25.04.1975
Efri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. við 1. umr. og skal forðast að endurtaka það nema að mjög litlu leyti.

Ég hef fyrst og fremst það við þetta að athuga að ég tel frv. ekki standa undir nafni sem frv. sem stuðla eigi að jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fyrst og fremst er um að ræða frv. til lausnar á kjaradeilu.

Ýmsir þættir þessa frv. eru hins vegar þannig að ég get stutt þá, eins og t. d. þá áherslu sem lögð er á fjármagn til orkumála. Það te1 ég vera forgangsframkvæmd. Ég harma að ekki hefur fengist sú sundurliðun, sem ég bað um, en ég mun afla mér hennar eftir öðrum leiðum.

Fyrst og fremst er það lækkun skatta sem ég tel vanhugsaða og ég tel þar farið inn á braut sem varhugaverð er og get tekið undir hvert orð sem hv. frsm. sagði um það atriði. Þó eru í þeim kafla ýmsir þættir sem að mínu mati eru til bóta og einföldunar á skattakerfinu.

Hins er þó að gæta að þessi skattalækkun er orðin liður í lausn kjaradeilu og fyrir það vil ég ekki setja fótinn. Ég mun því sitja hjá við atkvgr. um sumar greinar skattalækkunarinnar, en styðja flestar aðrar greinar frv.

Ég vil svo segja það, þar sem ég er staðinn hér upp, að ég hef einnig fengið till. Seðlabankans, þá grg. sem hér hefur verið töluvert vísað til, en ég hef ástæðu til að halda að ekki sé rétt að taka hana af alvarlega. Ég tek undir það, sem hv. frsm. 1. minni hl. sagði áðan, að vitanlega kemur ekki til mála að Byggðasjóður leggi 300 millj. til Stofnlánadeildarinnar. Þar hefur hins vegar verið rætt um töluverða fjárhæð til vinnslustöðva landbúnaðarins, og gæti ég trúað því að það sé rétt, sem hann sagði, að sú upphæð geti orðið 100–150 millj., enda veit ég ekki betur en að mál Stofnlánadeildarinnar eigi að leysa eftir öðrum leiðum en þeim sem Seðlabankinn hefur lagt til í sínum till. Ég held því að hv. stjórnarandstæðingum sé satt að segja óhætt að leggja þær till. til hliðar.

Ég vil ekki taka undir það að Byggðasjóður hafi ekki verið efldur. Sannarlega hefur hann verið efldur. Dýrtíðin hefur hins vegar verið mikil, það er rétt. En miðað við þá erfiðleika, sem eru í íslenskum þjóðarbúskap og hljóta að leiða til þess að samdráttur verður nokkur, a. m. k. um tíma, tel ég að Byggðasjóður hafi verið efldur svo að um muni.

Ég læt þessi orð nægja til skýringar á þeirri afstöðu sem ég mun taka til frv. við atkvgr.