25.04.1975
Efri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3288 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þá ádeilu, sem hér hefur fram komið um málsmeðferð varðandi upplýsingasöfnun í hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. d., og lýsa furðu minni á þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru, en jafnframt lýsa trausti mínu á form. n. og bið hann sérstaklega að taka þessi orð mín alls ekki til sín. Hann hefur gert sitt besta til þess að vinna sitt verk á þann hátt sem við getum allir verið ánægðir með. En það, sem kom fram á fundi n. í morgun, olli mér miklum vonbrigðum, verð ég að segja þar sem við fáum ekki gögn, sem hann hefur í fórum sínum og við búumst við að fá afrit af, vegna þess að embættismenn neita honum um að afhenda þau okkur til upplýsinga þannig að málflutningur okkar gæti orðið málefnalegri á þessu stigi. Þetta er engum til sóma þrátt fyrir að ég hafi verið krítískur á þetta blessaða kerfi okkar, þá bjóst ég ekki við að Alþ. réði ekki við það.

Ég vil þessum orðum mínum til viðbótar leggja áherslu á það hér hvort ég geti komið beiðni til hæstv. forsrh. eða forseta þessarar d., — beiðni sem ég hef þegar komið nokkrum sinnum á framfæri við form. sameiginlegra fjh.- og viðskn. beggja deilda, að vísu ekki fyrr en á miðvikudag við form. fjh. Ed., að ég óskaði eftir skriflegu svari frá seðlabankastjóra um hvort það sé rétt, sem stendur á bls. 27 í grg. með frv., að það sé um 12 þús. millj. kr. nettóaukning erlendra skulda þjóðarbúsins á árinu. Það kemur líka fram þar á sömu síðu, rétt fyrir ofan, að í grg. er talið að 3 þús. millj. kr. af erlendu lánsfé sé í mesta lagi hægt að afla á næsta ári. Nú hafa 800 millj. bæst við það svo að þessi fullyrðing í grg. stenst ekki lengur. En ég vil benda á það að þessi erlenda skuldaaukning á árinu, 12–13 þús. millj., er yfir milljarð á mánuði og mér reiknast til að það sé milli 30 og 40 millj. kr. skuldaaukning á dag. Ég vil fá að vita það frá seðlabankastjóranum, sem heldur um slagæð peningamála þjóðarinnar og þá sérstaklega um gjaldeyrismálin, hvort hann álítur þjóðarbúið þola þetta. Ef hann álítur þjóðarbúið þola þetta, þá lítur málið dálítið öðruvísi út í mínum augum, en ég vildi sannfærast um að hérna sé ekki um alvarlega skuldasöfnun að ræða áður en ég tek afstöðu til frv. í heild. Mér hefur ekki tekist að fá þetta svar skriflegt. Ég skal ekki segja um það hvort seðlabankastjóra hefur borist þessi ósk eða hann eigi eftir að fá hana og hann svarar henni þá kannske bráðlega eða hvort hann hefur fengið hana og ætlar sér ekki að svara henni. Þá vil ég segja það, ef hann ætlar sér ekki að svara henni, að þá erum við komnir í nákvæmlega sömu afstöðu gagnvart þessari hlið kerfisins og hv. 1. landsk. þm. benti á að bæði hann og aðrir nm. fjh.- og viðskn. komust í í morgun gagnvart Framkvæmdastofnuninni, þar sem okkur er beinlega meinaður aðgangur að upplýsingum sem þó voru í fórum form. nefndarinnar.

Ég skal ekki fara ítarlega út í einstaka liði frv., sem hér liggur frammi, enda held ég að það sé öllum ljóst að ég tel mig ekki vera ábyrgan fyrir þeirri efnahagsstefnu sem hér er í uppbyggingu, en mun þó ekki gera neitt til þess að bregða fæti fyrir hana. Ég trúi því að mér reyndari menn í stjórnmálum, sem standa að henni, sjái betur en ég lokamarkið, og ég vona að ótti minn við að styðja þessa stefnu sé ekki á rökum reistur og ríkisstj. komi mjög sterk út úr þessu, sem sagt að hún hafi rétt fyrir sér, en ég hafi rangt fyrir mér. Það er mín ósk í þessu máli.

Á nefndarfundum hjá okkur voru birtar óskir hinna ýmsu aðila þ. á m. Alþýðusambands Íslands. Ég verð að segja það að rök þau, sem fram komu í erindi ASÍ og í málflutningi þeirra manna, sem komu á fundi fjh.- og viðskn. voru það sterk að ég aðhyllist þeirra sjónarmið og það kom fram hjá mér á nefndarfundum að ég vildi verða við óskum þeirra. Mér fannst og finnst enn þá vera hagkvæmara fyrir þetta láglaunafólk, sem við erum að reyna að hjálpa, að greiða því út þá peninga sem um er að ræða, að það fái þá sem launabót, heldur en að láta það koma með niðurgreiðslu eða niðurfellingu á söluskatti á einstökum neysluvörum. Ég held að það komi sér betur fyrir þetta lægst launaða fólk, sem við viljum hjálpa, að það fái þá matarpeninga, sem þetta á að vera með því að fella niður söluskatt á einstaka matvælum, þ. á m. neysluvörum, það fái þetta í peningum og geti ráðið sjálft, hvort það kaupir þann mat, sem peningarnir eru nú ætlaðir í eða ekki, eða ver því á annan hátt. Þetta eru í mínum augum launabætur og þar af leiðandi styð ég þá skoðun Alþýðusambandsmanna að útborgun í peningum komi sér betur fyrir fólkið, sem við viljum hjálpa og höfum samið við, heldur en niðurfelling á söluskatti.

En það vil ég undirstrika hér að ég tel það alls ekki svik af hálfu ríkisstj. hvor leiðin sem er farin. Það kom fram í umr. í Nd., að mér var sagt. En ég álít að ríkisstj. standi við sín loforð að fullu hvor leiðin sem farin er.

Ég harma það að einn af þeim sérfræðingum, sem til voru kvaddir til að veita upplýsingar, lét þau orð falla í fjh.- og viðskn., á sameiginlegum fundi, að það væri pólitískt sterkara að greiða niður söluskatt og þar með sýna lækkandi vöruverð en að borga fólkinu út peninga. Ég vil segja að að mínu mati sé ekki pólitískt betra að fella niður söluskatt en að greiða fólkinu út peninga. Þetta er sjálfsblekking. Fólkið er miklu betur upplýst um gang mála en það að það láti blekkjast af því að vöruverð lækkar skyndilega, gegn hinni leiðinni, að það fái greidda út peninga. Ég verð að segja það að ef ég á að meta fyrir sjálfan mig hvora leiðina ég vildi fara, það væri annars vegar kannske pólitískara og gott auglýsingaefni í augnablikinu og hins vegar þeir hagsmunir sem forustumenn fólksins sjálfir telja sig vera betur komna með, þá vel ég heldur þá leið sem fólkið telur sér hentari.

Þá komu fram óskir frá einstæðum foreldrum. Þótt að litlu leyti hafi verið tekið tillit til þeirra óska vil ég segja að mér finnst ekki nógu langt komið til móts við þá.

Skyldusparnaðurinn er kapítuli út af fyrir sig. Skyldusparnaðurinn er af fólki sem annaðhvort með menntun eða dugnaði eða með menntun og dugnaði hefur komist í þá aðstöðu að vinna betur fyrir sér en kannske nágranninn eða næsti maður. Þegar þetta fólk hefur greitt öll sín opinberu gjöld til ríkisins, að þá skuli ríkið seilast í sjálfseignarfé þess, sparifé þess, og skylda þetta fólk, sem er að fullu fjárráða, til þess að leggja til hliðar í Framkvæmdasjóð ríkisins ákveðinn hundraðshluta af því sem það á í ráðstöfunarfé, þegar það hefur gegnt öllum sínum skyldum við þjóðfélagið, það er andstætt mínum lífsskoðunum og ég vil mótmæla þessu. Það er ómögulegt að segja hvenær að því kemur að sagt er við þetta sama fólk: Þið þurfið alls ekki þetta fé. Þetta fé, sem er fram yfir það sem þið þurfið til lífsnauðsynja, getum við notað í allt annað á vegum ríkisins. — Segjum svo að þetta verði samþ., og þetta er verðtryggður skyldusparnaður. Hver á að endurgreiða þennan skyldusparnað? Ekki eru það sparifjáreigendurnir sjálfir sem eru skyldaðir til þess að spara. Það hljóta þá að vera allir aðrir. Og hverjir eru þessir allir aðrir? Það er það fólk sem við þykjumst bera fyrir brjósti og viljum hjálpa á allan hátt. Það hlýtur að þurfa að skattleggja þjóðina þá til þess að standa undir þessum gjaldaliðum eins og öðrum. Sem sagt, það er afskaplega mikið á móti mínum lífsskoðunum að taka þarna af þessu fólki.

Flugfélögin, ferðamálaráð og flestir þeir, sem hafa með ferðamál að gera, hafa varað bréflega við því að leggja flugvallagjaldið á. Það virðist ekki duga. Ráðgjafar og embættismenn ríkisstj. vita eflaust betur. En við höfum hlustað á og lesið varnaðarorð frá þessum aðilum um að þetta muni verða þjóðhagslega mjög slæmt fyrir ferðamannastraum til landsins og frá landinu. Annars hafði ég visst gaman af því að hér kom fram að fólk hefði misst trúna á að spara. Það er frsm. meiri hl. n. sem sagði það. Þetta er alveg rétt. Fólk hefur misst trúna á að spara. En ég vil leggja á það áherslu að þjóðfélagið sjálft á að haga sér þannig, minnka sína fjárþörf, minnka eftirspurn eftir útgjaldapeningum, og framkvæmdafé þá líka með því að reyna að gera ísl. kr. eitthvað verðmeiri, ekki að auka krónufjöldann í eigu einstaklinga. Það hefur ekkert að segja, en það á að auka verðgildi krónunnar þannig að fólkið fái meira fyrir hana og áhugi aukist hjá því sama fólki til þess að leggja fé sitt í sparisjóði og auka þar með útlánsfé og vinnupeninga innlánastofnana eins og bankanna.

Það kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds áðan að ríkið ætti að taka sem mest lán og græða á verðbólgunni. Þetta var fróðlegt að heyra úr því horninu. Þetta átti að vera rétt og gott þegar ríkið á í hlut, en þegar einstaklingurinn fer að reyna að bjarga verðgildi fjármuna sinna á sama hátt og forustumenn þjóðarinnar í peningamálum, þá er það kölluð spákaupmennska og allt gert til þess að reyna að koma í veg fyrir það. Ég held að á þessu sviði ætti ríkið þá, þveröfugt við það sem hv. þm. Ragnar Arnalds hélt fram, að koma í veg fyrir þetta hjá sjálfu sér.

Ég skal ekki segja hvað það þýðir að verðtryggja og gengistryggja útlánafé fjárfestingarlánasjóðanna. Ég skal ekkert um það spá hvað það þýðir að taka peninga að láni í dag og fjárfesta á verðgildi dagsins í dag og greiða með verðgildi peninganna í framtíðinni. Við höfum það fyrir okkur á mörgum sviðum að atvinnufyrirtæki, sem eru mjög takmörkuð í álagningu, eru árum saman að borga niður sömu skuldina og skulda oftast nær meira í krónutölu frá ári til árs heldur en þau skulduðu í upphafi skuldarinnar. Ég skal ekki segja hvort það er ástæða til að tala um varnaðarorð um þá hluti. Ég er líka hræddur við dráttarvexti á opinberum gjöldum sem geta farið upp í 24% á ári. Það eru hæstu sektarvextir Seðlabanka Íslands, sem ég hef alltaf álitið vera okurvexti og að mínu mati tæplega leyfilega, að fólk skuli vera háð því að hlaupa í banka til þess að taka lán á 17–18% vöxtum til þess að greiða opinber gjöld til að forðast 24% vexti. Af hverju? Vegna þess að framkvæmdahraði eða eyðsluhraði ríkisins er meiri en innborgunarhraði frá fólkinu. Ég held að þarna vanti samræmi í innheimtu og útgjöldum og ég trúi því ekki að þetta brjóti ekki á móti réttlætiskennd fólksins. Ég held að henni sé misboðið með svona ráðstöfunum. Fólk stendur yfirleitt í skilum ef það getur og eins fljótt og það getur þó að það séu einhverjar undantekningar þar á. En það má ekki gera undantekningarnar í þessu tilfelli að einhverjum algildum reglum sem þarf að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir gegn.

Þrátt fyrir þetta tal mitt mun ég ekki gera neina till. um að þetta frv. verði fellt eða koma með sérstakar brtt. við það. Ég hef lýst skoðunum mínum á því sem liggur hér fyrir. Ég hef óskað eftir því að fá upplýsingar frá seðlabankastjóra, Jóhannesi Nordal, sem ég held að hafi átt þátt í því að móta þetta frv. Þær upplýsingar hef ég ekki fengið. En hvort sem hann hefur átt þátt í að móta frv. eða ekki, þá er hann sá maður sem ég held, — ég verð þá leiðréttur ef það er rangt, — að haldi um slagæð þjóðarinnar í peningamálum og þá kannske ekki hvað síst hvað viðvíkur skuldasöfnun út á við. Ég vitnaði í grg. frv. áðan og vil endurtaka að lokum, með leyfi hæstv. forseta, en þar stendur:

„Framkvæmdasjóður hefur tekið lán hjá Viðreisnarsjóði Evrópu og er ráðgert að það lán gangi til Norður- og Austurlandsáætlana í vegamálum í samráði við stjórn Framkvæmdasjóðs, en önnur lán af þessu tagi hafa gengið til svipaðra þarfa. Til viðbótar þessum lántökum telur ríkisstj. í mesta lagi hægt að afla 3000 millj. kr. lánsfjár erlendis á vegum ríkisins, en að þeirri lántöku meðtalinni er nú áætlað að nettóaukning erlendra skulda þjóðarbúsins á árinu muni nema rúmlega 12 þús. millj.“

Ég endurtek það að ég veit ekki, — þekki ekki kerfið það vel, — hvert ég á að snúa mér. Á ég að snúa mér til hæstv. forsrh., forseta d. eða skrifstofustjóra Alþ.? Það virðist ekki duga að óska eftir því á nefndarfundum að skriflegt svar berist frá seðlabankastjóra Jóhannesi Nordal.