25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3330 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er sjálfsagt alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði hér í framsögu fyrir þessu frv. að það væri fullkomin ástæða til að reyna að minnka sjóðakerfi sjávarútvegsins eins og það er nú. Hann sagði einnig að þrátt fyrir margar og fjálglegar yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka um að stefna bæri að slíku, þá hefði sú orðið raunin að flestum ríkisstjórnum hefði orðið það á að bæta þar heldur við en að minnka, og vel má vera að þetta sé rétt. Ef ég man rétt er á það drepið í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. að það eigi að endurskoða sjóðakerfi sjávarútvegsins með það í huga að fækka sjóðum og gera það kerfi auðveldara en það nú er. Mér sýnist að það frv., sem hér er nú til umr., svipaðs eðlis og frv. sem við fengum hér til umr. einnig fyrr á þessu þingi, stefni fremur í hina gagnstæðu átt, þ. e. að það auki heldur valdsvið sjóðakerfis sjávarútvegsins heldur en dragi úr því.

Ég held að það komi engum á óvart þó að til þess sé vitnað nú við umr. um þetta mál að því hefur verið haldið fram og er haldið fram enn af forsvarsmönnum sjávarútvegsins, þ. e. a. s. útgerðarinnar, að þær gengisfellingar tvær, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir, hafi ekki verið til þess gerðar að leysa vanda útgerðarinnar í landinu. Það sé meiri spurning um það hvort gengisfellingar þessar hafi ekki orðið til þess að auka á þann vanda sem útgerðin hefur átt við að stríða og á, eftir því sem sagt er, enn við að stríða. Það var vitnað áðan í ummæli formanns Landssambands ísl. útvegsmanna, Kristjáns Ragnarssonar, þessu til staðfestingar, og ég er þeirrar skoðunar að þessar gengisfellingar hafi fremur orðið til að auka þennan vanda heldur en að auðvelda hann. Mér sýnist að úr því frv., sem hér er til umr., hafi kannske verið dregnar skæðustu vígtennurnar miðað við það sem uppi munu hafa verið hugmyndir um í upphafi hjá hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkum. Á ég þar við það sem að sjómannastéttinni kemur til með að snúa. Það virðist hafa tekið alllangan tíma fyrir stjórnarflokkana að koma sér niður á sameiginlegan grundvöll sem þeir gætu staðið að að því er varðaði skiptingu þess fjármagns sem hér er um að ræða, og því er þetta frv. mjög seint á ferðinni og raunar miklu seinna en eðlilegt verður að teljast.

Það má kannske segja að það sé þrennt í þessu frv. sem mér finnst ástæða til þess að fara hér um nokkrum orðum. Það er ljóst að hér er um að ræða skiptingu á fjármunum sem komið hafa til vegna gengisfellingarinnar sem gerð var í febr. s. l., gengisfellingar sem rýrði kjör sjómanna allverulega, og það verður því að teljast eðlilegt að við skiptingu á þessum fjármunum sé a. m. k. tekið verulegt tillit til sjómannasamtakanna í landinu. Mér virðist að það hafi verið heldur lítið tillit tekið til þessara sjónarmiða þegar frá þessari skiptingu var gengið því að af þessum rúmlega 1640 millj. er aðeins gert ráð fyrir að sjómannasamtökin fái um 87 millj. Mér finnst því að það sé full ástæða til þess að vekja athygli þeirrar hv. n., sem málið fær til meðferðar, á því — og það hefur komið fram fyrr í umr. — að full ástæða sé til þess að sjómannasamtökunum í landinu verði meiri gaumur gefinn og að þau fái stærri hlut af þessum fjármunum en þetta frv. gerir ráð fyrir.

Í öðru lagi: Í sambandi við hækkun á útflutningsgjöldum er það raunar ljóst að með slíkri hækkun er a. m. k. verið að minnka þá möguleika sem kynnu að vera fyrir hendi til hækkunar á fiskverði til sjómanna. Ég held að öllum megi ljóst vera að full ástæða sé til þess að gefa því atriði gaum að fiskverðshækkun hlýtur fyrr en seinna að verða að koma því að tiltölulega lítil hækkun á fiskverði hefur átt sér stað miðað við hækkanir á öðrum sviðum sem orðið hafa í landinu á undanförnum mánuðum. Með slíkri hækkun á útflutningsgjöldum eru að mínu áliti minnkaðar verulega líkur á því að unnt verði að ná fram fiskverðshækkun til handa sjómönnum.

Og svo er í þriðja lagi ráðstöfun þessara margumtöluðu 400 millj. kr. Þó að ég treysti núv. hæstv. sjútvrh. kannske öðrum fremur til þess að gæta réttlætis í meðferð slíkra útdeilinga á fjármunum, þá finnst mér of mikil rausn af hálfu Alþ., að láta einum ráðh. í té 800 millj. til útdeilingar á 7–8 mánaða fresti. Það er sagt að það þurfi sterk bein til að þola góða daga, og mér finnst því að það sé um of stórtækt hjá hæstv. sjútvrh. að ætlast til þess að Alþ. veiti slíka heimild til ráðstöfunar á jafnmiklum fjármunum og hér er um að ræða án þess að nokkrar skorður eða reglur séu settar fram af hálfu Alþ. með hverjum hætti eigi með þessa fjármuni að fara.

Það var fyrst og fremst þetta þrennt sem ég vildi við 1. umr. þessa máls koma hér á framfæri. Eins og fram hefur komið hjá sumum ræðumanna áður eru nokkur atriði í þessu frv. sem ég á ekki von á öðru en að menn almennt séu sammála um. Það eru þessi þrjú atriði sem ég tel fyrst og fremst að þurfi að gefa frekari gaum við skoðun í n., og ég tel að sjómannasamtökin í landinu hljóti að eiga á því heimtingu, að þeim verði skilað stærri hlut af þessum gengishagnaði sem tekinn hefur verið af þeim með kjaraskerðingu. Nú fær n. málið til meðferðar og í þeirri n. eiga sæti framámenn í sjómannasamtökunum í landinu. Því verður að treysta því að þeir opni þennan möguleika til hagsbóta fyrir sjómannasamtökin til þess að endurheimta stærri hlut af því sem af þeim hefur verið tekið með ráðstöfunum núv. hæstv. ríkisstj. Og a. m. k. þar til annað sýnir sig treysti ég því að þessir einstaklingar, sem standa föstum fótum í sjómannasamtökunum, verði skeleggir málsvarar þeirra innan vébanda sjútvn. þessarar hv. d. sem málið fær til meðferðar. Mér finnst að hæstv. sjútvrh. mætti vel við una þó að hann fengi ekki annan 400 millj. kr. skammt til eigin ráðstöfunar við afgreiðslu þessa máls. Mér finnst einnig að það sé a. m. k. ástæða til þess að þingheimur fái um það vitneskju með hverjum hætti hinum skammtinum, fyrri 400 millj., hefur verið úthlutað. Ég er ekki á neinn hátt að sveigja að núv. hæstv. ráðh. þess efnis að hann hafi ekki gætt þar um réttlætis, en ég tel að þegar um svo mikla fjármuni er að ræða sé eðlilegt að a. m. k. Alþ. hafi um það vitneskju með hverjum hætti slíkum fjármunum er ráðstafað, og þar um á einu að gilda hvaða einstaklingur það er sem fer með embætti sjútvrh.

Það var fyrst og fremst þetta sem ég vildi vekja máls á við þessa umr. Væntanlega gefst frekara tækifæri til þess að fjalla um aðra þætti málsins eftir að n. hefur um það fjallað og það kemur til 2. umr.