25.11.1974
Efri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

64. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram, á sér langan aðdraganda og má raunar segja að hér sé um að ræða framhald á þeirri þróun sem orðið hefur á mörgum undanförnum árum í sambandi við mat og eftirlit með fiski og öðrum sjávarafurðum. Þróunin hefur stefnt í þá átt að þeim stofnunum, sem annast hafa eftirlit og mat á fiski og öðrum sjávarafurðum, hefur fækkað og allt miðað að því að setja alla þessa starfsemi undir sömu stofnun. Með l. nr. 46 frá 1948 voru stöður freðfiskmatsstjóra og skreiðarmatsstjóra sameinaðar í stöðu fiskmatsstjóra og með l. nr. 55 1968 var freðfiskeftirlitið skv. l. nr. 42 1960 og fiskmatið eins og það var í l. nr. 46 1948 sameinað í eina stofnun, Fiskmat ríkisins.

Í 1. gr. þessa frv. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða er starfsemi Fiskmats ríkisins og Síldarmats ríkisins sameinuð í einni ríkisstofnun sem bera skal nafníð Framleiðslueftirlit sjávarafurða, en fyrrgreindar tvær stofnanir lagðar niður.

Frv. um þetta sama efni var lagt fram á síðasta Alþ. og þá undir nafninu Ríkismat sjávarafurða. Það frv. var lagt fram seint á þingtímanum og náði þá ekki fram að ganga. Við endurflutning á frv. nú hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar og sömuleiðis á aths. með frv. og þær eru helstar að nafninu er breytt, eins og ég hef fyrr sagt. Aðrar breytingar eru þær helstar að felld eru niður þau ákvæði 4. gr. frv. um Ríkismatið sem gera ráð fyrir sérstakri samstarfsnefnd Ríkismatsins eða Framleiðslueftirlitsins annars vegar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hins vegar. Í aths. með þessu frv. er lögð áhersla á að mjög náið samstarf þurfi að vera á milli þessara tveggja stofnana, einkum milli Rannsóknastofnunarinnar og frysti- og hreinlætisdeildar Framleiðslueftirlitsins. Hins vegar þykir ekki ástæða til að setja sérstaka n.í þessu skyni, enda heyra báðar þessar stofnanir undir sjútvrh. og ætti hann á hverjum tíma að hafa aðstöðu til þess að fylgjast með því og gæta þess að þarna sé um nauðsynlegt samstarf að ræða.

Það urðu þau mistök þegar 4. gr. var breytt á þennan hátt, að eins og orðalag hennar er núna gæti sá misskilningur slæðst inn að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins ætti að hafa samráð við Framleiðslueftirlitið viðvíkjandi allri sinni starfsemi, því að í 26, gr. l. nr. 64 frá 1965, sem vísað er til í frv., eru talin upp öll verkefnasvið stofnunarinnar. Það er því skoðun Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, að því er varðar eftirlit og mat á sjávarafurðum, að mjög sé æskilegt og nauðsynlegt að gera nokkra breytingu á þessari 4. gr. Ég vænti þess að sú n., sem fær frv. til meðferðar, taki þessa aths. til greina. Tel ég rétt að 4. gr. orðist þannig:

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins framkvæmir þær rannsóknir og tilraunir, er til þeirrar stofnunar falla skv. 26. gr. l. nr. 64 21. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Rannsóknir og tilraunir, er snerta eftirlit og mat á sjávarafurðum, skulu framkvæmdar í samráði við Framleiðslueftirlit sjávarafurða.

Með því að breyta gr. á þennan hátt getur sá misskilningur ekki átt sér stað að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eigi að hafa samráð við Framleiðslueftirlitið viðvíkjandi allri sinni starfsemi.

Önnur breyting í þessu frv. frá frv., sem lagt var fram á síðasta þingi, er fólgin í því að ákvæði 6. gr. frv., sem lagt var fram þá um menntun forstjóra er felld niður. Að vísu getur verið æskilegt að til þessa starfs veljist sem menntaðastir menn, en hins vegar þykir ekki rétt að veita mönnum með ákveðna menntun skilyrðislausan forgangsrétt, eins og gert var í hinu fyrra frv. Um þetta atriði má alltaf deila. Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið til menn, þó að þeir hafi ekki háskólapróf, sem geti gegnt slíkum störfum sem þessum og hafi öðlast reynslu og þekkingu sem er jafnvel á við háskólamenntun, og því tel ég fyrir mitt leyti ekki rétt að binda þetta í lögum, þannig að það sé fortakslaust að menn með háskólamenntun eigi að sitja fyrir. Þetta á ekki eingöngu við þetta frv. Þetta er skoðun mín í sambandi við löggjöf. Við eigum ekki, þar sem ekki er brýn þörf á, að setja í lög slík ákvæði.

Þá var gerð orðalagshreyting á 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir að ríkisstofnanir, sem hafa með höndum verkefni sem falla undir Framleiðslueftirlit sjávarafurða skv. frv., skuli halda þeim verkefnum áfram eftir nánari ákvörðun ráðh.

Þá hafa verið gerðar nokkrar aðrar orðalagsbreytingar og loks er í þessu frv. breytt gildistökuákvæðum á þann veg, að í stað 1. jan. 1975, eins og hugsað var ef það frv. hefði orðið að lögum, kemur 1. júlí 1975 og í stað 1. okt. 1974 kemur 1. apríl 1975. Annars vísa ég að öðru leyti til ákv. til brb., eins og það er í frv., og þeirra aths. sem frv. fylgja.

Ég vil aðeins víkja lítillega að breytingunni, sem verður á nafni þessa frv. frá fyrra frv., að kalla þetta Framleiðslueftirlit sjávarafurða í stað Ríkismats sjávarafurða. Það er mín skoðun að samkvæmt hlutverki þessarar stofnunar sé hér um miklu veigameiri störf að ræða en að hafa með höndum mat. Þess vegna tel ég að núverandi heiti á stofnuninni og sömuleiðis „ríkismat“ nái ekki til þeirra viðamiklu verkefna sem þessi stofnun hefur og á að hafa skv. þessu frv., þ.e. að fylgjast með öllum búnaði við framleiðslu sjávarafurða. Því tel ég þetta nafn á frv. betra hvað þetta snertir. Ég er alveg opinn fyrir því fyrir mitt leyti, ef menn finna eitthvað enn betra heiti sem nær þessu hvoru tveggja, að þá held ég ekki dauðahaldi í þetta. Í sjútvrn. hefur verið mikið fjallað um þetta nafn og að lokum urðum við ásáttir um að þetta mundi helst ná yfir höfuðtilgang og allan tilgang, sem þessari stofnun er ætlað að hafa.

Ég tel ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ég tel að það sé mjög æskilegt, að þetta frv. nái fram að ganga. Aðilar í sjávarútvegi almennt eru sammála um að gera þessa breyt. og telja að það sé rétt stefna að færa þetta undir eina og sömu stjórn eða sömu stofnun. Það er til hagræðis fyrir allar greinar í sjávarútvegi og veldur þar engum deilum, enda má segja að þeir mörgu aðilar, sem til hefur verið leitað, bæði úr hópi útgerðarmanna, sjómanna og hinna ýmsu greina fiskvinnslunnar, séu allir á eitt sáttir um höfuðefni þessa máls og allir því hlynntir að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.