22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

130. mál, fóstureyðingar

Gunnlaugur Finnsson:

Virðulegi forseti. Við umr. og við atkvgr., sem fram fóru hér í þessari hv. þd. þegar fram fór 2. umr. um frv. það sem hér liggur fyrir, kom í ljós að þm. skiptust í þrjá hópa. Í einum hópnum voru þeir sem vildu lögleiða það sem almennt er kallað frjálsar fóstureyðingar. Í öðrum hópi voru svo þeir sem vildu að breytingar eða rýmkunartill. meiri hl. heilbr.- og trn. yrðu samþ. Og loks þeir sem vildu gjarnan gjalda varhug við þeim rýmkunarákvæðum sem frv. hefur fengið í meðförum þingsins frá því það var lagt fram á þessu þingi og til þessa. Ég fyllti þann hóp, hinn síðasta. Ég hef verið því fylgjandi að ný löggjöf yrði sett um þessi efni og er efnislega samþykkur I. og III. kafla frv.

Ég hef jafnan viljað reisa nokkrar skorður við frelsi til fóstureyðinga. Varla fer það á milli mála að frv. það, sem hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, lagði fram meðan hann var heilbr.- og trmrh., átti hvorki þá né nú fylgi meiri hl. þm. Ég geri þó fyrir mitt leyti ekki mikinn mun á hinu upprunalega frv. Magnúsar Kjartanssonar og þeirri mynd frv. sem nú liggur fyrir eftir að það hefur verið teygt og togað í orðalagi og túlkun. Ég vil auk þess benda á að frv. gengur nú á vissan hátt lengra í frjálsræðisátt en fyrsta frv. og kem ég að því síðar.

Mér er til efs að þm. hafi leitt að þessu hugann sem skyldi. Við 2. umr. þessa máls fór sem oft fyrr að harla fáir þm. fylgdust með umr. umfram þá sem til máls tóku. Hér hvíldi þó alveg sérstök skylda á þm. Hér var sjálf löggjafarsamkoma þjóðarinnar að tefla um líf og dauða fjölmargra óborinna þegna þessarar fámennu þjóðar, þegna sem e. t. v. yrðu afreks- og forustumenn á ýmsum sviðum þjóðmálanna ef löggjafinn opnar ekki allar gáttir til að koma í veg fyrir að lífi þeirra verði eytt og komið í veg fyrir þroska þeirra.

Þær eru út af fyrir sig margar, konurnar á Íslandi sem glaðar vilja hætta heilsu sinni og jafnvel lífi til að öðlast þá gleði, sem fylgir því að geta af sér nýtt líf. Þess vegna er það dapurleg staðreynd að þær eru og margar konurnar sem vilja láta eyða því lífi, sem með þeim hrærist, vegna tímabundinna erfiðleika, enda þótt þær hafi til þess heilsu. Ég segi þetta ekki konum til hnjóðs. Ég tel hugarstyrk þeirra almennt í engu standa að baki hugarstyrk karlmanna. Mér kemur í hug ein saga eftir Einar H. Kvaran þar sem hann hefur í því snilldarverki sínu leitt okkur fyrir sjónir hvernig tímabundnir erfiðleikar eyðast oft skjótt eins og sorg barnsins eyðist sem dögg fyrir sólu. Þar lætur hann konu skýra það fyrir fóstursyni sínum fullorðnum að það, sem hann á þeirri stundu mat sem óyfirstíganlega eða óbærilega örðugleika, mundi síðar reynast hégómi, rétt eins og tregi hans í ákveðnu tilviki sem barns. Við erum stundum glámskyggn á erfiðleika okkar og á það jafnt við um bæði kynin. Örlagaríkar ákvarðanir skyldi enginn taka óheilum huga. En því dreg ég þetta fram hér að ég vil undirstrika og taka undir ummæli hv. 2. þm. Norðurl. v. við 2. umr. þar sem hann varaði við opnum heimildum sem leiða e. t. v. til fljótfærnislegra ákvarðana. Mér þótti sumir ræðumanna, sem mæltu fyrir mestu frjálsræði, seilast nokkuð langt í rökum sínum og málflutningi sem óneitanlega bar þann keim að verið væri að verja slæman málstað.

Úr því að ég er kominn í þennan ræðustól og enda þótt hér séu harla fáir sem hlýða á mál mitt get ég ekki látið hjá líða að harma það að einn hv. þm., sem til máls tók, misvirti minningu ágætrar merkiskonu og mannvinar, frú Guðrúnar Lárusdóttur, með því að gera tilraun til að láta þingheim og gesti þingsins hlæja að varnaðarorðum hennar fyrir 40 árum. Ég tel að rök og viðvörunarorð, sem þá voru sett fram gegn einhverri frjálslyndustu löggjöf sem þá þekktist, séu ekki rök fyrir hömlulitlu frelsi í dag.

Hv. ræðumaður taldi að siðferði þjóðarinnar hefði ekki hnignað á þessu tímabili. Ég læt hverjum og einum eftir að dæma um það. Ég vil taka það fram að ég tel breytta siðgæðisvitund ekki endilega vera, afleiðingu þessa frv. eða þeirra daga. Ég hef aldrei tekið undir hið ævagamla slagorð um versnandi heim. En það skyldi þó ekki vera að þróun siðgæðisvitundar fari ekki eftir beinu striki fremur en saga mannkynsins, heldur feti hringferli eða fyrirhitti sjálfa sig í ævagömlum punkti? Siðferði og siðgæðisvitund er mál út af fyrir sig, en þó tengt þessu máli. Umræða um þau hugtök er engin tískuumr., síst ef hún er tengd trúarlegum viðhorfum þeirra trúarbragða sem eru lögvernduð í stjórnarskrá Íslands og Alþ. ber að sjálfsögðu skylda að standa vörð um.

Hv. ræðumaður taldi að þeir, sem ég vil segja hafa það lífsviðhorf að vilja stemma stigu við of opinni heimild til deyðingar óborinna einstaklinga, væru slík nátttröll að að þeim yrði hlegið að 40 árum liðnum. eins og hann lét hlæja að andstæðingum frv. árill 1935. Ef sú spá rætist uni ég því harla vel. En þá er ástæða til að leiða hugann að því hvert verði þá lífsviðhorf þjóðarinnar og hver verði menning hennar. Gerum ráð fyrir að hugsunarháttur og viðhorf breytist á sama hátt og jafnmikið og breytingin hefur orðið síðan 1935. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. sé kunnugt um það hvernig lögin frá 1935 og 1938 eru framkvæmd í dag. Gerum ráð fyrir að þau lög, sem nú verða sett, verði túlkuð og framkvæmd á jafnfrjálslegan hátt og nú er gert varðandi eldri lögin og þá verði sett ný lög til þess að aðlagast tíðarandanum, hvernig mundu þau verða efnislega? Er órökrétt að álykta að með þeirri lagasetningu höfum við fetað okkur aftur í gegnum aldirnar eða runnið hringferilinn, sem ég minntist á áðan, í punkt undir heiðnum dómi á fyrstu öldum Íslandsbyggðar? Þá braut það ekki í bága við siðgæðisvitund þjóðarinnar að bera út börn. Þau yrðu að sjálfsögðu ekki látin væla á holtum úti. Þá var minnst í einni ræðu hér við 2. umr. á Stóradóm. Þá yrði Drekkingarhylur Stóradóms ekki í Öxará, heldur í glerkerum, og þá yrði vökvinn ekki vafin, heldur formalín.

Ég veit að þetta eru út af fyrir sig stór orð og ég hef vísvitandi dregið upp dökka mynd og afskræmda mynd sem ég út af fyrir sig trúi ekki að verði að raunveruleika. En það hefur verið gefið tilefni til þess að huga að þróuninni með léttúðugu tali um alvarleg mál við 2. umr. hér.

Ég ætla þá að snúa mér að einstökum brtt. sem fluttar eru af okkur fjórmenningum á þskj. 491.

Í fyrsta lagi leggjum við til að orðalag í 9. gr. 1. málsl. verði breytt. Það má að sjálfsögðu alltaf togast á um túlkun á einstökum orðum. Það er hægt að leggja mismunandi mat á þau. En að okkar dómi verður orðalagið „ofraun“ túlkað ákveðnara og þrengra en orðalagið „of erfitt“. Og við teljum að fella beri niður d-lið töluliðar í í 9. gr. Ég lít svo á að ef þessi tölul. er inni og ef aðeins verður veikt orðalag og talað um „of erfitt“ í upphafi gr., þá hljóti það í ljósi þeirra umr., sem hér hafa áður farið fram, að verða túlkað svo að svo lengi sem við finnum tvo lækna — eða lækna og félagsráðgjafa, sem hafa það að lífsskoðun að fóstureyðingar séu sjálfsagður hlutur, þá megi flest tilvik flokka undir það orðalag.

Í öðru lagi: Ég gat þess lítillega áðan að frv. í sinni núverandi mynd gengi á vissan hátt lengra en það frv. sem lagt var fram af fyrrv. heilbr.- og trmrh. Þar eru dregin skýr mörk við 12. viku. Í þessu frv. er að vísu kveðið svo á að það skuli helst gera fyrir lok 12. viku, en hin skýru mörk eru hér dregin við 16. viku, og sérstakar undantekningar af læknisfræðilegum ástæðum eða vegna hættu á vansköpun koma ekki til greina fyrr en eftir 16. viku. Við teljum nauðsynlegt að færa þetta til þess forms sem var ákveðið í hinu fyrra frv. og það sé alfarið miðað við 12. viku sem höfuðviðmiðunartíma.

Í þriðja lagi er í 26. gr. frv. kveðið á um að heilbrigðisyfirvöld skuli hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Það væri út af fyrir sig ef hér væri settur punktur. Hins vegar er eðlilegt að áframhaldið verði að það skuli líta eftir því að það sé sama aðstaða um allt land og að það sé gert á sama hátt að framkvæma lögin um allt land.

Það er síðar í frv. gert ráð fyrir ákvæðum, refsiákvæðum, ef út af er brugðið. Það hlýtur að leiða hugann að því hver eigi að líta eftir að ekki sé út af brugðið og hvort hin venjulega löggæsla hafi aðstöðu til þess. Þess vegna finnst okkur eðlilegt að bæta við þessa gr. nýrri málsgr. sem taki af tvímæli um þetta þannig að heilbrigðisyfirvöldin skuli hafa eftirlit með því að ákvæðum II. og III. kafla sé stranglega fylgt. Það er sérstök ástæða til að líta eftir ákvæðum þessara kafla tveggja og gera dómstólum viðvart ef grunur leikur á að út af sé brugðið.

Því hefur verið haldið fram að við þyrftum að aðlaga okkar löggjöf lögum annarra þjóða og þó einkum nágrannaþjóða okkar. Enda þótt brtt. okkar yrðu allar samþ. mun löggjöf okkar samt vera mun rýmri en löggjöf norðmanna. Þeir hafa áunnið sér virðingu annarra þjóða fyrir sjálfstæða stefnumörkun í ýmsum málum.

Flm. brtt. telja að frv., ef það verður að lögum óbreytt, svo sem ég hef áður tekið fram, muni gefa þeim, sem eiga að framkvæma það, mjög frjálsar hendur um túlkun, ekki síst, eins og ég sagði áðan, með tilliti til þeirra umr. sem fram fóru í þessari hv. deild við 2. umr. Við viljum því fresta þess að ná samstöðu með öllum þeim sem telja eðlilegt að veita nokkurt aðhald í þessum efnum nú við 3. umr.

Ég tel mig hafa fyrir því nokkra vissu að ýmsir, sem féllust á og fylgdu brtt. meiri hl. heilbr.- og trn., gætu mjög fellt sig við að herða þessi ákvæði ofurlítið frá því sem var. Ég tel að enda þótt þessar till. yrðu samþ., þá yrði mikil breyting frá því sem var frá eldri lögum. Og ég vil segja það að lokum að afstaða mín til þess, hvernig ég greiði atkv. við lokaafgreiðslu frv. í þessari d., mun mótast af því hvort hv. þdm. sjái sér fært að koma að einhverju eða öllu leyti á móts við þessar till. Þá hlýt ég að gera það upp með sjálfum mér hvort ég met kosti þá, sem eru í frv. í heild, meiri en þá ókosti sem ég tel vera á 9. gr. frv., fyrst og fremst eins og það er núna.