22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3127 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Ólafur G. Einarsson gat um hélt fjh.- og viðskn. stuttan fund í dag að lokinni 2. umr., þar sem gerð var grein fyrir þeim till., sem hv. þm. var að lýsa hér áðan. N. er sammála um þær till. sem eru á þskj., 494. en í sambandi við það vil ég geta þess að 4. till. gerir ráð fyrir því að lántökuheimildir ríkisstj. verði auknar um 800 millj. kr. Því fer mjög fjarri að þar sé um fullnægjandi till. að ræða. Það er ætlast til þess að þessi upphæð verði notuð til þess að styrkja stöðu fjárfestingarsjóða afvinnuveganna, en eins og ég gerði grein fyrir í gær er vandi þeirra ákaflega mikill. og við Alþb.-menn og við í minni hl. teljum að þarna vanti upp á upphæð sem nemi um 2 milljörðum kr., þannig að þessar 800 millj. munu því miður ekki hrökkva til þess að sjóðirnir geti staðið undir þeim skuldbindingum, sem þeir hafa tekið á sig nú þegar, hvað þá að þeir geti bætt á sig nýjum verkefnum. Þessi upphæð gengur á engan hátt til þess verkefnis, sem ég gerði till. um í gær, að það yrði aflað sérstakrar fjárhæðar til þess að flýta framkvæmdum að því er varðar stofnlínulagnir á milli orkusvæða á Íslandi. Þetta er aðeins til þess að bæta úr vanda stofnlánasjóða atvinnuveganna og hrekkur engan veginn til, þó að við séum að sjálfsögðu meðmæltir því að þessi upphæð verði aukin frá því sem ráð var fyrir gert í frv.

En á þessum fundi gerðum við, sem skipum minni hl. fjh.- og viðskn., ég og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, grein fyrir brtt. af okkar hálfu. Við lögðum þar til að í 1. gr. frv., þar sem kveðið er á um niðurskurð sem nemi 31/2 milljarði kr. og einnig á að ná til fjárveitinga sem ákveðnar eru með lögum, að þar bætist við orðin: þó að undanteknum lögum um almannatryggingar. Við lögðum til að þessi niðurskurður næði ekki til þeirra fjárveitinga sem gert er ráð fyrir í lögum um almannatryggingar. Og við reyndum að ná samstöðu um þetta í n. En svo undarlega brá við að þm. stjórnarfl. í n. vildu ekki fallast á þessa till. Nú geta menn að sjálfsögðu leitt getum að því hvað muni búa á bak við þá afstöðu. En mér finnst að ástæða sé til að óttast að það kunni að vera uppi einhverjar hugmyndir um að skerða framlög til almannatrygginga sem væri ákaflega hættulegt mál að mati okkar sem skipum minni hl. Það er nú kannske þeim mun meiri ástæða til að óttast þetta sem sá atburður gerðist hér í dag að það var felld, beinlínis felld, af stjórnarliðinu till. um að aldrað fólk og öryrkjar fengju samskonar kauphækkun í krónum og búið er að semja um að launamenn fái upp að vissu tekjumarki. Stjórnarliðið gat ekki á það fallist að þannig yrði að þessu máli staðið og þetta tel ég ákaflega alvarleg viðhorf.

Við hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason gerðum grein fyrir annarri till. og hún á sér dálitla sögu. Á þskj. 495 er brtt. um fyrirkomulag á fyrningum eims og hv. þm. Ólafur G. Einarsson var að gera grein fyrir áðan. Þessi till. var lögð fyrir fjh.- og viðskn. af stjórnarliðinu fyrir þó nokkru, en var þá í þeirri mynd að heimildin til fyrninga skyldi takmörkuð við 50% af þeirri hækkun sem ákveðin var með verðhækkunarstuðli þeim sem fjmrn. auglýsti 23. des. 1974. Fulltrúar stjórnarfl. í n. gerðu grein fyrir því, að það væri sameiginleg afstaða þeirra að það ætti ekki að heimila nema 50%, helminginn af þessari hækkun. Svo gerðist það að á fund n. koma fulltrúar úr Verslunarráðinu og hafa uppi alls konar mótbárur gegn þessari till„ og í lok þessa sama fundar skýrir form. n. frá því að stjórnarliðið sé fallið frá að flytja þessa till. við 2. umr. Þannig þurfti ekki annað til en að nokkrir fulltrúar frá Verslunarráðinu kæmu á fund n. til þess að þessi sameiginlega afstaða stjórnarfl., sem búið var að gera grein fyrir í n., breyttist á svipstundu. Þarna hefur það svo náð fram að ganga að þessi niðurskurður er ekki um helming, heldur aðeins um 30%. Það verður heimilað að fyrna um 70% af verðhækkunarstuðlinum í staðinn fyrir 50% eins og áður var talað um. Ég gerði grein fyrir því í gær hvað þessar fyrningareglur eru fáránlegar í því verðbólguástandi sem nú er í þjóðfélaginu og hvernig mönnum er gert kleift að fela ákaflega stórfelldan hagnað með þessum fyrningarreglum, ákaflega stórfelldan hagnað, þannig að þótt menn hafi raunverulega mikinn hagnað af atvinnurekstri kemur það ekki fram sem neinn hagnaður í bókhaldi fyrirtækjanna.

Við greiddum atkv. í dag um. till. þess efnis að þessar reglur um verðhækkunarstuðul og flýtifyrningu yrðu ekki látnar gilda á þessu ári, til þess að tryggt væri að atvinnureksturinn tæki á sig hluta af vandamálunum. Þessi till. var felld í dag. Þess vegna freistum við þess, sem skipum minni hl. n., að kanna hvort stjórnarliðið sé ekki þrátt fyrir allt reiðubúið til þess að standa við hina upphaflegu till. sína. Við leggjum til að í stað 70%, sem stendur í till. á þskj. 495, komi 50%. Þetta er aðeins till. um að stjórnarliðið standi við eigin till., þá till. sem það kynnti sjálft í fjh.- og viðskn. Það er ekki till. um neitt annað en að stjórnarliðið sýni nú í verki að það treysti sér til þess að standa agnarlítið upp í hárinu á Venslunarráðinu.

Þessar till. okkar hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar eru skriflegar og of seint fram komnar og ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeim síðar. En ég vil bæta hér við nokkrum orðum í tilefni af umr. sem urðu í gær.

Við höfum í þessum umr. verið blessunarlega lausir við þann bölmóðsáróður sem stjórnarfl. hafa stundað að undanförnu, þar sem birtar hafa verið hinar hrikalegustu lýsingar á öllu ástandi efnahagsmála og atvinnumála. Það hefur ekki farið mikið fyrir þessu í sambandi við 2. umr. málsins. Þó var ein ræða þess efnis. Það var ræða sem hv. þm. Lárus Jónsson flutti í gær þar sem hann var að reyna að bregða upp slíkum myndum, og í reikningskúnstum sínum komst hann einna lengst .sem ég hef séð í tilburðum af þessu tagi. Hann lýsti m. a. á mjög áhrifamikinn hátt hvernig einhver tiltekinn útflutningsvara okkar íslendinga hefði lækkað um hvorki meira né minna en 300% í verði. Hingað til hef ég lært að ef eitthvað minnki um 100%, þá sé það búið, þannig að þessi útreikningur hlýtur að þýða það að við höfum orðið að borga með útflutningsvörunni tvöfalt meira en við fengum fyrir hana áður. Þetta er vissulega til marks um þær lýsingar sem stjórnarliðið er alltaf að bregða upp af ástandinu í efnahagsmálum og atvinnumálum. Þær eru búnar til svona. Það eru reikningskúnstir á öllum mögulegum sviðum og eins og ég rakti í gær er þetta fjarri öllum veruleika.

Þessi hv. þm., Lárus Jónsson, taldi einnig að við Alþb-menn gerðum okkur seka um ábyrgðarleysi með tillöguflutningi okkar í sambandi við þetta frv., við létum ekki standast á tekjur og útgjöld ríkissjóðs. Nú veit ég ekki fullkomlega hvernig þau met kynnu að koma út. Ég vil minna á það að við vorum með till. um það, — þær voru felldar í dag — að ríkisútgjöldin yrðu lækkuð um hálfan annan milljarð, en að sú lækkun bitnaði einvörðungu á rekstrarútgjöldum ríkisins sem hafa hækkað meira en allt annað og eiga skv. þessu frv. að hækka um rúmlega 1000 millj. í viðbót. Við lögðum þarna til sparnað sem næmi hálfum öðrum milljarði. Við flytjum einnig um það till. að menn sem hafa mjög viðunanlegar tekjur í þjóðfélaginu og þaðan af betri tekjur, greiði hærri tekjuskatta en þeir hafa gert til þessa, og einnig það færir ríkissjóði þó nokkrar tekjur. Og við lögðum í þriðja lagi til að fyrningarreglunum yrði breytt, eins og ég var að lýsa áðan, en í þeirri till. tel ég felast mjög verulegar upphæðir. Ég hygg að þessir endar nái býsna vel saman ef að er gáð. Í sambandi við það vil ég benda á það einnig að ein af till. þeim, sem við gerðum grein fyrir í dag og atkv. voru greidd um í dag, er till. um að almannatryggingar taki að sér að tryggja fæðingarorlof kvenna. Þeirri till. fylgdi fjáröflun því að atvinnurekendur áttu að standa undir þeim kostnaði, þannig að áburði um ábyrgðarleysi vísa ég til föðurhúsanna. Sá áburður er ekki réttur.

Hæstv. forsrh. var í ræðu, sem hann flutti í gær, dálítið viðkvæmur út af tilvitnunum sem ég flutti úr ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. Það var yfirlýsing form. Framsfl. um að þeir framsóknarmenn mundu tryggja að niðurskurðurinn á fjárl. bitnaði ekki á hinum dreifðu byggðum landsins. Ég sagði að þetta væri til marks um að það væri logandi ágreiningur milli stjórnarfl. um þetta atriði, um þennan niðurskurð, og ég held að viðkvæmni hæstv. forsrh, hafi sannað þetta enn betur. Hæstv. forsrh. var svo viðkvæmur fyrir þessu einmitt vegna þess að þetta er staðreynd sem allir þekkja, um þetta er logandi ágreiningur. Og það þýðir í sjálfu sér ekkert fyrir hæstv, forsrh. að koma hér í ræðustól og vera að gefa okkur lýsingar á þessu ástandi. Við þm. ræðumst við. Við vitum ákaflega vel hvernig mönnum úr báðum stjórnarfl. er innanbrjósts í sambandi við þessar niðurskurðartill. Það, sem þeir segja núna seinustu dagana, þessir hv. þm. sem eru á móti því að það verði nokkuð úr þeim niðurskurði, er að hann sé orðinn óframkvæmanlegur vegna þess að það sé liðið svo langt á árið, það sé búið að gera ráðstafanir sem ekki sé hægt að rifta án þess að ríkið verði skaðabótaskylt, það verði ekki hægt að skera þetta niður. Þetta er það sem þeir segja manni, þessir hv. þm. úr stjórnarfl. báðum; þ. e. að þessi till. sé ekkert annað en sýndarmennska, hún komi ekki til framkvæmda, það sé ekki hægt að framkvæma hana, þetta sé bara til þess að geta sagt frá því í blöðum að ríkisstj. hafi framkvæmt tiltekinn sparnað, en þetta sé sem betur fer ekki framkvæmanlegt. Þetta er það sem hv. þm. segja og þetta vitum við ákaflega vel svo að hæstv. forsrh. getur alveg sparað sér að lýsa því hér úr ræðustól hvernig ástandið sé innan stjórnarfl. að því er þessar till. varðar.

Það var svo að heyra sem hæstv. forsrh. hefði misskilið eitthvað þegar ég var að bera saman annars vegar hina auknu skattheimtu, sem til kom með hinum nýju fjárl. og með þeirri útsvarsálagningu, sem verður á þessu ári annars vegar, og svo hins vegar þær lækkanir sem nú koma til framkvæmda. Ég benti á þá staðreynd að skattar til ríkisins og útsvör hækka á þessu ári um 21–22 milljarða í samanburði við fjárl. árið á undan, en sú lækkun, sem nú er verið að fjalla um, er ekki nema 1340 millj. umfram það sem búið var að ákveða í fjárl. Hæstv. ráðh. taldi að ég væri með þessu að lýsa því yfir, að ég teldi að ríkið tæki í sinn hlut of hátt hlutfall af þjóðartekjunum, og hann fór að hafa uppi hugleiðingar um að þetta væru dálítið einkennilegar kenningar hjá mér því að ég teldi mig aðhyllast samneyslu, en hann einkaneyslu, og hann skildi ekki almennilega hvers vegna ég væri að ræða um þetta. Ég var bara að ræða um þetta til að bera saman þessar tvær tölur, þ. e. í fyrra tilfellinu eru skattar hækkaðir um 21–22 milljarða og um það er ekkert sagt í stjórnarblöðunum, ekki vitundarögn, en svo þegar smávægileg lækkun kemur á móti, lækkun sem nemur svona 5% eða eitthvað svoleiðis, er það stóratburður. Þetta er yfirdrepskapur og hræsni í málflutningi. Þarna er ekki verið að lýsa hlutunum eins og þeir eru.

Það er alveg rétt sem hæstv. forsrh. segir, að ég aðhyllist það að eftir því sem þjóðartekjur okkar aukast, þá eigi samneyslan að aukast ekki síður. Ég er þeirrar skoðunar að samneyslan sé ákaflega mikilvægur þáttur í lífskjörum okkar og sá þáttur sem leiðir til mests jafnaðar í þjóðfélaginu. Það er samneyslan sem stendur undir tryggingakerfi okkar, undir sjúkrahúskerfinu, undir ýmsum opinberum framkvæmdum, vegagerð og öðru slíku, og ég held að þessi samneysla þurfi að aukast eftir því sem þjóðartekjurnar aukast.

En hæstv. forsrh. er þarna á annarri skoðun eins og allir vita. Flokkur hans telur að almannavaldið, ríkið, þ. e. sameiginlegt átak okkar allra, geri of mikið, það eigi að taka þetta af ríkinu og afhenda það einkaaðilum svo að þeir geti hagnast á því. Það eru til ríki, þar sem hagnast er á öllum hugsanlegum hlutum, þ. á m. á tryggingum og heilbrigðisþjónustu, og ég veit að það eru til menn innan Sjálfstfl. sem telja að sá háttur ætti að vera á Íslandi einnig. Og ég óttast það mjög að sú niðurskurðarstefna, sem nú er uppi, hafi einmitt þann tilgang að stuðla að slíkri þróun.

Hæstv. forsrh. svaraði fsp. sem ég bar fram í sambandi við yfirlýsingu þá sem ríkisstj. gaf út 26. mars í sambandi við samninga verkalýðsfélaga og atvinnurekenda. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni í gær að ég teldi að ríkisstj. hefði verið svo nákominn aðili þessum samningum að henni bæri siðferðileg skylda til að framkvæma skattabreyt. á þann hátt sem Alþýðusamband Íslands óskaði eftir. Þessi skoðun mín er á engan hátt breytt. Ég sagði í gær að ég væri ekki þeirrar skoðunar, að sú skipan, sem þar er gerð till. um, ætti að vera til frambúðar í þjóðfélagi okkar, og gerði grein fyrir því í gær hvers vegna — ég fer ekki að endurtaka það. En verkalýðshreyfingin taldi að við þau erfiðu skilyrði, sem hún hefur nú í þjóðfélaginu, hafi þetta verið sú leið sem henni gagnaðist mest, og þess vegna bar ríkisstj. að mínu mati skylda að standa svo að þessari framkvæmd.

Um þetta er alveg það sama að segja og sjálfar jafnlaunabæturnar sem samið var um við atvinnurekendur. Það var samið um 4 900 kr. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé upphæð sem sé allt of lág, hún sé ekki í neinu samræmi við getu þjóðarbúsins. Ég er þeirrar skoðunar að þessi upphæð hefði þurft að vera miklu hærri. En að sjálfsögðu tel ég að atvinnurekendur verði að standa við þessa samninga, þó að ég sé ekki ánægður með þá, þó að ég vilji hafa þá á annan veg. Á sama hátt tel ég að ríkisstj. hefði átt að standa við fyrirheit sín í skattamálunum með því að framkvæma þau á þann hátt sem verkalýðshreyfingin óskaði.

Í gær greindi hv. þm. Ólafur G. Einarsson frá því að verkalýðshreyfingin hefði borið fram um það formlega till. við n. að V. kafli frv., þ. e. a. s. kafli sá sem heimilar ríkisstj. að lækka tolla og söluskatt yrði felldur niður. Það er alveg rétt. Það komu á fund n. tveir menn frá Alþýðusambandinu, Björn Þórhallsson og Ásmundur Stefánsson, og voru með slíkar till. formlega á blaði. En ég hef kannað það að þessi till. var hvorki borin undir 9 manna n. né stjórn Alþýðusambandsins, þannig að hún er ekki borin fram á ábyrgð Alþýðusambandsins sem slíks, Ég vil að þetta komi fram, vegna þess að á þetta var minnst í ræðu Ólafs G. Einarssonar í gær sem tillögu Alþýðusambandsins. Það er það ekki. Það er ekki till. Alþýðusambandsins.

Hæstv. forsrh. sagði að það yrði þannig staðið að lækkun söluskattsins að sú upphæð, sem þar væri um að ræða, þ. e. a. s. 540 millj., yrði öll komin til framkvæmda þannig að hún borgaðist út eða kæmi til lækkunar fram að áramótum. Ég hygg að þær tölur, sem þar liggja til grundvallar, hafi ekki legið fyrir n. Eins og nú er liðið á árið þýðir það að þessi lækkun verður að nema hærri upphæð á ársgrundvelli ef þessi upphæð á að nást út úr því sem eftir er af árinu. Kannske getur hæstv. forsrh. gert nánari grein fyrir því hvernig að þessu verður staðið.

Hæstv. ráðh. kvað ekki þurfa að setja nein lög til að framkvæma fyrirheit ríkisstj. um það hvernig hagað yrði frádrætti til skatts sem lofað var. En ég lýsi nú eftir því að hæstv. ríkisstj. fari að birta reglur um þetta atriði. Ég held að launamenn óski mjög eftir því að þessar reglur verði birtar sem allra fyrst. Ég hygg að það séu þó nokkur dæmi þess að teknar séu af launamönnum upphæðir nú þegar umfram þá hlutfallstölu sem gerð er grein fyrir í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj., þannig að ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þessar reglur sjái dagsins ljós hið allra fyrsta.

Hæstv. forsrh. gerði einnig aths. við þá till. mína að aldrað fólk og öryrkjar fengju sömu upphæð í krónutölu og samið hefur verið um við launamenn upp að vissu tekjumarki. Hann sagði að þarna yrði aðeins reiknað út sama hlutfallið sem þýðir miklu lægri upphæð í krónutölu. Þetta gerðist í haust. Þá fengu launamenn 3500 kr., en aldrað fólk og öryrkjar með tekjutryggingu fékk aðeins innan við 1900 kr. Ég tel að þetta megi ekki endurtaka sig. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðh. sagði, að þarna hefur verið viss venja sem fylgt hefur verið um það að hjón, sem bæði hafa ellilífeyri eða örorkulífeyri, geti fengið svipaða upphæð og tíðkast á lægsta verkamannakaupi. Þetta er alveg rétt. Þessi regla hefur verið í gildi afar lengi, og hæstv. ráðh. minnti á að hún hefði einnig verið í gildi þann tíma sem ég var ráðh. Ef hæstv. ráðh. hefur verið að beina því til mín sem ámælis að ég hafi ekki breytt þessari reglu, þá vil ég minna á það að mér hefur virst að Sjálfstfl. teldi að ég hafi frekar stuðlað að því að útgjöld Tryggingastofnunarinnar ykjust of mikið en of lítið, a. m. k. voru þær aðgerðir flokkaðar undir veisluhöld í Morgunblaðinu þegar byrjað var að rétta hlut aldraðs fólks og öryrkja.

En þær greiðslur, sem nú er um að ræða, eru allt annars eðlis en þær greiðslur sem verið hafa að undanförnu. Að undanförnu hefur verið greitt í samræmi við vísitölu. Nú er ekki um neitt slíkt að ræða. Nú er verið að greiða fasta krónutölu sem er langt undir því sem vísitalan hefði reiknað út. Það er verið að greiða fasta krónutölu sem á að koma til allra og lýst er yfir að eigi að nýtast best þeim sem hafa lægstar tekjur. Það fólk, sem hefur lægstar tekjur í þjóðfélaginu, er aldrað fólk og öryrkjar sem ekki hafa neitt sér til framfæris annað en greiðslurnar frá almannatryggingum, og það er ósæmilegt með öllu að þetta fólk fái ekki þessa lágmarksupphæð.

Í þessu sambandi vil ég minna á að það eru ekki nema rúmlega 2 000 hjón sem bæði njóta greiðslu frá almannatryggingum, en yfir 10 000 einstaklingar. Að því er öryrkja varðar er það að sjálfsögðu alger undantekning að bæði hjón séu öryrkjar. Ég held að dæmin um það séu rúmlega 100. Þarna er því verið að mismuna á herfilegasta hátt og þessi regla fær ekki staðist út frá neinu sjónarmiði. Ef þessi regla hefði átt að vera í gildi í sambandi við greiðslu á þessari jafnlaunaupphæð hefði átt að hafa greiðsluna mismunandi eftir því hvort menn væru giftir eða ógiftir. Það hefði engum dottið í hug. Hvers vegna dettur mönnum þá í hug að gera það þegar aldrað fólk og öryrkjar eiga í hlut, það fólk sem er varnarlausast í þjóðfélaginu? Ég tel að þessi afstaða sé ósæmileg með öllu. Okkur hefur verið tjáð að hæstv. ríkisstj. muni leggja fram sérstakt frv. um það hvernig hún heldur á þessum málum gagnvart viðskiptavinum almannatrygginga.

Ég vil biðja hæstv. forsrh. að hugleiða mjög gaumgæfilega hvort ekki sé ástæða til að breyta þeirri afstöðu, sem hann lýsti hér í gær, og tryggja að aldrað fólk og öryrkjar sitji þarna við alveg sama borð og aðrir.