23.04.1975
Efri deild: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

246. mál, ættleiðing

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram hér örlítið frv. um breyt. á l. nr. 19 frá 11. febr. 1953. um ættleiðingu. Frv. er svona:

„1. gr. l. orðist svo:

Með leyfi forseta Íslands, sem dómsmrh. veitir í umboði hans, getur sá, sem orðinn er 25 ára, tekið að sér kjörbarn.

Nú ættleiða hjón barn og nægir þá að annað þeirra sé orðið 25 ára. Þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, má þó veita leyfi til ættleiðingar þegar annað hjóna hefur náð 20 ára aldri.“

Og svo er 2. gr. þessi venjulega:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með frv. fylgir þessi grg.:

„Lög um ættleiðingu eru orðin 22 ára gömul. Síðan hafa ungu fólki verið veitt aukin réttindi á ýmsum sviðum og þykir flm. rétt að svo sé einnig gert í þessu tilviki.

Nýmæli frv. er það, að dómsmrh. er samkv. umboði forseta Íslands veitt leyfi til þess að veita leyfi til ættleiðingar, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, þegar annað hjóna er orðið 20 ára að aldri. Frv. er sniðið að danskri fyrirmynd.“

Við þessa stuttu grg. skal ég bæta því einu að mér eru persónulega kunn tilvik þar sem hin afdráttarlausu lög um 25 ára skilyrðið hafa valdið einstaklingum erfiðleikum. Ég þekki t. d. ung hjón sem þannig er ástatt um að konan átti barn fyrir giftingu, en nú hafa þessi hjón alið barnið upp saman í nærri 4 ár og óska þess mjög eindregið að maðurinn fái að ættleiða barnið áður en skólaganga þess hefst á næsta hausti til að firra ýmsum leiðindum sem kynnu að koma upp í því sambandi. Innilegra samband milli barns og föður hygg ég vandfundið og mér finnst ósanngjarnt að dómsmrn. geti ekki veitt undanþágu í tilviki sem þessu.

Það er óþarfi að rekja fyrir hv. alþm. hversu mörg þau réttindi eru sem ungu fólki hafa verið veitt á síðari árum, svo sem lækkun kosningaaldurs og ýmislegt sem af þeirri ákvörðun leiðir, en lög þessi, sem ég er hér að mæla fyrir breytingu á, eru nú, eins og ég áðan sagði, orðin 22 ára gömul.

Norðurlandabúar, a. m. k. danir, hafa farið þessa leið fyrir nokkrum árum og ég held að okkur sé alveg óhætt að fylgja fordæmi þeirra í þessu efni. Ef það unga fólk, sem í hlut á, þykir að mati dómsmrh. af einhverjum ástæðum ekki fært til ættleiðingarinnar er í lófa lagið að synja um hana, en heimildin mundi leysa vanda margra heimila, það er ég sannfærður um.

Ég vona því að hv. þm. taki þessu litla frv. vel og ljái því greiðan gang gegnum þingið þannig að það gæti orðið að lögum áður en þingi lýkur í vor.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.