af öllum þessum konum hefur verið greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð árlega í tæpa tvo áratugi og skipta þær upphæðir hundruðum millj. sem komnar eru í sjóðinn vegna þeirra. Við skulum svo líta á þá hlið, hvað þessar konur hafa lagt miklar kvaðir á Atvinnuleysistryggingasjóð. Hvað hefur verið greitt mikið vegna þessara kvenna vegna atvinnuleysis? Það liggja ekki fyrir óyggjandi tölur um það, en ég þori að fullyrða og miða það nokkuð við þá reynslu, sem ég hef úr minni stétt, og þess, sem ég þekki t. d. úr verksmiðjuiðnaði, að það hefur ekki verið greitt til þessara kvenna í atvinnuleysisbótum nema lítið brot af þeim miklu upphæðum, sem hafa farið í sjóðinn vegna þeirra og þeirra starfa úti í atvinnulífinu. Þess vegna er raunverulega ekki verið að gera neitt annað en að það er verið að endurgreiða hluta af þessum upphæðum til kynsystra þeirra með því að gera það í formi fæðingarorlofs.

Höfuðstóll Atvinnuleysistryggingasjóðs mun vera kominn yfir 3 milljarða. Um það vita þeir gerst sem sitja í sjóðsstjórn og þ. á m. er hv. 7. þm. Reykv. Fjármagn sjóðsins hefur, eins og nefnt hefur verið af fyrri ræðumönnum og mér, verið notað til margra og ég vil segja þarflegra framkvæmda. En ég endurtek að það er eðlilegra og það er tengdara tilgangi og hlutverki sjóðsins að nú verði tekið inn í verkefni þessa sjóðs að greiða þriggja mánaða fæðingarorlof með þeim takmörkunum sem reglur Atvinnuleysistryggingasjóðs segja að öðru leyti til varðandi atvinnuleysisbætur.

Það kann að vera að þessi leið, sem við bendum á, falli ekki í nægilega góðan jarðveg hjá sumum hv. þm. Þó held ég, að ef þeir hugsa og athuga málið betur, þá muni þeir komast að þeirri niðurstöðu að þetta er vænleg og góð leið til að tryggja þessu máli framgang og koma því í höfn sem fyrst og þar með tryggja það réttlæti, að öllum vinnandi konum utan heimila sé tryggður sami réttur og viðunandi fæðingarorlof. Með framangreint í huga vænti ég þess og við flm. að þetta frv. megi verða til þess að tryggja framgang þessa jafnréttis- og réttlætismáls, þannig að Alþ. og við öll höfum sæmd af.