23.04.1975
Efri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3231 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Vegna annarra atvika hér í dag hefur þess verið farið á leit að ræðumenn við 1. umr. hafi mál sitt sem styst. Síðasti ræðumaður, formælandi annars stjórnarandstöðuflokksins, hefur orðið mjög rausnarlega við því og mun ég einnig leitast við að hafa ræðu mína ekki of langa við 1. umr. En hæstv. forsrh. hefur nú gert grein fyrir þessu mikla frv. sem heitir mörgum orðum og á að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og treysta undirstöðu atvinnuvega og lífskjara samtímis.

Frv. er flutt sem áframhaldandi skref í áttina að tryggja jafnvægi í þjóðarbúskapnum, eins og það er orðað, í áframhaldi af gengisfellingunni frá því í febr., og ásamt öðru frv. virðist nú vera komin föst mynd á hvað hæstv. ríkisstj. ætlast til í því efni, en í öðru frv. boðar hún millifærslu rúmra 1600 millj. kr., frá launþegum fyrst og fremst, að stórum hluta í sjávarútvegi, yfir á aðra með ýmsum tilfærslum, sem langan tíma hefur tekið að fá samkomulag um í hæstv. ríkisstjórnarflokkum.

Hæstv. forsrh. sagði: Frv. má skoða sem ramma í ríkisbúskapnum. — Það var á sínum tíma mjög talað um það að hæstv. ríkisstj. þyrfti svigrúm til þess að móta ákveðna stefnu sem kæmi hlutunum í lag eftir að hún tók við af vinstri stjórninni, en stærri stjórnarflokkurinn hefur nú mjög talað um að allt hafi verið meira og minna í kaldakoli í þjóðarbúskapnum er þeir tóku við ríkisrekstrinum. Það vill nú svo til að annar stjórnarflokkurinn hefur nýlega haldið sinn flokksstjórnarfund og form. þess flokks og fyrrv. forsrh. hélt þar langa ræðu og minnti á stórkostlega uppbyggingu í atvinnulífinu og margt sem þar hefði verið gert og hvað allt væri með miklum blóma. En þá vildi svo til að fregnir bárust af því að næststærsta útgerðarfyrirtæki á landinu vantaði a. m. k. mörg hundruð millj. til þess að geta haldið rekstri sínum áfram eða svo að nokkur von sé til þess að það geti staðið í skilum. Eitthvað hefur því undan látið og eðlilegt að talað sé um að það þurfi að skapa svigrúm til að koma hlutunum í lag, og nægir ekki ein gengisfelling og nægir ekki tvær og virðist nú skammt í þá þriðju eftir því sem margir menn telja. Og það er einmitt þetta sem er gallinn við okkar þjóðarbúskap, að gera ráðstafanir sem almenningur hlýðir ekki og vill ekki taka þátt í. Það tel ég og hef oft sagt að væri frumatriði til þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskap íslendinga, sama hverjir sitja í ráðherrastólum og sama hve ríkisstj. hefur marga þm. á bak við sig, að gera þær ráðstafanir, sem almenningur vill hlíta og hlýða og taka á sig og taka þátt í. Það verður alls ekki sagt að almenningur fylgi þessari stefnu, sem nú ríkir, — alls ekki. Það er blindur maður í stjórnarherbúðunum sem verður ekki var við það hversu óánægður almenningur er og telur þessa stefnu alveg vonlausa til þess að halda jafnvægi áfram. Hæstv. forsrh. hlýtur að vita að tugir fyrirtækja í öllum starfsgreinum halda rekstri sínum eingöngu gangandi með skuldasöfnun. Það er búið að skrúfa svo fyrir heilbrigðan rekstur í landinu og eðlilegan rekstur að það nær ekki nokkurri átt. Það er aðeins lokað fyrir og sagt að engin eðlileg útlán séu veitt, það sé aðeins laust fjármagn sem losnar frá degi til dags, og heilbrigð innkaup, heilbrigt skipulag og heilbrigður rekstur fær engan veginn að njóta sín í dag. Miklu fremur er það viðurkenning á því, sem illa hefur tekist til. að, það sé verið að hlaupa undir bagga og það látið baslast áfram. Tel ég að slík vinnubrögð leiði það af sér fyrr eða síðar að atvinnulífið hljóti að fara í hnút.

Þetta frv. boðar í 1. gr. niðurskurð á ríkisútgjöldum allt að 3 500 millj. kr. Það kann að vera nauðsyn að gera átök í því efni að hefta þensluna því að vissulega hækkuðu fjárlögin það mikið að við í Alþfl. töldum þau vera óraunhæf, eins og þau voru afgr. hér fyrir áramót, og sannaðist það fyrr en ætla mætti. Það verður að horfast í augu við þá staðreynd að svo gífurleg verðþensla á milli ára hjá okkur skapar vandamál og að gengisfelling undir þeim kringumstæðum var ekki rökrétt vinnubrögð. Þótt hæstv. ríkisstj. hagnýti sér þessa heimild að verulegu leyti, sem ekki liggur nú enn þá stafkrókur um, með hvaða hætti verði gert, þá hamlar það ekki á móti þeirri verðbólgu sem hér hefur geisað og von var að næðist það niður á við að hún endaði um áramót með u. þ. b. 15% verðbólguþróun samkv. stefnuræðu hæstv. forsrh. á s. l. hausti. Það er því miður borin von, einmitt vegna gengisfellinga og vaxtahækkana og margs annars sem orsakar verðbólgu hér innanlands ásamt erlendum þáttum í verðmyndun. Það er auðvitað mjög mikilvægt atriði að draga úr fjármagnsþenslu í þjóðfélaginu og hefta útlán eins og framast er unnt. En ég felli mig ekki við þau vinnubrögð að þeir, sem standa síg sómasamlega og hafa sína hluti sæmilega í lagi og meira en það, fá ekki áheyrn, og eru til þess mýmörg dæmi í dag, en að hinum sé hyglað sem allt rekur á reiðanum hjá. Slík vinnubrögð í efnahagsstefnu og peningapólitík bera dauðann í sér fyrr eða síðar. Það er bara spurningin um tíma. Þá er nákvæmlega sama hvaða frv. kemur hér fram á Alþ., það verður aldrei tjaldað með því frv. eða þeirri löggjöf nema til skamms tíma, jafnvel til einnar nætur. Bráðabirgðalausn er aðeins fyrir hendi núna í samningamálunum, það koma verðhækkanir 1. júní og svo koll af kolli. Ríkisstj, hefur séð sig til neydda að gera hvort tveggja í einu, þrátt fyrir þröngan fjárhag, að taka á sig þegar á þessu ári niðurgreiðslur á áburði allt að 600 millj. og stofna til 150 millj. kr. til viðbótar á næsta ári og einnig verulegar upphæðir í sambandi við auknar bætur á útflutning landbúnaðarvöru. Hún telur sig knúna til þess að gera þetta án þess að gera Alþ. sómasamlega grein fyrir þessum auknu útgjöldum að öðru leyti en því að við vitum að hluti af þessu mundi koma þegar fram í vöruverði og hækkun þá á vísitölu.

Mér virðist persónulega að það sé allgóður jarðvegur nú til þess að taka vísitölukerfið til gagngerðrar endurskoðunar og finna á því nokkra bót. Þessar sjálfkrafa víxlhækkanir geta ekki verið lagalega bundnar ár eftir ár. Það er öllum til vandræða þegar til lengdar lætur. Það væri vissulega þakkarvert spor ef hæstv. forsrh. gerði nú röggsamlega gangskör að því að höggva á þessa víxlhækkun, þetta taktfasta slag til hækkunar sitt á hvað, eftir því hvernig verðlag hreyfist, í tekjum manna, tekjuöflun fyrir ríkissjóð og ýmsum öðrum þáttum sem ég vil ekki eyða tíma í að rekja við þessa umr.

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. að enn kann að fara svo að ríkisútgjöld aukist verulega til þess að takast megi að leysa yfirstandandi vinnudeilur. Það er auðvitað slæmt að hafa ekki neina tölu til viðmiðunar þegar þetta er gefið í skyn og eiga samtímis að vera að fjalla um niðurskurð og e. t. v. að vera byrjaður að taka afstöðu til þessa niðurskurðar, ef hér verður um verulegar upphæðir að ræða, annaðhvort innan ríkiskerfisins sjálfs eða vegna millifærslukerfisins, sem komið er á í þessu þjóðfélagi og er orðið svo viðamikið að mér virðist að það nálgist um 5 milljarða í landbúnaði og sé nú komið á 5. milljarð í sjávarútvegi. Ef þetta heldur áfram, að við séum að millifæra yfir 10 milljarða a. m. k. á næsta ári, þá er það mín skoðun að kerfið springi bókstaflega innan frá, — það springi bókstaflega innan frá, öll þessi millifærsluleið. Alþm. hljóta að verða að gera það upp við sig raunar allir launþegar í landinu, að þetta heldur ekki lengur svona áfram. Það er óhjákvæmileg uppstokkun á öllu okkar athafnalífi og launagreiðslum og niðurgreiðslum, og því fyrr sem ráðist er á þessa ófreskju, þessar geysilegu millifærsluleiðir, því betra að mínu mati. Þegar millifærslukerfið er orðið svona mikið og veltir upp á sig eins og snjóbolti, þá er eðlilegt að forsendur fjárl., sem við afgr. á síðasta ári, séu nú brostnar. Getum við verið sammála um að rök séu fyrir því að endurskoða þær forsendur og breyta þess vegna fjárl., eins og 1. gr. þessa frv. gengur út frá, og að hæstv. ríkisstj. hafi heimild til þess, þó í samráði við fjvn., en auðvitað mun meiri hl. hennar þar, sem er sterkur og mikill, móta það og þá eftir höfðinu á öllu apparatinu.

Það hefur komið fram að ríkisstofnanir verða að láta tekjur duga, eins og hæstv. forsrh. orðaði það. Það er ágætt, ef nauðsynlegt er, að skrifa viðkomandi ríkisstofnunum bréf og segja við þær einfaldlega: Þið verðið að láta tekjur duga þegar verðbólguþjóðfélagið er svona mikið hér á Íslandi að sýnilegt er að verðbólga verði á yfirstandandi ári yfir 40%, — jafnframt því sem lög varðandi ríkisstarfsmenn eru þannig að vart er hægt að hreyfa mann úr starfi. Mér finnst þess vegna varla fara saman að geta gefið út slíkan boðskap og segja við forsvarsmenn fyrirtækjanna að þeir verði að láta tekjur duga eins og fjárl. gerðu ráð fyrir við allt aðrar aðstæður en nú eru komnar í ljós.

Einn þáttur þessa frv. og hann ekki svo lítill er skattabreyting. Það hafði verið stefnumið allra stjórnmálaflokka í landinu að gera skattalöggjöfina einfaldari svo að venjulegur maður gæti á tiltölulega skömmum tíma gert sér grein fyrir því hvað hann mundi bera í álögur á komandi ári — eða á yfirstandandi ári nú. En eftir að þetta frv. hefur orðið að lögum er það aðeins á fárra manna færi að gera sér grein fyrir því hvernig ganga á frá skattaframtali og reikna út skatta. Svo ömurlega stefnir þessi breyting í öfuga átt við það sem allir voru sammála um á s. l. ári að nauðsynlegt væri að gera, að einfalda skattalög landsmanna og gera mönnum léttara en verið hafði um mörg ár að gera sér grein fyrir skattbyrði sinni á komandi ári. Sá maður, sem vill ráðstafa tekjum sínum skynsamlega og eðlilega, á heilbrigðan hátt og jafnvel leggja inn á sparisjóðsbók, verður með sómalegum hætti að geta reiknað út sjálfur hvaða álögur hann kann að bera á næsta ári og eiga fyrir því og ráðstafa hinu, þeim afgangi ef einhver er, með heilbrigt og eðlilegt sjónarmið í huga. En með þessari breytingu, sem nú er gerð á skattalögunum, er það gjörsamlega borin von, og er aðeins verkefni sérfræðinga að finna út hvernig skattaálögur koma til með að hvíla á viðkomandi persónu í það og það skiptið. Þessa þróun harma ég mjög. Við eigum að sjá sóma okkar í því hér á hv. Alþ. að hafa skattalöggjöfina einfalda þannig að hver venjulegur maður geti gert sér á tiltölulega stuttum tíma sæmilega grein fyrir því hvað hann kann að bera í skatta af þeim tekjum sem hann er að afla og hann geti síðan haldið sinn búreikning og hagað sér skv. því. Þetta er miklu mikilvægara atriði en svo að menn megi afgr. slíkt frv. eins og hér er lagt til að gert sé nú. Ég vil mjög gagnrýna þessi vinnubrögð, að skattalögin séu gerð miklu flóknari en þau hafa verið um mörg undanfarin ár.

Það er talað um að færa hér til í nokkrum tollflokkum og skal ég ekki eyða tíma í það að þessu sinni. Þetta eru ýmsir ávaxtaflokkar og feitmetisflokkar og sjálfsagt holl fæða fyrir ýmsa. En hvort það kemur að því gagni, sem frv. vill vera láta, skal ég láta ósagt. En það mætti minna á gamalt orðtæki, sem kom í Unga Íslandi á sínum tíma, en þar stóð: „Einn banani á dag setur meltinguna í lag.“ En mér virðist nú að mætti breyta því lítils háttar og segja: „Einn banani á dag setur ástandið í lag“ — ef það verður skattfrítt o. fl. Urðu þeir þá forspáir sem notuðu þetta orðatiltæki fyrir 40 árum í Unga Íslandi. Nauðsynlegt er að hafa ávexti, þó að á sínum tíma þætti það lúxus einn að hafa ferska ávexti á Íslandi, en ég fagna því að það skuli vera stuðlað að því að almenningur eigi kost á því að hafa ferska ávexti í ríkum mæli allt árið þótt mikið sé um utanlandsferðir af hálfu landsmanna.

Einn þáttur í þessu er flugvallagjald og það er rökstutt hve nauðsynlegt sé að afla tekna nokkuð á þriðja hundrað millj. kr., vegna framkvæmda við flugvelli landsmanna og þá fyrst og fremst við Keflavík. Vel geta verið rök fyrir því að setja nokkurt gjald, en hér er stefnt afar hátt. Hér virðist mér vera stefnt að því að flugvallagjald frá Keflavík sé um 15 dollarar, sem mun vera miklu hærra en nokkurs staðar tíðkast í heiminum eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um. Sums staðar hefur verið gjald sem gæti numið 2–4 dollurum, en hvergi neitt í líkingu við þessa upphæð. Síðan á að setja á gjald fyrir farþega innanlands, en jafnframt á að breyta söluskatti á farmiðum svo að þar mun ekki vera um íþyngingu að ræða, ef ég skil brtt. rétt, og því ekki gagnrýnisvert að breyta þar um. Það verður þá fastagjald og ætti að vera sanngirnismál, sérstaklega fyrir dreifbýlismenn, að hafa þennan hátt á og ekki óeðlilegt að gerð sé uppstokkun á því.

Einn veigamikill þáttur þessa frv. er lántökuheimild vegna opinberra framkvæmda og Framkvæmdasjóðs. Það er staðreynd og hún athyglisverð, að á sama tíma og hæstv. ríkisstj. boðar það að menn verði að fara varlega í efnahagsmálum þá liggur nú fyrir slík mergð umsókna í Framkvæmdastofnun ríkisins, um lán upp á mörg hundruð millj. eða meira, að aldrei mun hafa neitt slíkt legið fyrir á borðum þeirra ráðsmanna áður. — Bendir þetta til þess að víða sé þröngt fyrir, eða hins, nema hvort tveggja sé, að menn trúi ekki á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og vilji nú allir enn einu sinni flýta sér sem mest má verða við fjárfestingu og reyna að bjarga þeim fáu aurum, sem menn eiga, og slá nú með öllu hugsanlegu móti lán í viðbót svo að menn komist yfir fyrirtæki eða aðra lausamuni sem þeir telja eðlilegt og nauðsynlegt að hafa vegna rekstrar síns eða uppbyggingar atvinnulífs úti um land.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Fiskveiðasjóð vantar óhemju fjármagn og ýmsa aðra fjárfestingarsjóði vantar óhemju fjármagn. Það hefur verið boðað af hæstv. ríkisstj. að útlánaskilyrðum þessara sjóða yrði breytt og a. m. k. varðandi Fiskveiðasjóð yrði svokölluð sjálfvirkni í útlánum einnig endurskoðuð því að það er ákveðið hlutfall og bundið með lögum. Frv. gerði fyrst ráð fyrir að felld yrði niður heimild hæstv. ríkisstj. að hafa ríkisábyrgð á togarakaupum, en það hefur nú verið dregið til baka. Enn mun ekki sérstakt skipulegt átak hafa verið gert til að sýna landsmönnum fram á hvar vantar enn skip, hvorki skuttogara né annað, svo að þetta leikur allt meira og minna í lausu lofti að mínu mati. En hér er um afar mikilvægan þátt að ræða ef tryggja á, eins og er loforð nr. eitt hjá hæstv. ríkisstj., að atvinna sé handa öllum þeim er vinnu vilja fá. Þrátt fyrir það góða áform er vitað mál að mörg hundruð ungmenni í skólum frá 16 ára aldri og upp yfir 20 ára eiga nú við verulega erfiðleika að stríða að tryggja sér atvinnu á komandi sumri. Ef ekki verður gert sérstakt átak til að leysa þann vanda er fyrirsjáanlegt að hundruð ungmenna á ágætum vinnualdri verða atvinnulaus.

Hæstv. forsrh. undirstrikaði hér að ekki væri verjandi undir neinum kringumstæðum að halli væri á ríkisbúskapnum. Þetta er rétt staðhæfing út af fyrir sig við ríkjandi verðbólguástand. En mjög mikilvægt er hvernig þeim peningum, sem lausir eru, verði þá ráðstafað. Ég tel að það skipti miklu máli að ef við erum að skera niður um mörg hundruð millj. kr., ég tala nú ekki um milljarða, þá séu þær framkvæmdir, hvort sem einhverjum líkar betur eða verr, úti um landið eða hér í þéttbýlinu er heimta mikið fjármagn, en veita hlutfallslega fáum atvinnu. Ef það er ekki gert, þá er ekkert með það loforð að gera sem er sagt vera nr. eitt, að tryggja sem flestum atvinnu, því að atvinnuleysi er versta böl sem nokkur maður getur búið við. Hann er alveg vonlaus í slíkri aðstöðu. Hann getur ekki séð sér og sínum farborða. Hann getur ekki staðið í skilum með sínar skuldbindingar. Slíkt ástand má ekki skapast á Íslandi. Við höfum nóg svigrúm, nóg atvinnutæki og nægilegt fjármagn til að koma í veg fyrir slíkt.

Hæstv. forsrh. drap á að ríkisábyrgð — mér skildist á togurum ef ég hef heyrt það rétt gæti verið allmikil. Það væri nú ekkert úr vegi að fá yfirlit yfir slíkar ríkisábyrgðir, hvað hefur fallið á ríkissjóð og hvernig þessi mál standa í dag. Ég man eftir því að á sínum tíma, þegar núv. iðnrh. hæstv. var fjmrh., þá lét hann gera mikla skýrslu um þessi mál sem vakti alþjóðarathygli á sínum tíma, um ríkisábyrgðir hjá mörgum fyrirtækjum. Sú skýrsla var birt hér á Alþ. Það væri vel þess virði í dag að fá yfirlit yfir þessa stöðu nú einmitt um komandi mánaðamót ef þing situr hér nokkuð fram í maí. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir alþjóð og ekki siður fyrir Alþ. að fá heildaryfirlit yfir það hve miklar ríkisábyrgðir eru og hvað hefur fallið á ríkissjóð vegna þessara ábyrgða.

Það hefur komið fram að n. beggja deilda störfuðu saman við að athuga þetta frv. þegar það var flutt í Nd., og áttum við kost þess, fjh.- og viðskn.- menn hér í hv. Ed., að fylgjast með. Það kom greinilega fram á þeim fundum að meiri hl. ríkisstj. vildi lítið hlusta á till. frá ASÍ. Fulltrúar frá ASÍ komu með greinargóðar till. og töldu sig hafa það skriflegt, bréf undirritað af hæstv. forsrh., að skattalækkun ætti að eiga sér stað, sem reyndar er hér boðuð og mun vonandi eiga sér stað, með þeim hætti sem tillögumenn frá ASÍ töldu að best mundi koma að gagni fyrir þeirra umbjóðendur, a. m. k. varðandi 800 millj. kr. upphæð. Því miður hefur það farið svo í endanlegri afgreiðslu í Nd. að á þetta var ekki hlustað. Ég tel þetta mjög undarleg vinnubrögð. Það má deila um það með hvaða hætti viss skattalækkun í þjóðfélaginu komi einstaklingum eða viðkomandi þegnum til góða. En þegar heildarsamtök setja fram till. um vissa upphæð skv. því er þau telja að þau hafi í hendi sér, undirritað af hæstv. forsrh., þá finnst mér mjög merkilegt að ekki skuli vera hlustað á till. þeirra, þegar þau unnu þær till. það vel, að þær eru mjög skýrar og glöggt fram settar og nánast það vel unnar að taka má upp sem brtt. umsvifalaust og setja inn í frv.

Ég tel að hér geti skapast aðeins tortryggni að óþörfu fyrir þetta háttalag og stuðli að enn erfiðari lausn á miklu vandamáli sem lánamálin og kjaramálin eru í okkar þjóðfélagi. Og mig undrar að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa beitt áhrifum sínum sterkar í þá átt að mæta þessari ósk fulltrúa ASÍ alveg til fullnustu. En ég tel að þótt frv. geri ráð fyrir að hliðstæð upphæð í sköttum náist, þá skipti það meginmáli með hvaða hætti þessi skattalækkun komi til fólksins, og það er öðru nær en að skv. frv., eins og það er komið nú frá Nd., sé samræmi á milli óska fulltrúa ASÍ og frv. eins og það liggur fyrir nú. Ég mun því reyna á nefndarfundi í deildinni að vita hvort ekki er mögulegt að sveigja frv. í átt að óskum fulltrúa ASÍ. Ef það reynist ekki verður það að ráðast. En ég tel að það sé hæpið að standa í miklu undirbúningsstarfi til að ná saman samningum, rita bréf er lýsi ákveðinni afstöðu og menn taki það gott og gilt, en síðan sé sáralítið eða ekkert hlustað á fulltrúana þegar þeir koma á nefndarfundi. Þrívegis skrifaði ég orðrétt að fulltrúi ASÍ sagði: „Ég óska eftir rökum gegn þeim till., sem við leggjum hér fram.“ Þá var sagt: „Þau munu koma fram á hv. Alþ.“ Það getur vel verið að þau komi hér fram við 2. umr., en þau komu ekki fram við 1. umr. Ég hlustaði ekki á umr. í Nd. og hef ekki séð þær umr. enn á prenti. En það væri þá vel þess virði að við fengjum að heyra rök fyrir því af hverju ekki er hægt að hlusta á till. ASÍ-fulltrúanna, þar sem þeir töldu skýlaust að þeir hefðu fastmælum bundið og raunar svar á hvítu með hvaða hætti ætti að hlusta á þeirra mál og ákveðin upphæð yrði til ráðstöfunar, sem ekki er deilt um hver sé, að ég held, allt að 2 þús. millj., en deilt er mjög um með hvaða hætti á að skipta þessari upphæð. Um það var greinilega skoðanamunur á nefndarfundunum og sýnilegt er að ekki hefur verið hlustað á fulltrúa ASÍ eins og frv. liggur nú fyrir í dag.