23.04.1975
Neðri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

130. mál, fóstureyðingar

Ellert B. Schram:

Hæstv. forseti. Nefnd sú, sem undirbjó þetta frv. á vegum rn. og ég átti sæti í, hafði það orðalag á í þessari gr., að talað var um „óbærilegt“. Hv. heilbr.- og trn. breytti þessu orðalagi í „of erfitt“. Ég skildi þá breyt. ekki á þann veg, að n. vildi rýmka frv. eða lögin, heldur væri hér meira um smekksatriði og lagfæringu á orðavali að ræða. Ef ég greiddi atkv. með þessari till. mætti túlka það svo að ég líti svo á, að frv. væri of rúmt. Það er ekki mín skoðun. Ég skil frv. eins og það er nú svo, að túlkunin eigi að vera þröng, og þess vegna segi ég nei.