25.04.1975
Efri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

130. mál, fóstureyðingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það til l. um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, sem lagt er hér fram, á sér nokkuð langan aðdraganda. Í marsmánuði árið 1970 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh. Eggert G. Þorsteinsson nefnd til að endurskoða lögin um fóstureyðingar, afkynjanir og vananir, þ. e. lög nr. 38 frá 28. jan. 1935, um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar, og hins vegar lög nr. 16 frá 13. jan. 1938, um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki er koma í veg fyrir að það auki kyn sitt. Í nefndina voru skipaðir 3 læknar, þeir Pétur Jakobsson prófessor, Tómas Helgason prófessor og Sigurður Samúelsson prófessor. Tæpu ári síðar tók Guðrún Erlendsdóttir hrl. sæti Sigurðar Samúelssonar í nefndinni þar sem hann óskaði eftir að verða leystur undan starfi. Síðla árs 1971 tók Vilborg Harðardóttir blaðamaður sæti í nefndinni. Þessi nefnd hélt 24 fundi og skilaði af sér frv. ásamt langri grg. Frv. var síðan lagt fyrir þing 19. nóv. 1973. Um frv. sköpuðust miklar deilur bæði utan þings og innan. Eftir 1. umr. var frv. vísað til heilbr: og trn. og er skemmst frá því að segja að nál. leit aldrei dagsins ljós og kom frv. ekki til 2. umr.

Hinn 1. nóv. á s. l. ári skipaði ég svo nefnd til að undirbúa endurframlagningu þessa frv. Þá nefnd skipuðu þeir Ingimar Sigurðsson fulltrúi í heilbr.- og trmrn., Ellert B. Schram alþm. og Halldór Ásgrímsson alþm. Nefnd þessari var falið að endurskoða frv. með tilliti til þeirra athugasemda og þeirrar gagnrýni, er fram hafði komið við upprunalega gerð frv., og gera till. um breyt. þar sem höfð væri hliðsjón af tveimur meginatriðum: Í fyrsta lagi að nauðsynleg væri ný löggjöf þar eð lögin frá 1935 og 1938 væru löngu úrelt og ófullnægjandi, og í öðru lagi að mögulegt yrði að gera frv. að lögum.

Breytingar þær, sem orðið hafa á frv. frá frv. sem lagt var fram á síðasta þingi, beinast allar í þá átt að ná viðtækri samstöðu til þess að frv. verði að lögum á þessu þingi. Nd. gerði á frv. nokkrar smávægilegar breytingar sem breyta ekki frv. efnislega, og má segja að eins og frv. liggur nú fyrir þessari hv. þd. sé það mjög svipað og það var þegar það var lagt fram í Nd. í desembermánuði.

Breytingarnar frá fyrra frv. gera lögin að mínum dómi í senn framkvæmanlegri og réttlátari en áður. Aðalbreytingin er á 9. gr. hins upprunalega frv., en samkv. þeirri gr. skyldi fóstureyðing heimil að ósk konu ef engar læknisfræðilegar ástæður mæltu á móti aðgerðinni og aðgerðin væri framkvæmd á fyrstu 12 vikum meðgöngutímans. Fóstureyðing var því heimil án nokkurra félagslegra eða læknisfræðilegra ástæðna eða sem eins konar getnaðarvörn er grípa mætti til sýndist konu svo. Þetta braut mjög í bága við álit nefndarinnar eins og þar kom fram í grg. með frv., því að þar segir orðrétt:

„Nefndin lítur svo á að fóstureyðing sé alltaf neyðarúrræði vegna þess að um er að ræða læknisaðgerð sem getur haft áhættu í för með sér og krefst sérhæfðs starfsfólks og fullkomins útbúnaðar til sérhæfðrar læknismeðferðar ef eitthvað ber út af.“

Úr þessari þversögn hefur verið bætt í núverandi gerð frv. Fyrri kafli 9. gr. þess hljóðar nú þannig:

„Fóstureyðing er heimil:

1) Félagslegar ástæður:

Þegar ætla má að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu óbærileg eða of erfið.“ — nú eftir breyt. í Nd. — „vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal tekið tillit til eftirfarandi:

a) Hafi konan alið mörg börn með stuttu millibili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.

b) Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.“ — Orðið fátækt hefur verið fellt úr við breyt. í Nd.

„c) Þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.

d) Annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður.“

Um fyrri setningu þessarar gr. er það að segja að ef við álítum fóstureyðingu neyðarúrræði, hljótum við líka að álíta að kona æski ekki fóstureyðingar nema hún sjálf áliti að tilkoma barns þess, er hún gengur með, sé henni óbærileg á þeim tíma er hún fer fram á slíka aðgerð. Hvort óbærilegt er að ala barn sem ekki er álitið tímabært að áliti móður þess, föður eða beggja foreldra fer oftast eftir þeirri aðstöðu er móðir eða báðir foreldrar geta af eigin rammleik og með aðstoð þjóðfélagsins skapað þessum nýja einstaklingi. Húsnæðisskortur, lágar tekjur, skortur á dagvistun og annarri aðstoð við uppeldi hins nýja einstaklings eru efalaust stundum ástæður þess að barn er af foreldri eða foreldrum talið óvelkomið í þennan heim. Þetta eru ástæður sem oftast má bæta úr á einn eða annan hátt af hálfu þjóðfélagsins. Fóstureyðingin sjálf leysir engin félagsleg vandamál, en það skal játað að hún gerir þjóðfélaginu kleift að líta fram hjá félagslegum vandamálum eins og t. d. húsnæðisskorti og fátækt. Það er mitt álit að með aukinni aðstoð bæði við ógiftar sem giftar mæður, bæði hvað snertir húsnæði og aðstoð almannatrygginga, svo og auknu dagvistunarrými geti þjóðfélagið komið í veg fyrir að barn, sem talið er ótímabært og óvelkomið við fyrstu athugun, verði móður sinni óbærilegt. Það er því mitt álit að breyting sú, sem orðin er á frv. frá gerð fyrra frv., hljóti að leggja auknar skyldur á herðar þjóðfélagsins.

Um a-lið þessarar greinar, þ. e. hafi konan alið mörg börn með stuttu millíbili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði, er það að segja að hæfileg bil milli barnsfæðinga er almennt talið til bóta bæði fyrir heilsu móður og barns. Að ganga með barn er andlegt, líkamlegt og tilfinningalegt álag fyrir móður og sá tími sem liður milli fæðinga er því sá tími sem á að nýta til að byggja upp andlega og líkamlega krafta hennar. Önnur rök þarf naumast að hafa fyrir þessum lið 9. gr. frv.

B-liður þessarar gr., að eigi konur við að búa bágar heimilisaðstæður, endurspeglar betur en flest annað það sem minnst var á hér á undan. Skortur á upplýsingum um getnaðarvarnir í okkar annars á margan hátt frjálslynda þjóðfélagi er orsök margra ótímabærra fæðinga. Úr þessu verður þjóðfélagið að bæta og þetta frv. er stórt skref til úrbóta á þessu sviði.

Heilsuleysi er ástæða sem þjóðfélagið getur bætt á margan hátt, t. d. með aukinni aðstoð við láglaunafólk, barnmargar fjölskyldur og aðra er eiga við efnahagsörðugleika að etja og svo með auknum bótum almannatrygginga, en því miður er ekki hægt að gera allt samtímis og því verður fóstureyðingarlöggjöf á Íslandi að viðurkenna að slíkar ástæður séu ekki fyrir hendi í okkar þjóðfélagi.

Um c-lið þessarar gr., þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt, þarf ekki að fara mörgum orðum. Stóraukin kynferðisfræðsla í skólum, sem því miður er nú af mjög skornum skammti, getur dregið stórlega úr fóstureyðingum sem gerðar væru af þessari ástæðu. Að neyða börn til að eiga börn, sem þau aldrei geta annast, og eyðileggja þannig bæði æsku móðurinnar og barnsins er bæði ómannúðlegt og lýsir skorti á skilningi á þeim kröfum sem við gerum til uppeldis og lífsskilyrða barna okkar.

Síðasti liður þessa kafla 9. gr., þ. e. „annarra ástæðna, séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður,“ á að veita lögunum nauðsynlegt svigrúm til að hægt sé að taka til greina sérstakar ástæður sem alltaf geta verið fyrir hendi og ekki eru taldar hér upp.

Um læknisfræðilegar ástæður í 2. lið 9. gr. ætla ég svo ekki að fjöryrða, þær eru öllum svo auðskildar að um þær þarf naumast að ræða hér.

Ég hef gert nokkuð að umræðuefni breytinguna, sem varð á 9. gr. frv., vegna þess hve um hana hafa spunnist miklar umr. bæði á síðasta þingi og þessu þingi og sömuleiðis með margvíslegum samþykktum og áskorunum til Alþ. Ef dæma ætti eftir umr., mætti halda að gr. þessi væri sú í frv. er mestum sköpum skipti. Ég er mjög mótfallinn þessari skoðun þar eð ég tel I. kafla frv., þar sem fjallað er um ráðgjöf og fræðslu, mikilvægastan. Með þeim kafla er það gert að skyldu samkv. lögum að láta í té fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir jafnt fyrir unga sem fullorðna. Eina breytingin, sem gerð er á þessum veigamikla kafla frá fyrra frv., er sú að nú er kveðið á um hvaða aðilar skuli hafa með höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar fræðslu. Þessi breyting er vafalaust til bóta.

Í II. kafla frv. eru nú gerðar meiri kröfur til umsókna um fóstureyðingar en áður var. Nú er gert ráð fyrir að alltaf standi tveir aðilar að umsókninni ásamt konunni sjálfri þ. e. a. s. tveir læknar eða læknir og félagsráðgjafi. Enginn dregur í efa hæfni einstakra sérfræðinga til að gera sér grein fyrir aðstæðum og heilsufarsástandi konunnar, en hins vegar ber að minnast að betur sjá augu en auga og til að tryggja sem best heilsu og velferð konunnar, þá teljum við rétt að fleiri en einn sérfræðingur skili grg. með umsókninni.

Á III. kafla frv., sem fjallar um ófrjósemisaðgerðir, hefur verið gerð sú meginbreyting að aldurstakmarkið hefur verið hækkað úr 18 í 25 ár. Þetta er gert til að reyna að tryggja velferð unglinga sem e. t. v. óska eftir ófrjósemisaðgerð að lítt yfirveguðu máli eða vegna þroskaleysis.

Í kaflanum um almenn ákvæði hefur sú breyting orðið frá fyrri gerð frv. að nú er kveðið á um að nefnd sú, sem skipuð sé til að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, verði nú skipuð einum félagsráðgjafa ásamt lækni og lögfræðingi. Ég tel nauðsynlegt að félagsráðgjafi eigi sæti í þessari nefnd svo að tryggt verði að félagslegar ástæður umsækjanda verði engu síður réttháar en þær læknisfræðilegu og þær verði kannaðar af einstaklingi sem hefur sérmenntun til að meta slíkar aðstæður.

Ég vil ljúka máli mínu með þeirri ósk að þetta frv. fái hér málefnalega og yfirvegaða málsmeðferð í hv. þd. og þm. láti orð sín hvorki stjórnast af fordómum né tilfinningasemi. Ég held að það sé mikilvægt atriði að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi því að um efni þessa frv. hafa spunnist miklar umr. nú í tvö ár í röð og ég tel ekki æskilegt að þær umr. og þær samþykktir haldi áfram svona markvisst á hverju ári. Þess vegna legg ég fyrir mitt leyti mikla áherslu á það að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi. Reynslan verður svo að skera úr um það hvort eigi að hreyta því innan ekki langs tíma. Það er rétt að stiga ekki of stórt skref í einu og sjá hvernig reynslan verður. Ég treysti því að hv. þd. hraði sem mest afgreiðslu þessa máls. Legg ég til. herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn.