25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3300 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

20. mál, upplýsingaskylda stjórnvalda

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég get eftir atvikum fellt mig við þá niðurstöðu sem hv. n. leggur til. að þessu frv. sé vísað til ríkisstj. til nánari skoðunar. Þetta er mál sem er þess eðlis að það er auðvitað seint of vel skoðað áður en reglur eru um það settar, og sjálfsagt má með lengri athugun og vandlegri meðferð á því gera það eitthvað betur úr garði en tekist hefur með þetta frv. Þegar löggjöf hefur verið sett um þetta efni á Norðurlöndunum hefur sá háttur verið hafður á, eins og ég hef greint áður frá, að þá hafði á undan farið löng athugun og n. unnið að því um nokkurn tíma og rannsóknir farið fram á þessu sviði stjórnsýslunnar sem ekki liggja fyrir hér hjá okkur. En ástæðan til þess að þetta frv. var lagt fram svo fljótt sem raun ber vitni um og samningu þess var hraðað svo sem kostur er var sú, að í þeirri þáltill., sem var ástæðan til þess að þetta frv. var samið, er beinlínis tekið fram og boðið að það skuli lagt frv. um þetta efni fyrir næsta Alþ. Í þessari þáltill., sem samþ. var á sínum tíma segir svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til laga um“ o. s. frv.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort stjórnvöld eigi að taka svona fyrirmæli frá Alþ. hátíðlega eða hvort þau eigi að virða þau að vettugi og láta það dragast að sinna því verkefni sem þeim er falið. En það er a. m. k. af þessu hægt að draga þann lærdóm að það er varlegra fyrir hæstv. Alþ. að leggja ekki allt of ríka kvöð á stjórnvöldin um að gera það, sem Alþ. er að fara fram á, fyrir næsta Alþ., heldur gefa þá ríkisstj. nægilegt svigrúm til þess að kanna það mál og undirbúa löggjöf um það.

En þó að ég geti fallist eftir atvikum, eins og ég sagði, á niðurstöðu þá sem n. hefur komist að, þá þykir mér rétt að fara um þetta mál fáeinum orðum áður en það er kvatt hér í d., og ástæðan til þess er sú að ég tel að umr. um þetta mál á Alþ. og þá miklu frekar utan þings hafi gætt mikils misskilnings. Hin ástæðan er sú að ég get ekki að öllu leyti verið ásáttur um þær ábendingar sem fram koma í nál. og þau rök sem niðurstaða þess er byggð á.

Viðvíkjandi fyrra atriðinu virðist mér það hafa komið fram einkanlega utan þings, einkanlega hjá ákveðnum blaðamönnum, að þeir standi í þeirri meiningu að þetta frv. sé samið fyrir og vegna blaðamanna. Það kvað meira að segja svo rammt að því að í einum útvarpsþætti, sem fram fór um þetta mál, lét einhver sér þau orð um munn fara að það væri nánast hneyksli að þetta frv. hefði verið samið án þess að hefði verið leitað til blaðamanna áður. En þetta frv. er ekki fyrst og fremst samið vegna blaðamanna eða fréttamanna. Þetta frv. er ekki um neina fréttaþjónustu. Það er ekki um neina fréttamiðlun og hefur aldrei átt að vera það. Þetta frv. er fyrst og fremst liður í kerfi sem er um tiltekin réttarúrræði. Þetta á að tryggja rétt einstaklingsins, veita honum möguleika á því að fá upplýsingar um þau mál fyrst og fremst sem hann snerta, en líka er gengið lengra hér þannig að einstaklingur, hver sem er, getur fengið vitneskju um skjöl, enda þótt þau varði ekki hann sjálfan. En það hefur aldrei verið meiningin og hefur aldrei verið ætlunin að þetta væri sérstaklega sniðið fyrir blaðamenn eða fréttamenn og þess vegna engin ástæða út af fyrir sig að frv. um þetta efni mætti ekki semja og ætti ekki að semja án þess að þeir hefðu einir eitthvað um það að segja. Þetta frv. er, eins og ég sagði, fyrst og fremst til þess að tryggja rétt einstaklingsins, til að tryggja rétt einstaklingsins í þjóðfélagi þar sem hið opinbera gerist æ umfangsmeira og hann fjarlægist og á erfiðara en áður að fylgjast með í kerfinu. Og það er, eins og ég sagði, einn hlekkur í keðju sem þarf að vera fyrir hendi og þykir sjálfsagt að sé fyrir hendi í réttarþjóðfélögum. Þar á meðal er embætti umboðsmanns Alþ. sem þykir sjálfsagt og frv. var lagt fram á sínum tíma af mér sem forsrh. Það er líka liður í þeirri keðju að málskot til æðra stjórnvalds geti átt sér stað. Þetta eru mjög þýðingarmikil réttarúrræði fyrir einstaklinginn, að eiga þess kost að kynna sér skjöl, ekki síst ef málið varðar hann sjálfan. Og í því sambandi er ákaflega erfitt oft að segja til um það hvað er stórt og hvað er smátt. Það, sem getur verið smátt í augum fjöldans, augum þjóðarinnar, getur verið stórt í augum þess einstaklings sem málið varðar. Þess vegna getur verið erfitt að vega og meta það og sniða reglurnar eftir því hve miklir hagsmunir út af fyrir sig eru í húfi ef með því er átt við það að það séu almannahagsmunir sem þar eigi fyrst og fremst að ráða.

Þennan leiða misskilning viðist mér ástæða til að leiðrétta og vona að menn skilji það og átti sig á því að það hefur ekki verið gengið fram hjá fréttamönnum í þessu efni og þetta frv. hefur aldrei verið sérstaklega sniðið upp á fréttaþjónustu eða fréttamiðlun. Hitt er annað mál að frv. er svo víðtækt að það veitir ekki einungis þeim einstaklingi, sem á hagsmuna að gæta í sambandi við skjal, aðgang að því, heldur öllum, og þar af leiðir að auðvitað hefur þetta líka sína þýðingu og getur skipt máli fyrir blaðamenn og fréttamenn að geta þannig átt kost á því, án þess að eiga sjálfir neinna sérstakra hagsmuna að gæta, að geta fengið aðgang að skjölum. Að því leyti til auðveldar þetta auðvitað upplýsingaöflun fyrir blöð og fjölmiðla eða getur gert það. En einmitt sums staðar hefur verið byrjað á þrengra sviði. T. d. voru dönsku lögin upphaflega sniðin með það fyrir augum að það væri bara sá einstaklingur sem málið varðaði sem gæti krafist upplýsinganna, en ekki aðrir. En þeir hafa síðar breytt sínum lögum og fært þau í víðara horf og ákveðið að hver sem væri gæti og ætti að eiga aðgang að þessum upplýsingum. Hitt er annað mál að lögin þar eru í endurskoðun og það er ekkert óeðlilegt að þar þurfi að breyta þeim eða að menn telji heppilegt að breyta þeim að fenginni reynslu. Annars er það svo að til viðbótar við dönsku lögin hafa nú verið gefnar út allítarlegar leiðbeiningar og hefði sá háttur væntanlega verið hafður á hér einnig ef orðið hefði af lagasetningu, af því að seint verða þessar reglur svo ljósar að það þurfi ekki að hafa frekari leiðbeiningar við. Þessar leiðbeiningar eru náttúrlega fyrir hendi og n. hefði getað fengið að kynna sér þær ef hún hefði óskað eftir því að sjá þær.

Ég vil óska þess að þann mikla vind, sem hefur hlaupið í einstaka blaðamenn út af þessu frv., og öll þau stóryrði, sem þeir hafa látið út úr sér um það, gæti nú lægt eftir þær upplýsingar sem hér hafa verið gefnar og það geti legið alveg ljóst fyrir hver hefur verið tilgangurinn með þessu frv. og að þeir þurfi ekki að setja sig á jafnháan hest og áður í því sambandi, að telja að hér hafi einungis verið um að ræða að semja löggjöf fyrir þá.

Í annan stað verð ég að láta í ljós það álit að ég tel að hv. allshn. hefði ekki átt að vera það ofraun að gera á þessu frv. þær breytingar sem hún taldi æskilegar og taka þá til greina þau sjónarmið sem fram höfðu komið í allmörgum umsögnum um það og flytja brtt. í þá átt ef hún vildi á þær fallast. Þarna er komið að nokkuð þýðingarmiklu art.riði sem oft ber á góma hér í þingsölum. Það hefur alloft verið haft á orði að Alþ. ætti ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir ríkisstj., frv. frá ríkisstj. ættu ekki bara að renna í gegn viðstöðulaust heldur ætti Alþ. að kanna þau, kynna sér þau og gera á þeim þær breytingar sem það teldi við eiga. Ég er þessari skoðun samþykkur. Ég álít að stjfrv. þurfi ekki að vera þannig úr garði gerð að þm. geti bara rennt þeim niður eins og rauðgraut með rjóma, heldur sé það skylda þm. að fjalla um frv. í raun og veru, leggja í það vinnu og kanna þær umsagnir sem þeim berast og breyta þá eftir atvikum frv. í þá átt sem þær segja til um. Þetta held ég að hv. allshn. hefði getað gert í þessu tilfelli.

Ég held að þær athugasemdir eða sú gagnrýni sem hefur komið fram á þessu frv. bæði innan þings og utan, hafi beinst að tveimur atriðum, að tveimur gr. í þessu frv. og ekki öðru. Það er 2. gr. sem þykir vera allt of umfangsmikil og geyma allt of margar undantekningar frá höfuðreglunni í 1. gr., og það er 12. gr. um það að ráðh. skuli hafa endanlegt úrskurðarvald þar um.

Ég lít svo á að það hefði verið auðvelt fyrir n. að breyta í báðum þessum tilvikum. Ég hef lýst því yfir að ég legg ekkert upp úr því að ráðh. hafi endanlegt úrskurðarvald um þetta. Ég er fyrir mitt leyti alveg reiðubúinn og var reiðubúinn til þess að fallast á það. Það var ákaflega einföld breyting og hefði áreiðanlega ekki verið ofvaxið getu n. að gera hana því að til þess þurfti ekki að gera nema þá breytingu eina að segja bara að 2. málsgr. 12. gr. skyldi falla niður. Þá leiddi það af almennum reglum að eftir að búið var að taka það úr frv. heyrði endanlegt úrskurðarvald um þessi efni eins og önnur undir dómstóla. Hitt er svo annað mál, að það hefði kannske verið holt fyrir n. að athuga afleiðingarnar af því að leggja úrskurðarvald um efni sem þetta undir almenna dómstóla, gera sér grein fyrir því hvernig mál ganga hjá íslenskum dómstólum og hvort það hefði verið svo heppilegt og mikið réttaröryggi í því fyrir einstakling að fá rétt til að skjóta máli sínu til dómstóla. Það er hvort tveggja, að það kostar talsvert að reka mál fyrir íslenskum dómstólum, og hitt er þó ekki minna um vert, að það tekur oft nokkuð langan tíma þangað til endanleg niðurstaða er fengin í málum hjá almennum íslenskum dómstólum. En þessi mál, sem þarna er um að tefla, eru þannig vaxin að það er einmitt meginatriðið oft og einatt að fá upplýsingarnar strax, en þurfa ekki að bíða eftir þeim. Ég er ósköp hræddur um að það geti orðið af mörgum einstaklingnum talið hafa heldur takmarkað gildi að geta átt von á því eftir svona 4 ár að fá endanlegan úrskurð Hæstaréttar um það að hann ætti heimtingu á að fá að sjá eitthvert skjal sem stjórnvöld hefðu ekki talið rétt að veita honum aðgang að. Það er engum blöðum um það að fletta að úrskurð ráðh. er hægt að fá á miklu skemmri tíma. Ég fyrir mitt leyti álít að þó að það megi mín vegna gjarnan standa í lögum sem þessum að dómstólar skuli eiga um þetta endanlegt úrskurðarvald, þá sé það mjög ópraktískt, þá sé með því í raun og veru verið að gera það úrskurðarvald haldlítið. Ég held að ef menn vilja ekki sætta sig við það að ráðh. hafi endanlegt úrskurðarvald um þetta, — og ég get vel fallist á að þá skipan megi gagnrýna, — þá þurfi að setja upp sérstakan aðila, dómstól eða nefnd eða hvað sem menn vildu kalla það, sem hefði úrskurðarvald um þetta efni og skæri úr því og skæri úr því fljótt.

En sem sagt, um þetta efni hefði ekki þurft að vera neinn ágreiningur og framgangur málsins hefði ekki á neinn hátt þurft að stranda á því. Það hefði vissulega verið auðvelt að fella þetta ákvæði niður, 2. málsgr. 12. gr. Hitt er svo annað mál sem menn segja varðandi 2. gr. Þeir segja að þar séu undantekningarnar svo margar að beri höfuðregluna í 1. gr. ofurliði. Já, undantekningarnar eru margar, þær eru 16 talsins, en ég fyrir mitt leyti held að það sé ekkert höfuðatriði hvort undantekningarnar eru settar upp í 16 liði eða eitthvað færri. Undantekningar í norsku lögunum eru t. d. 8 talsins, en ekki 16, en ég hygg að þær muni að mestu leyti svara til þeirra undantekninga sem er að finna í 2. gr., en þeim er steypt saman og vitaskuld hefði mátt fara þá leið um 2. gr. En hvers vegna eru þessar undantekningar hafðar svona sundurliðaðar þarna? Meiningin með því var og er einmitt sú að reyna að afmarka þær sem skýrast þannig að hverjum og einum megi vera ljóst hvenær hann má vænta þess að fá aðgang að skjali eða ekki. Með því að reyna að taka það svona skýrt fram, sem þó verður auðvitað aldrei tæmandi gert, þá álít ég að það sé í rauninni meira öryggi í því fyrir einstaklinginn að geta vitað það, hvenær hann á rétt á skjali eða ekki eða hvenær einhver undantekning á við. Það er miklu auðveldara heldur en ef það er talið upp í einhverjum almennum orðum hvenær skjal sé undanþegið upplýsingaskyldu. Sannleikurinn er sá að þetta mætti gera afskaplega einfalt og stytta 2. gr. og e. t. v. hefði mönnum litist þá betur á frv. Hún þyrfti ekki að vera lengri en 1. gr. Það hefði einfaldlega mátt setja hana þannig upp, að segja sem svo: Undanþegin upplýsingaskyldu samkv. 1. gr. eru skjöl er geyma efni sem samkv. lögum, hagsmunum þess opinbera eða einstaklinga eiga að fara leynt. — En með þessu væri matið í þessum efnum lagt á vald hlutaðeigandi stjórnvalds meira en góðu hófi gegnir. En n. þykir 2. gr. of umfangsmikil og undantekningarnar of margar og það er út af fyrir sig skoðun. En þá hefði að mínum dómi sú leiðbeining, sem n, lætur frá sér fara í nál., átt að vera um það hverjum af þessum undantekningum, sem upp eru taldar í 2. gr., sé ofaukið. Það er það sem hefði þurft að taka fram og það sem máli skiptir, að benda á hverjar af þessum undanþágum, sem eru taldar upp í 2. gr., megi missa sig. Það er enginn vandi að steypa þeim saman og setja þetta saman í 5 liði t. d. ef menn vilja. En hvaða atriði eru það í 2. gr., sem menn telja að undanþága frá upplýsingaskyldu þurfi ekki að koma til greina, það er það sem n. hefði átt að segja. Það er það sem hefði veitt leiðbeiningu fyrir þau stjórnvöld sem eiga nú að halda áfram að vinna að samningu þessa frv., en ekki segja bara með almennum orðum að undantekningarnar séu of margar, heldur hverjar undantekningar eigi að víkja, því að í 2. tölul. í nál. segir aðeins: „Vafasamt er að hafa í slíkri löggjöf eins ítarlega upptalningu á undanþágum og gert er í 2. gr. frv. Má nánast segja, að sá réttur, sem getið er í 1. gr., sé afturkallaður með undanþágum í 2. gr. og verði í raun mun þrengri en hann er í framkvæmd nú án löggjafar.“

Að mati n. kemur til álita að sleppa slíkri upptalningu í 2. gr., en hafa undanþágurnar almennari. Mundi nú hv. allshn. hafa gert sér grein fyrir því hvort hún væri með þessari stefnu að auka eða rýra réttaröryggi einstaklingsins? Sú stefna, sem ég fæ út úr þessari stefnuyfirlýsingu, er sú að það eigi að leggja það á vald og mat stjórnvaldsins án þess að það sé tekið fram sérstaklega hvenær undanþágan eigi að vera fyrir hendi.

Ég skal ekki fara fleiri orðum í sjálfu sér um þetta, en ég vil aðeins víkja nánar að þeim röksemdum sem n. byggir álit sitt á, en endurtek það að með góðum vilja og á grundvelli þeirra umsagna, sem fyrir liggja frá hv. allshn., hefði hún getað samið brtt. við frv. og þannig sýnt að hún var þess betur umkomin en þeir sem sömdu frv., að ganga frá því á þá lund að það hefði verið frambærilegt. En ég ætla aðeins, eins og ég sagði, að víkja að þeim röksemdum sem komu fram í nál. og ég get ekki að öllu leyti fallist á.

Þá vík ég fyrst að því sem segir í 2. lið, að þar sem sett er fram sú fullyrðing að með þessu verði upplýsingaskyldan í raun og veru þrengri en nú er í framkvæmd. Ég held að þetta fái ekki staðist. Ég held að það sé vafasamt að segja eins og hv. frsm. sagði að það hefði myndast hefð um upplýsingaskyldu hér í ýmsum tilfellum. Ég held að það hafi ekki myndast hefð um upplýsingaskyldu í þessum efnum sem hér er um að ræða, um aðgang almennings að skjölum í fórum opinberra stjórnvalda, nema þá í algjörum undantekningartilfellum og á takmörkuðu sviði. Ég veit að það er oft tíðkað og gert að ef einstaklingur sá, sem hlut á að máli, óskar eftir því að fá að sjá skjöl þau, sem mál hans varða, þá fær hann aðgang að þeim. En að það sé svo almennt að hver og einn geti gengið inn á skrifstofu stjórnarráðsins, inn á skrifstofur Reykjavíkurborgar og óskað eftir því að sjá skjöl um eitthvert efni, ég held að það þekkist ekki, sé alrangt. Hvorki einstaklingar, blaðamenn né neinir fá þann rétt. Til þess að slíkt komi til greina held ég að málið verði að varða þann einstakling sem í hlut á. Ég held þess vegna að það sé staðhæfing sem fer mjög fjarri raunveruleikanum að þetta frv., ef að lögum yrði eða hefði orðið, hefði þrengt þann rétt sem fyrir hendi er í þessu efni. Sannleikurinn er sá að það er ekki fyrir hendi neinn almennur réttur fyrir einstakling til aðgangs að skjölum hjá því opinbera, og það er það sem átti að reyna að lögfesta með þessu frv. og setja reglur um, reglur sem öllum er ljóst að verða að vera af ýmsum ástæðum háðar mikilvægum undantekningum, en geta samt sem áður gert sitt gagn og haft sína þýðingu. Þetta held ég að hljóti að hafa verið vanhugsað hjá n., að setja þetta fram, vegna þess að ég held að það standist ekki. Ég held t. d. að menn geti ekki farið almennt inn í skrifstofu útvarpsráðs og fengið upplýsingar um gang mála þar. Ég held að þeir geti ekki farið inn í skrifstofur Reykjavíkurborgar eða annarra sveitarfélaga og fengið afhent skjöl sem þar er að finna í skjalasafni. Það er alveg af og frá. Einungis ef málið varðar einstaklinginn sjálfan, þá getur stjórnvaldið — við skulum segja af góðmennsku sinni — gefið honum færi á að sjá það, en það er ekki skyldað til þess. (Gripið fram í: Í því felst venjan, í góðmennskunni.) Já góðmennskan .getur nú verið misjöfn hjá stjórnvöldum eins og öðrum, og það er ekki alltaf víst að einstaklingurinn mæti þeirri hjartahlýju sem hv. frsm. virðist ganga út frá hjá stjórnvöldum.

Varðandi 3. liðinn í nál., þá hef ég reyndar minnst á það áður, að þar sem segir: „Fram þarf að koma, að upplýsingaskyldan geti verið mismunandi með hliðsjón af því, hve veigamiklir hagsmunir eru í húfi,“ — ég hef áður minnst á að í þessu sambandi er það ákaflega vandasamt mat hvenær hagsmunir eru veigamiklir vegna þess að grunntónninn í þessu frv. er einstaklingurinn og hans réttur. Það, sem getur frá almannasjónarmiði verið ákaflega lítilvægt, það getur verið svo mikilvægt frá sjónarmiði einstaklingsins að það getur jafnvel raskað sálarfriði hans um lengri eða skemmri tíma ef hann fær ekki upplýsingar um það efni sem hann er að sækjast eftir og varðar hans mál.

Þá segir í 4. lið: „Skilgreiningar skortir á ýmsum hugtökum, svo sem hvað sé stjórnvald og hvenær sú skylda hvílir á stjórnvöldum og ríkisstofnunum að skýra óumbeðið opinberlega frá störfum og vitneskju.“

Ég get ekki fallist á að það vanti í þetta frv. skilgreiningu á því hvað sé stjórnvald. Þá skilgreiningu er að finna í 3. gr. frv. alveg skýrum stöfum, 1. málsgr. að því er varðar stjórnvald ríkisins og 2, málsgr. að því er varðar stjórnvald sveitarfélaga, þannig að það er ekki svo. Það má kannske segja að þetta sé ekki alveg réttnefni á þessu frv., að tala um upplýsingaskyldu, vegna þess að það er gert ráð fyrir því að það sé ekki um upplýsingaskyldu að eigin frumkvæði stjórnvalds að tefla. Það er rauði þráðurinn í því og alltaf er gengið út frá því að það sé einstaklingur sem eftir verði að leita, verði að leita eftir því að fá aðgang að skjali. Það er ekki í þessu frv. um það að tefla að skylda stjórnvöld til þess að skýra af eigin hvötum opinberlega frá gerðum sínum og allra síst að leggja fram skjöl sem þau hafa í sínum vörslum. Það er allt annað mál og getur auðvitað verið fullkomlega réttmætt að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau skýri opinberlega frá starfsemi sinni. Mörg stjórnvöld gera það reyndar með ítarlegum ársskýrslum. Margar stofnanir gera það með skýrslum. En auk þess mætti kannske minna á gamalt ákvæði, að vísu í lögum, þar sem einmitt er um að tefla skyldu opinberra starfsmanna til þess að gera grein fyrir þeirri starfrækslu sem þeir eiga að annast, og það er í lögum, ef ég man rétt nr. 14 frá 1932. Þar segir að opinberir embættismenn og sýslunarmenn séu skyldir til að flytja opinbera grg. einu sinni eða tvisvar á ári hverju í útvarpið um þá starfsemi sem þeir eiga að annast, og það er tilvalið fyrir hv. frsm., sem gegnir nú störfum varaform. útvarpsráðs, að athuga hvernig þessu hafi verið fylgt eftir í framkvæmd. Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að þessi skylda hvílir á þessum handhöfum hins opinbera valds, að gera þetta ókeypis. E. t. v. gæti útvarpinu orðið nokkur sparnaður að því að ganga ríkt eftir því að þessar grg. væru fluttar. Hitt er svo annað mál, hvort öllum þætti skemmtilegt á að hlýða. Ég hygg að það sé nokkuð langt síðan þessar grg. hafa verið fluttar. Eigi að síður stendur þetta ákvæði, að ég best veit, enn þá í lögum óbreytt.

Ég held annars að þótt þetta sé fullrar athygli vert, spurningin um hvenær stjórnvald eigi af sjálfsdáðum að skýra opinberlega frá, þá eigi það ekki beint heima í þessu frv. Ég held að ef menn vildu setja ákvæði um það efni fyllri en eru í lögum um birtingu laga og stjórnvaldaerinda í lögum nr. 64 frá 1943, þá eigi slík ákvæði heima sem viðauki við þau lög og ætti þá að setja upp sérstaka deild þeirra tíðinda, alveg eins og gert var á sínum tíma þegar bætt var við einni deild þar sem milliríkjasamningar eru birtir. En ég held að það eigi ekki heima í sambandi við þetta frv.

Í 5. lið segir að það sé rætt um skjöl, en ekki minnst á að hægt sé að geyma vitneskju á annan hátt, svo sem með segulböndum, myndum og tölvum. Þetta er alveg rétt, að frv. minnist ekki á annað en skjöl, og það er sjálfsagt meira en vafasamt og ég skal ekkert fullyrða um það hvort það yrði skýrt svo að þessi tæki, sem þarna eru nefnd, myndu falla undir það eða ekki, það gæti verið vafasamt. Það er vissulega athugunarefni að fella slíkt inn í og veita mönnum aðgang að því. Ég get fallist á það. En ég hugsa að það hafi ekki verið tekið með í þetta frv. af þeirri sök að það var frekar lítið farið að nota, held ég, slíkt á þeirri tíð sem þetta frv. var tekið saman. Mætti vera að mönnum hefði orðið þetta ríkara í huga á allra síðustu tímum bæði vegna útlendra og innlendra atburða. En eigi að síður getur verið ástæða til þess að taka það sjónarmið til athugunar og getur verið réttmætt að fella það inn í og láta hliðstæðar reglur gilda um það eins og gilda um skjöl.

Þá vil ég að lokum aðeins minnast á það sem sumpart kom fram í framsöguræðu hv. frsm., en sumpart hafði komið fram áður í blaðaviðtali við hann í Morgunbl. sem birtist skömmu eftir að þetta nál. sá dagsins ljós. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sagði Ellert að þetta hefði einnig verið skoðun þeirra aðila sem gefið hefðu umsagnir um frv., sem sagt að undantekningarnar væru of margar. Væri þetta meginástæðan fyrir því að n. teldi sér ekki fært að mæla með frv. Þá sagði Ellert að n. hefði fundið ýmislegt annað athugavert, t. d. þýðingar svipaðra frv. á öðru máli, en virtust of hráar, það væri ekki reynt að staðfæra þær.“

Sama hugsun kom fram hjá hv. frsm. í framsöguræðu hans áðan að mér virtist, eða ég skildi það svo að hann væri að gefa í skyn að þetta frv. væri nánast þýðing á sambærilegum lögum öðrum. Ég held að þetta séu ómakleg ummæli í garð þeirra manna sem tóku þetta frv. saman. Ég held að það megi hverjum vera ljóst ef hann ber það saman við t. d. norsku lögin eða dönsku lögin að þetta frv. er ekki nein þýðing á þeim lögum enda þótt tekið sé fram í grg. með þessu frv. að það sé einkum sniðið eftir dönskum og norskum lögum. Ég held að það liggi í augum uppi ef frv. eru borin saman að þarna er ekki um neina þýðingu að ræða. Sjálfsagt er máli á frumvörpum oft ábótavant, en ég get ekki fallist á að á þessu frv. sé neitt verra mál, verri íslenska heldur en gengur og gerist þannig að mér finnst ómaklega sagt í garð þeirra manna sem frv. hafa samið.

Það er ekki ástæða til þess að ég fari fleiri orðum um þetta þar sem örlög þessa frv. eru nú ráðin. Ég hef, eins og ég þegar hef tekið fram, fallist á að því væri vísað til ríkisstj. til nánari skoðunar. En það sem ég hef sagt hef ég þó viljað láta koma hér fram áður en málið væri afgr. með þessum hætti. Þó að ég fallist ekki á þær ábendingar sem settar eru fram í nál., þá verða þær að sjálfsögðu kannaðar. En ég held að það hefði verið æskilegt að hv. allshn. hefði kannað þetta mál öllu betur en mér virðist að hún hafi gert og byggt þar á eigin athugun, eigin dómgreind, en ekki látið um of stjórnast af þeirri golu sem vakin hefur verið upp um þetta frv. utan þingsalanna.