23.04.1975
Neðri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3219 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þess að þetta frv. er hér nú til 2. umr. og um er að ræða mikilvægt mál, sem ríkisstj. hefur forustu um, þá langar mig sem þm. úr stjórnarliðinu að gera örlitla grein fyrir afstöðu minni, sérstaklega vegna þess að í þessu frv. eru viss ákvæði sem ég get ekki fellt mig við.

Nú er það svo að við erum öll sammála um að vissulega þarf að gera atvinnulíf lands okkar fjölbreyttara, og það gerum við ekki nema með því að virkja orku landsins til iðnaðar og við gerum það ekki nema með því að nýta þá orku í hugsanlegan stóriðnað.

Þar með er ekki sagt að ég sé sammála grundvallarhugsuninni á bak við það hvernig eigi að koma slíkum stóriðnaði fyrir. Fyrir mér er ekki mikilvægasta atriðið það sem var aðalefni seinustu ræðu hér. Ég verð að treysta því að ríkisstj. hafi fengið sína vísindamenn til þess að ganga úr skugga um það að undirbúningsrannsóknir hafi verið á því stigi að óhætt sé að ráðast í framkvæmdir í þeirri trú að allt verði gert, sem mannleg tækni hefur yfir að ráða, til þess að forðast hættur af hugsanlegri mengun. Við getum vitanlega ekki búist við því að einn eða neinn iðnaður rísi upp án einhverrar mengunar. Öllu lífi og starfi okkar jarðarbúa hlýtur jafnan að fylgja einhvers konar mengun. Tækninni fleygir sem betur fer svo fram að menn eru sífellt að finna ráð gegn menguninni og meira að segja nýta stundum í skynsamlegum tilgangi ýmiss konar mengunarvalda. Við verðum að vona að sú verði einnig þróunin í þessu máli.

Það sem ég ætlaði aðallega að fjalla hér um, er eignaraðildin og fjármögnunin. Ég get ekki fallist á þá grundvallarkenningu að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að eiga meira en helming í slíku fyrirtæki sem hér um ræðir. Ég held þvert á móti að öllu athuguðu að okkur mundi henta betur að eiga sem minnst í því. Hér er um að ræða áhættusaman atvinnurekstur. Við höfum takmarkað fé og takmarkaðan mannafla. Hér er um að ræða atvinnurekstur sem er háður mörkuðum úti í heimi sem barist er hart um og verulega þekkingu þarf til að komast inn á. Hér er einnig um það að ræða að við hliðina á svona stóriðjurekstri geta risið ýmiss konar smærri iðnfyrirtæki, ýmiss konar smærri iðnaður sem ég tel að okkur mundi henta betur að reka algerlega af okkar hálfu. Hins vegar tel ég að með því að veita erlendu fjármagni inn í landið á þann hátt, sem ég er hér að ræða um, yrði að fylgja að gerðir yrðu mjög sterkir samningar sem í engu gengju gegn íslenskum lögum eða íslensku atvinnulífi. Ég tel að það væri hægt. Slíkt hafa ýmsar aðrar þjóðir gert með góðum árangri. En ég get alls ekki séð að það sé sáluhjálparatriði að við þurfum að geta sagt við sjálf okkur: Við eigum rúman helming í fyrirtækinu. — Ég get ekki séð hvernig við erum betur sett að því leyti ef um er að ræða fyrirtæki sem við sjáum alls ekki í dag hvort við ráðum við.

Þetta var aðeins um grundvallarsjónarmiðið, hvort við almennt teljum okkur það hentugt eða nauðsynlegt að eiga meira en helming í öllum fyrirtækjum sem starfa hér á landi. Það gæti samt vel verið svo að jafnvel þótt við ættum ekki eða legðum ekki fram fé í beinum peningum í slík fyrirtæki í byrjun, þá væri samningum hagað svo, að við gætum, ef við vildum, eignast þau smátt og smátt, á mismunandi löngum tíma eftir atvikum.

Hitt atriðið varðar ástand ríkisfjármála okkar í dag. Ég sagði áðan að það er um að ræða áhættusaman atvinnurekstur. Það er um að ræða stofnun fyrirtækis sem við vitum alls ekki hverju á eftir að hlaða utan á sig. Við vorum fyrr í dag að ræða mál sem borið var fram af ríkisstj. til þess að ráða bót á viðkvæmum vanda í íslensku efnahagslífi. Við vorum að samþykkja heimild fyrir ríkisstj. til að skera niður ríkisfjárl. um 3.5 milljarða. Í þessu frv. er verið að leggja til hins vegar að ríkisstj. sé heimilt að leggja fé, sem ég gæti ímyndað mér að færi með öllu og öllu upp í þá upphæð hið minnsta, í áhættusamt fyrirtæki sem við vitum alls ekki í dag hvernig mun ganga. Við verðum auðvitað að vona að þetta verði gott fyrirtæki og gangi vel, en lítið virðist nú samt mega út af bera.

Nú veit ég að einhverjir munu hugsa sem svo: Ekki á að taka þennan hálfan annan milljarð eða öllu heldur tvo af fjárl., nei, til þessa verða tekin erlend lán. En það þarf að greiða erlend lán og við höfum ýmsa aðra bagga að bera. É g fæ ekki annað séð en þetta hljóti að geta undið upp á sig og orðið um að ræða meiri skuldbindingar heldur en eru beinlínis nefndar í krónum í frv. Það er ekki getið um kostnað við höfnina væntanlegu. Það er ekki getið um kostnað við stækkun verksmiðjunnar. Þó er það svo samkv. grg. frv. að höfnin á m. a. að sækja tekjur sínar til verksmiðjunnar eftir að búið er að stækka hana.

Þá virðist mér að þurfi líka að hafa í huga hvað á að stækka verksmiðjuna mikið, hvenær á að gera það og hvað það á að kosta. Síðan á að leggja veg og raflínu eins og sjálfsagt er. Allt eru þetta vissulega mikil og merkileg og nauðsynleg mannvirki. Allt getur þetta haft gífurlegan kostnað í för með sér. Einhvern veginn finnst mér ekki nægilega ljóst að það sé svo hagkvæmt fyrir okkur sérstaklega að taka þetta fyrirtæki á okkar herðar með þeim hætti sem hér er lagt til. Mér sýnist sannarlega, að þarna verði að hafa fyllstu varúð.

Ég vil nefna eitt atriði sem mér hefur staðið sérstakur stuggur af í sambandi við fjármögnun fyrirtækisins og gang þess þegar fram líða stundir. Það var svo í skýrslunni um viðræðurnar á undirbúningsstigi þessa máls að þar sagði að eftir 10 ár gæti Union Carbide krafist þess að íslenska ríkisstj. keypti þess hlut eftir mati. Í aðalsamningi fékkst þessu breytt í 15 ár. Mér er ljóst að mörgum sýndist þetta mikið hagsmunaatriði. Þeir sögðu hinir ánægðustu: Það er gott, þá eigum við verksmiðjuna að fullu og öllu eftir þennan tíma. — En ég spyr: Hvernig getum við vitað það í dag hvernig ástatt verður eftir þennan tíma? Höfum við þá tök á því að una glöð við það að eiga stóriðjuverksmiðju ef við erum ekki jafnframt viss um að hafa tök á því að koma afrakstri hennar í verð? Þetta eru hlutir sem ég get ekki varist að sæki á hug minn vegna þess að við höfum takmarkaðan mannafla. Þarna er um sérstæða atvinnugrein að ræða þar sem stórfyrirtæki hafa setið að mörkuðum úti í heimi og mér finnst það ekkert gamanmál að taka að sér slíkt fyrirtæki. Vitanlega getur það orðið svo og við skulum vona að svo verði að þetta hafi ekki neinn skaða í för með sér. En óneitanlega sýnist mér ekkert liggja fyrir í dag þess efnis að þetta hljóti að vera fýsilegt fyrir okkur. Ég held hins vegar að það hefði verið æskilegra fyrir okkur að stefna að því að að þessu fyrirtæki væri staðið með nokkrum hætti svipað og gert var þegar stofnað var til álbræðslunnar, okkur yrði kleift með þessu móti að virkja okkar orku, fá fyrir hana gott verð og við fengjum möguleika til þess að koma á laggirnar ýmiss konar iðnaði sem við værum öruggari um að ráða við heldur en það sem við nú stöndum andspænis í þessu frv.

Ég ætla ekki að fara út í mörg atriði í þessu frv. Þetta er í mínum huga aðalatriðið: eignaraðildin og fjármögnunin. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé hættulegt fyrir efnahag okkar að eiga minna en helming í slíkum stóriðjufyrirtækjum ef um er að ræða góða samninga að öðru leyti. Ég held þvert á móti að það feli hættu í sér fyrir okkar viðkvæma efnahag á Íslandi að láta ríkið sjálft ráðast í stóratvinnurekstur sem hefur mikla áhættu í för með sér. Við það bætist að í slíku felst stórfelldur ríkiskapítalismi. Ef hvert stórfyrirtækið af öðru er sett á laggirnar sem ríkisfyrirtæki, þá sé ég ekki betur en stefni óðfluga í æ meiri og stórfelldari þjóðnýtingu yfirleitt í okkar atvinnulífi og það tel ég á allan hátt mjög hættulegt fyrir efnahags- og atvinnulíf okkar. En ef svo fer sem mér þykir líklegt að það verði samþ. að hafa alla þessa ríkisaðild að eigninni í því fyrirtæki sem hér er verið að ræða um, þá vil ég óska þess að gerðar verði ráðstafanir til þess að ríkið láti sinn hlut svo mikið sem verða má í hendurnar á einstaklingum. Við íslendingar eigum fyrirtækið jafnt þótt það séu einstaklingar sem eiga það. Ég get ekki séð að það beri nauðsyn til þess að þjóðnýta hlutina í svo stórum stíl sem þetta frv. ber með sér.

Ég vil taka það fram einnig í þessu sambandi að verði af þessari ríkiseign sem við þykjumst nú mörg sjá fram á, þá þykir mér eðlilegra, eins og hefur raunar komið fram hjá tveimur þm. a. m. k. í dag, að það sé Alþ. sem kjósi fulltrúa okkar í stjórn þessa fyrirtækis, heldur en ríkisstj.hverju sinni. Ekki svo að skilja að ég efist um að sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, muni velja ágætismenn í þá stjórn. Hitt er annað, að mér finnst það rétt grundvallarregla ef um er að ræða svo voldugt ríkisfyrirtæki eða þar sem ríkiseignin er svo mikil eins og hér væri um að ræða, að þar eigi Alþ. hlut að stjórninni.