25.04.1975
Efri deild: 72. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3256 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

130. mál, fóstureyðingar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þar eð ég sit í þeirri n. sem á að fá þetta frv. til meðferðar í hv. d. mun ég ekki hafa mörg orð um það að þessu sinni. Mig langaði aðeins til að minnast á nokkur atriði. Ég vil vekja athygli á því að hér er um mjög merkilegt frv. að ræða og mikilvægt og því ekki að ástæðulausu að um það hafa spunnist miklar umr. bæði innan og utan Alþ.

Oft hefur verið vitnað til þeirra laga sem við nú búum við. Þó er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því hve þessi lög voru í raun og veru frjálslynd þegar þau voru sett, og þó að sjálfsagt sé að á þeim þurfi að gera breytingar nú, þá er þó víst að þeir annmarkar, sem orðið hafa á framkvæmd þessara mála, eru fyrst og fremst af öðrum ástæðum en lagagerðinni sjálfri. Þetta frv. fjallar um ráðgjöf og fræðslu, fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Um kaflann er fjallar um ráðgjöf og fræðslu hefur margoft verið um það talað að við höfum enga fræðslu haft um þessi efni, en slíkt er ekki alveg rétt. Bæði höfum við í gömlu lögunum okkar haft ákvæði þar um og í námsskrá skólaskyldunámsins er einnig um þetta getið. Mig langar til, vegna þess að búið er að ræða þessi mál svo mikið, að lofa ykkur að heyra 1. gr. laganna frá 1935, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef kona vitjar læknis og er sjúk á þann hátt að læknirinn telur hættulegt fyrir hana vegna sjúkdómsins að verða barnshafandi og ala barn, er honum skylt að aðvara hana í því efni og láta henni í té leiðbeiningar til þess að koma í veg fyrir að hún verði barnshafandi.

Nú leitar kona til héraðslæknis, annars starfandi læknis eða sérfræðings í kvensjúkdómum eða fæðingarhjálp og óskar leiðbeininga um varnir gegn því að verða barnshafandi, og er lækninum þá skylt að láta slíkar leiðbeiningar í té, enda öðrum en læknum óheimilt að hafa þær leiðbeiningar með höndum. Ráðherra gefur út og landlæknir fær læknum í hendur leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi.“

Í námsskránni frá 1960 um skyldunámsstigið er tekið fram að rætt skuli við nemendur um nokkur atriði varðandi kynþroskaskeiðið.

Það, sem hér hefur vantað á, er að þetta væri framkvæmt. Er talið að þetta stafi að verulegu leyti af því að t. d. með fræðsluna á skyldunámsstiginu höfum við beinlínis ekki haft aðstöðu, ekki lærða aðila til að uppfræða unga fólkið í þessu efni og úr því þarf að sjálfsögðu að bæta. En við skulum ekki halda að þó að við samþykkjum þessi lög séu skilyrðin til fræðslunnar komin þá þegar. Það tekur örugglega langan tíma fyrir okkur að uppfræða kennara til þess að geta sinnt þessari kennslu svo sem vera ber. En hitt er svo allt annað mál, að um þennan kafla erum við öll sammála. Ég vil vekja athygli á því að okkur er í þessu efni sem svo mörgum öðrum fyrst og fremst nauðsynlegt að fá hæfa aðila til að ástunda þessa fræðslu.

Aðaldeiluefni þessa frv. er 9. gr. og margt hefur verið skrifað, margt hefur verið sagt um frv. sem kom fram í fyrra og heimilaði konum að hafa algert frjálsræði fyrstu 12 vikurnar um fóstureyðingar. Okkur alþm. hafa borist tugir bréfa frá aðilum sem óska eftir því að við styðjum frv. í þeirri mynd sem það kom fram í fyrra. Hins vegar vil ég eindregið halda því fram að það sé ekki meiri hl. íslenskra kvenna sem óska eftir þessum sjálfsákvörðunarrétti. Ég held að þessi tilskrif sanni ekkert um það mál.

Hvað er fóstureyðing? Um það er getið í lögunum frá 1935 og mig langar til að lofa ykkur að heyra 3. gr. þeirra laga sem hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Það er fóstureyðing ef burður er líflátinn í móðurkviði áður en konan hefur gengið með hann fullar 28 vikur.“

Og síðan segir:

„Það er líflát barns í móðurkviði eða í fæðingu ef burður er líflátinn í móðurkviði eða í fæðingu eftir að konan hefur gengið með hann a. m. k. 28 vikur.“

Í 9. gr. segir einnig: „Við mat á því, hvert tjón er búið heilsu þungaðrar konu af burðinum samkv. 1. málsgr., má m. a. taka tillit til þess, ef konan hefur þegar alið mörg börn með stuttu millibili og er skammt liðið frá síðasta barnsburði, svo og til þess, ef konan á við að búa mjög bágar heimilisástæður vegna ómegðar, fátæktar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.“

Það sýnir sig sem sagt að í þessum gömlu lögum okkar eru félagslegar ástæður einnig teknar til greina. Þess vegna er það, eins og ég tók fram áður, að mínu viti frekar framkvæmdin sem hefur farið úrskeiðis í vissum tilfellum heldur en að lögin hafi verið óviðunandi.

Það er ekki að leyna því að þær miklu umr., sem nú hafa farið fram um þetta mál, byggjast fyrst og fremst á því að hér er um veigamikið grundvallaratriði okkar þjóðfélags að ræða. Til þess að sýna, að það eru vissir aðilar sem hafa reynt að gera heldur lítið úr þessu máli, vil ég taka hér eina setningu, með leyfi forseta, úr bréfi er alþm. fengu frá Rauðsokkahreyfingunni í fyrra. Setningin hljóðar svo: „Er ekki hæpið að tala um að eyða mannslífi þegar fárra vikna hnúður er fjarlægður úr móðurkviði?“ — Það er engin tilviljun að hér er fóstrið nefnt hnúður, og það byggist á því án efa að þegar hnúður tekur að vaxa í fullvöxnum mannslíkama er venjan sú, að það er mjög áríðandi að fjarlægja hann sem fyrst. En með þennan hnúð gegnir aftur á móti nokkuð sérstöku máli, svo sérstöku máli að ef þessi hnúður fær að vera óáreittur, þá eru milli 95–100% líkur til þess að hann sé orðinn sjálfstæður einstaklingur innan skamms tíma. Hins vegar ef hróflað væri við hverjum hnúð þá mundi þjóðin verða útdauð innan einnar aldar. Það er nú þetta sem er meginefni þessa máls, að hér er um mjög veigamikið atriði að ræða sem snertir grundvöll alls lífs, og ég er einn af þeim sem líta svo á að fóstrið sé sameign, en ekki séreign konu, enda þótt það sé í hinnar umsjá, og þess vegna þurfi veigamiklar átæður til að hrófla við þessum hnúð.

Það er einnig vitað mál að vandi konu, sem þarf af einhverjum ástæðum að losna við sitt fóstur, er mikill og ábyrgð hennar er mikil og kemur ekki síst fram gagnvart henni sjálfri þótt þetta snerti reyndar þjóðfélagið í heild. Þetta byggist einnig á því að það er almennt viðurkennt, skilst mér, að konur séu gjarnan haldnar þunglyndi fyrstu vikurnar eftir að þær verða þungaðar. Þetta getur að sjálfsögðu eitt út af fyrir sig ruglað dómgreind þeirra á þessu tímabili, og ég held að það efist enginn um að það er þetta sem að nokkru leyti mótar afstöðu lækna til þessa máls.

Nú er vitað að læknastéttin er ekki einhuga í þessu máli. Það er heldur engin tilviljun að það eru fyrst og fremst fæðingarlæknarnir sem eru andstæðingar frjálsrar fóstureyðingar. Það er vegna þess að þeir eru í beinni snertingu við þetta mál. Það er enn fremur ein staðreynd sem nokkru veldur þarna um. Það er vitað mál að framkvæmd fóstureyðingar getur haft þau áhrif, að konan eigi þess ekki kost að verða þunguð á ný, og því ekki víst að hún geti eignast barn þegar henni finnst tími til þess kominn. Þetta er ein mikilvæg ástæða fyrir því að gæta meira hófs á þessu sviði.

Allir viðurkenna fóstureyðingu sem neyðarúrræði. Vegna þess finnst mér ekki óeðlilegt þótt konan fái ráðleggingar og jafnvel aðrir verði að taka ákvörðun fyrir hennar hönd í svo mikilvægu máli og undir vissum kringumstæðum. Það er ekkert óeðlilegt þótt ungri konu, sem verður þunguð og býr við frekar erfiðar félagslegar ástæður, finnist lífið óbærilegt framundan ef hún losni ekki við fóstrið. En það er ekki þar með sagt að vandkvæði hennar megi ekki leysa á annan hátt, og til þess er þetta ætlað, að hún fái ráðgjöf annars staðar að og enn fremur að fóstureyðing sé ekki heimiluð nema verulegir félagslegir erfiðleikar séu fyrir hendi.

Eitt af því, sem veldur því að ég get ekki fylgt frv. í þeirri upphaflegu mynd sem það var lagt fram í fyrra, er að mér finnst að við séum alls ekki undir það búnir að ráðleggja konum. Við höfum hér mjög fámenna stétt félagsráðgjafa og það er ekki efi á því að þeir hafa ekki nokkra aðstöðu til að veita öllum þeim konum, sem þess mundu þurfa, fullnægjandi ráðgjöf og gefa sér tíma til þess að sinna þeim svo sem skyldi. Meðan svo er álít ég að við getum ekki stigið skrefið til fulls. Einnig finnst mér ástæða til þess að það komi meiri reynsla á algert frjálsræði í þessu efni heldur en nú er komin. Við vitum að ýmsar þær þjóðir, sem hafa lögleitt frjálsar fóstureyðingar, hafa snúið til baka á ný. Við vitum líka að okkar núgrannaþjóðir eru nú að breyta lögum sínum í þessa átt. En reynsla þeirra er mjög stutt og alls ekki einhlít, þannig að mér finnst að við verðum að biða örlítið enn og sjá hverju fram vindur. Mun ég fresta að segja meira um þetta mál að öðru leyti en því að mér finnst ég geta sætt mig við frv. í þeirri mynd sem það nú er í.