23.04.1975
Efri deild: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Við 1 umr. þessa máls lýsti ég andstöðu minni við þá hugmynd sem felst í þessu frv., og byggði ég þá skoðun mína á því að mér fyndist ekki ára þannig í íslensku efnahagslífi að það væri beinlínis besti tími valinn nú til ýmiss konar sjóðastofnana. Síðan þetta frv. var hér til 1. umr. í hv. þd. finnst mér málin hafa þróast í þá átt að ekki sé uppörvandi að afgreiða lagafrv. sem fela í sér ákvæði um nýja sjóðmyndun sem fela í sér milljóna útgjöld fyrir ríkissjóð.

Ég er ekkert dómbær um það og ætla að sjálfsagt sé að styrkja listir, vísindi og þess háttar starfsemi með þjóðinni. En ég get ekki varist þeirri hugsun og það hefur oft hvarflað að mér hvort við séum ekki farnir að sýna nokkra ofrausn í þessum málum. Við höfum verið að basla hér með stórar opinberar stofnanir sem eiga ákaflega erfitt um öll sín fjárhagslegu málefni að því er snertir rekstur. Má t. d. nefna Þjóðleikhúsið og rekstur sjónvarps og útvarps, en stofnanir sem þessar virðast hafa gnægð fjár til að stofna einlæga sjóði til eflingar hinni og þessari tegund lista og geta ausið fé úr slíkum sjóðum á báða bóga. óneitanlega virðist hér skjóta nokkuð skökku við. Ég fyrir mitt leyti tel það vera ákaflega mikið tískufyrirbrigði hér hjá okkur, þessari menningarfúsu þjóð, þá miklu almennu þátttöku í listum, bókmenntum og almennri listsköpun. Ég verð nú að biðja forláts á því að það hefur hvarflað að mér hvort þessi gróskumikla starfsemi sé ekki á góðri leið með að verka á huga almennings í þessu landi á sama hátt og hefur verið talað um að skólakerfið sé orðið svo yfirgripsmikið og margþætt að það er farið að tala um námsleiða hjá unga fólkinu. Er ekki verið að skapa listleiða hjá þjóðinni með öllu þessu tali og þessum mikla fjáraustri í þessa umfangsmiklu listastarfsemi. Ég er þeirrar skoðunar að það mundi enginn héraðsbrestur verða í þessu þjóðfélagi þó að framkvæmd eins og felst í ákvæðum þessa frv. yrði frestað um eitthvert tímabil, a. m. k. meðan við værum að ná betri festu og meira jafnvægi í okkar fjárhagsmálum. Ég segi fyrir mitt leyti, ég er hlynntur því að afgreiðslu þessa máls verði frestað.