25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3332 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á ræður hv. þriggja þm., stjórnarandstæðinga. Ég skal játa það í hreinskilni að ég bjóst ekki við sérstaklega miklu í þessum ræðum þeirra, en þó bjóst ég við heldur meiri þekkingu en raun bar vitni og þó sérstaklega hjá hv. 8. landsk. þm. Allir hafa þeir talað um það hvað sjútvrh. hafi fengið óskaplega stóra upphæð til eigin ráðstöfunar eða ráðstöfunar að eigin geðþótta. Ég skal hugga þá alla í einu lagi, þessa ágætu hugsjónabræður, með því að ég hef ekki ráðstafað einni krónu og ætla ekki að gera. Það, sem hér er um að ræða og ég kom inn á í minni frumræðu, er að það fer fram núna „konvertering“ lána í sjávarútvegi sem var boðuð á s. l. hausti og hún fer fram í bankakerfinu. Það eru samstarfsnefndir Seðlabanka og tveggja höfuðviðskiptabanka sjávarútvegsins sem ráðstafa þessum lánum. Sjútvrn. á einn mann í þessari n. sem er nokkurs konar áheyrnarfulltrúi og fylgist með af hálfu rn. Varðandi þessar 400 millj. sem um var að ræða í vetur, þá er ákveðið að leggja fram 600 millj. kr. til þess að bæta að hluta eigendum fiskiskipa sem urðu þá fyrir gengistapi. Vegna þess að það er ástæðulaust að greiða inn í stofnfjársjóðinn um leið og þetta fjármagn verður til að öllu leyti, þá töldum við rétt að fá þá heimild í vetur að það mætti lána til 2–3 ára 400 millj. kr. í þessa „konverteringu“ lána sem að er unnið. Það stóð á því nokkurn tíma á hvern hátt ætti að ráðstafa þessum 400 millj. og það var vegna þess að ég vildi ekki ráðstafa þessum 400 millj. nema bankarnir tækju algerlega á sínar herðar að ráðstafa þessum peningum, lána þá út og tryggja endurgreiðslu á þessu tímabili. Hér er um fjármagn að ræða sem má segja að sé tekið traustataki í skamman tíma. Og þar við situr. Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa tekið að sér að tryggja endurgreiðslu á því fé sem þeir lána í þessu augnamiði.

Sama heimild er nú og það er ekkert víst að þessi heimild verði notuð að öllu leyti. Það fer alveg eftir mati bankanna hvort þeir lána þeim fyrirtækjum þessa fjármuni sem þeir lána ekki öðrum en þeim sem geta tryggt það að þetta fjármagn komi aftur á þessu tímabili.

Það er því um algjöran misskilning að ræða hjá hv. ræðumönnum að ég standi í því að ráðsmennskast með þessi lán. Það hefur aldrei hvarflað að mér að taka slíka ábyrgð á mig að lána 400 millj., hvað þá heldur 800 millj., til Péturs og Páls og taka þá ábyrgð að þetta fé kannske vanti þegar á að greiða það eftir 2–3 ár. Nei, ég skal segja hv. þm. það að ég er miklu hyggnari maður en það að ég taki slíka ábyrgð á mig. Og það er algjör misskilningur hjá hv. 8. landsk. þm. að það sé fyrst og fremst verið að lána fjármuni til vafasamra fyrirtækja. Það er fyrst og fremst verið að koma mörgum ágætum fyrirtækjum á miklu fastari grunn en áður var, — fyrirtækjum sem eiga miklar eignir, en eiga í erfiðleikum hvað snertir lausafjárstöðu. Og þetta starf hefur átt sér stað núna að undanförnu og það er, eins og ég sagði áðan, búið að lána þegar 1005 millj. kr. og vanskilaskuldir við stofnfjársjóðina nema um 95 millj. kr. þannig að það er búið að lána fyrirtækjum 1100 millj. um miðjan þennan mánuð og þetta heldur áfram. Það er ekki nálægt því hálfnuð þessi „konvertering“ í sjávarútvegi. Þetta eru lán til 84 aðila sem ég hef ekki séð skrá yfir. Ég veit um örfáa aðila, sem hafa fengið afgreiðslu, en ekki heildina. En þannig er það og þetta heldur áfram með þessum hætti.

Þetta sýnir hvernig sjávarútvegurinn stóð á s. 1. hausti. Lausaskuldirnar í sjávarútvegi og vanskil við stofnlánasjóðina voru gífurleg. Ég tala nú ekki um öll vanskilin við þjónustufyrirtækin, við iðnaðarfyrirtækin, sem vorn mörg komin að því að stöðvast og' úr þessu er verið að bæta með þessum hætti. Ég endurtek það að ég hvorki get né vil koma nálægt því að úthluta þessu fé eða breyta lausaskuldum útgerðaraðila í fast lán. Það verða þær stofnanir að gera sem með þessi mál fara. Hins vegar skal ég segja hv. þdm. að það var töluvert vandamál hvernig á þessu skyldi tekið, því að nú er það í raun og veru Seðlabankinn sem kaupir af viðskiptabönkunum skuldabréf sjávarútvegsins til þess að létta á stöðu viðskiptabankanna við Seðlabankann. Og það var lengi erfitt að komast að niðurstöðum hvernig þetta átti að vera í framkvæmd. Að lokum sömdu þessir aðilar um það sín á milli, viðskiptabankarnir og Seðlabankinn, að þetta yrði afgr. í gegnum Fiskveiðasjóð, sem sagt, Fiskveiðasjóður verður notaður til þess að lána, en Seðlabankinn auðvitað endurkaupir þessi lán þannig að hann einn fer að lokum með þau.

Hv. ræðumenn hafa talað mikið um að sjómenn fái ekkert út úr þessum ráðstöfunum. Ég vil minna á það að tveir af þessum ræðumönnum voru stuðningsmenn fyrrv. ríkisstj. og þegar fiskverð var ákveðið frá 1. jan. 1974 var ósamið við alla aðra launþegahópa í landinu og það var gert nokkru síðar eða í febr. Það hafði í för með sér stórfellda hækkun til allra annarra í launum og stórfellda hækkun á flestum nauðsynjun. En þrátt fyrir það sá fyrrv. stjórn eða stuðningsflokkar hennar enga ástæðu til þess að hækka fiskverðið, hvorki til útgerðar né sjómanna. Það varð svo geigvænleg hækkun eftir kjarasamningana í febr. 1974 að það er talið að viðhald skipa hafi hækkað um 50–51% frá áramótum til aprílloka. Þetta segir a. m. k. nokkra sögu hvað snertir rekstrarafkomu útvegsins að fá slíka holskeflu yfir sig og enga hækkun á fiskverði. Að lokinni vertíð 1974 kemur verðstöðvun og er ákveðið að fiskverðið verði óbreytt þrátt fyrir allar þessar hækkanir og þessa miklu holskeflu. Og fiskverðið stóð óbreytt alveg fram til 1. sept. að það hækkaði um 11% eftir að núv. ríkisstj. tók við. Þetta er nú sannleikur málsins.

Ég er ekkert að fara út í það eða gagnrýna frekar af hverju þetta var gert, af hverju var ekkert komið til móts við útgerðina í 8 mánuði á s. l. ári. En það er staðreynd og það sýnir rekstrarstaða og efnahagsstaða sjávarútvegsins að árið 1974 var hörmulegt ár í rekstri í flestum greinum sjávarútvegs, sérstaklega hvað útgerð snertir og hluta af vinnslunni. Hins vegar var afkoman mjög góð í saltfiskinum.

Mér þætti gaman að spyrja hv. síðasta ræðumann að því, — það var framkvæmd gengislækkun á árinu 1972 af fyrrv. ríkisstj. og þá studdi flokkur þessa hv. þm. þá stjórn heill og óskiptur: Hvað fengu sjómannasamtökin mikið af gengishagnaðinum þá, 1972? Það væri fróðlegt ef þm. vildi nú segja þingbræðrum sínum og systrum frá því hvað sjómannasamtökin hafi fengið af þessum gengishagnaði. Sannleikur málsins er sá, að 1972 var engum gengishagnaði skipt. Þá sagði enginn neitt. Það er bara lán og var til ráðstöfunar uppi í sjútvn. Það fylgdi frv. um ráðstöfun gengishagnaðar og þá var þetta allt í besta lagi hjá þessum hv. fyrrv. stjórnarþm.

Hv. 8. landsk. þm. talar mjög mikið um gengisbreytingarnar, gengisfellingarnar. Ég vil nú minna á það að þegar stjórnmálaflokkarnir voru að ræða saman á s. l. sumri mótmælti ekki einn einasti þeirra því, að ef hann færi í ríkisstj. væri ekkert annað fram undan en að lækka gengi krónunnar. Alþfl. var engin undantekning þar.

Í sambandi við sjóðakerfið, — ég vil minna þennan þm. á, hann er nú svo ungur að árum og nýbyrjaður hér, en hann hefur nú verið að kynna sér mjög stjórnmálasögu og þá sérstaklega sögu flokks síns og flokkurinn er núna í endurhæfingu að því er hann segir sjálfur eða framámenn hans, — en ég vildi aðeins minna á það að Alþfl. fór með sjávarútvegsmál öll árin sem viðreisnarstjórnin sat. Þá var gerð gengisbreyting 1967 og önnur gengisbreyting 1968. Það voru gerðar ráðstafanir í sjávarútvegi bæði þessi ár. 1967 var talið að gengisbreyting mundi duga. Hún dugði ekki. Það varð verðfall samhliða stórkostlegri hækkun á tilkostnaði. Það varð að grípa aftur til gengisbreytingar 1968 og hún var ekki skorin við nögl, eins og við munum. Og hvað var gert? Fengu sjómennirnir hækkun á fiskverðinu eins og gengisbreytingin gaf möguleika á? Nei, alls ekki. Útgerðin fékk 17% ofan á fiskverðið án skipta. Það var engin sjálfstæðisráðh. þá í embætti sjútvrh. Það var meira að segja enn verandi þm. Alþfl. Hann gerði þetta ekki af fjandskap við sjómannastéttina, — alls ekki. Hann gerði þetta og þáv. ríkisstj. vegna þess, að gengisbreyting er ekki gerð fyrir sjávarútveginn eða fyrir útgerðina. Hún er gerð vegna þess að þegar verðgildi krónunnar er fallið, þá hefur að lokum verið játað staðreyndum og genginu breytt. Og vitaskuld njóta útflutningsgreinarnar fyrst og fremst hinna góðu áhrifa gengisbreytingar hverju sinni. Þá var tekið upp 17% gjald sem sjómenn mótmæltu, og það var gert vegna þess að ef hin góðu áhrif gengisbreytingarinnar hefðu komið inn í verðlagið í hækkuðu fiskverði til útgerðar og sjómanna, þá hefði það hleypt af stað kaupskriðuöldu hjá öllu öðru launafólki í landinu þannig að gengisbreytingin 1968 hefði á nokkrum vikum runnið út í sandinn. Þetta var á bak við þessa ráðstöfun þáv. sjútvrh. sem var úr Alþfl. Sama er nú um að ræða.

Við verðum að taka mið af því hvað eru laun annarra þegna þjóðfélagsins, hvernig ástandið er í þjóðfélaginu, hvað við getum gengið langt hverju sinni. Ég held að það sé ekki hægt að saka núv. ríkisstj. um það að hún hafi ekki reynt að sýna eins mikla sanngirni og mögulegt hefur verið að gera við erfiðar aðstæður eins og við búum við í okkar þjóðfélagi. Það þýðir ekki, hvorki fyrir stjórnarsinna né stjórnarandstæðinga, að neita því að við búum við afar erfiðar aðstæður núna. Á sama tíma og þjóðir, sem við eigum margvísleg viðskipti og samskipti við, miklu ríkari þjóðir en við, verða að draga saman verulega, þar hefur verið atvinnuleysi nú að undanförnu, þá hefur þessari ríkisstj. tekist það, sem er mikilvægast af öllu, með þessum ráðstöfunum sínum, að hún hefur komist hjá því að hér bryddaði á atvinnuleysi. Og það er mikið afrek út af fyrir sig á sama tíma og atvinnuleysið er orðið allt upp í 10% í V.-Þýskalandi, einhverju auðugasta landi í veröldinni, í Bandaríkjunum, ég tala nú ekki um í Danmörku og víðar. Þetta held ég að megi líka líta á og hafa í huga. Það er ekki hægt að vera alltaf á uppboði með alla hluti. Og ég skal segja hv. 6. þm. Vestf. það að ef það hefðu verið 150 millj. í lífeyrissjóð sjómanna, þá hefði hann flutt nákvæmlega sömu ræðuna um það að sjómenn þyrftu að fá enn meira því að það er bara uppboð. Þm. er alltaf á uppboði. Það er það sem er. (Gripið fram í.) Nei, það gengur ekki. Þetta er bara misskilningur hjá honum. Hann þarf að fara að hætta þessu. Þetta gengur alls ekki á Vestfjörðum, síst af öllu þar.

Um eitt urðu þeir sammála, 8. landsk. þm. og Magnús Kjartansson og voru fljótir að reikna báðir. Magnús greip fram í fyrir honum og sagði að þetta frv. væri búið að vera í fjóra mánuði í undirbúningi. Gengisbreytingin átti sér ekki stað fyrr en um miðjan febrúar, og ég hefði nú alls ekki treyst mér til að ákveða ráðstöfun gengishagnaðar um áramótin eftir gengishreytingu sem ekki var vitað að yrði farið í og ekki var framkvæmd fyrr en um miðjan febr. En þeir skoðanabræður, Sighvatur Björgvinsson og Magnús Kjartansson, fundu út að frv. væri búið að vera 4 mánuði í meðförum. Það kom hér fram, held ég, 19. eða 20. apríl. En þannig eru nú margir útreikningar þessara herra og þess vegna tekur maður þá ekki allt of alvarlega.

8. landsk. þm. kom inn á það, að hann segir að í aths. við frv. sé gert ráð fyrir tekjuauka Olíusjóðs skv. ákvæðum þessarar gr. sem muni nema um 1450 millj. kr. Ég kom inn á það í framsöguræðu minni að gengið er út frá að fobverðmæti sjávarafurða nemi 33 milljörðum og 750 millj. kr. á ári. Hráefnishlutfallið af þessum stofni er talið vera 45%, eða um 27% af hlut útgerðar og 18% af hlut sjómanna. Ef við hefðum tekið 11% gjöld af fiskverðinu hefði hlutdeild sjómannsins verið miklu hærri. En við fórum inn á þá braut að leggja til að taka útflutningsgjaldið á síðasta stigi þannig að hlutdeild sjómannsins minnkar mjög verulega við það að hverfa frá að taka 11% af fiskverðinu. En dæmið lítur ekki eins illa út og menn halda í sambandi við fiskvinnsluna vegna þess að við tökum um 400 millj. úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins til þess að bæta hraðfrystíiðnaðinum þá hækkun sem hann verður að þola af þessari hækkun útflutningsgjaldsins. Ég held að það megi því segja að hér sé ekki um risavaxinn skatt að ræða. Og það er alveg rétt hjá hv. 8. landsk. þm. að hér er ekki verið að færa sjávarútveginum neitt. Hér er aðeins verið að færa á milli hinna ýmsu greina í sjávarútvegi.

Ég held að það hafi verið hv. 6. þm. Sunnl. sem taldi að það hefði átt að afla fjár til Olíusjóðs eða til þess að bæta stöðu útgerðarinnar með því að leggja skatt á alla landsmenn, sem þeir tækju þátt í. Út af fyrir sig er það ekkert fjarri sanni að slíkt væri gert. En mér hefur skilist á æðimörgum að það sé nú ekki á bætandi að auka skattabyrðina á almenningi í landinu.

Nú á að lækka beinu skattana. Það er ákveðinn vilji ASÍ að fara inn á þá braut. Þá er ekki nema um eitt að ræða, það er að hækka söluskattinn til þess að standa undir þessu. Vilja hv. stjórnarandstæðingar heldur fara inn á þá braut að leggja á söluskatt til þess að greiða niður olíu fyrir útgerðina? Ef þeir vilja það, finnst mér rétt að þeir láti frá sér heyra í þeirri n. sem fær málið til meðferðar.

Ég vil benda á það að öflun fjár til Olíusjóðsins hefst ekki við áramót. Hún hefst ekki fyrr en þetta frv. er orðið að lögum. En skuldbindingarnar gagnvart útgerðinni ná allt til 11. jan., að fyrri olíuhækkunin á sér stað, og Olíusjóðurinn verður að greiða niður báðar þessar hækkanir. Það er tæpur milljarður sem hér er um að ræða, og tekjurnar af olíugjaldinu verða aldrei hærri en þessi útgjöld, það er alveg sjáanlegt. Við getum hiklaust dregið frá heildarútflutningnum um 5 milljarða vegna lýsis- og mjölframleiðslu sem engar tekjur koma af og ekki fyrr en 1. okt. Og þá er auðvitað ekki um neina verulega upphæð að ræða því að loðnuveiði hefst ekki aftur fyrr en á næsta ári svo að þetta er óverulegt gjald. Það má segja að það geti verið að sumu leyti eðlilegt að þetta gjald gæti komið á eftir nánari ákvörðun rn., eins og hv. 8. landsk. þm. ræddi um. En ég held að það sé ekkert áhorfsmál að það sé réttara að hafa þessa ákvörðun í hendi Alþ., og það er tekið mið af því. Hins vegar vitum við ekkert hvað verður verð á mjölafurðum 1. okt. Við vitum heldur ekkert hvernig saltfiskur eða frystur fiskur stendur þá. Við bara reiknum með og ákvörðum í þessu frv. Ef breytingar verða örar verður að finna nýjar leiðir og breyta. Það vitum við ekki um í dag. Þetta er áætlun sem við byggjum á þetta ár, og það er síst af öllu verið að taka meira fé í Olíusjóðinn en hann þarf að greiða út. Þar við bætist að frá áramótum hefur farið úr landi mikið af afurðum sem búið er að skila gjaldeyri fyrir og kemur ekki til greina að útflutningsgjaldið geti verkað aftur fyrir sig. Það tapast á þessu tímabili þannig að það þarf enginn að óttast að tekjur af þessu gjaldi til Olíusjóðsins fari yfir það sem gert er ráð fyrir að útgjöldin muni nema.

Ég vil svo að síðustu taka það fram í sambandi við þessa heimild um 400 millj. fjárframlag sem er áætlað til að greiða niður erlend lán og gengistryggð lán að það hvarflar ekki að mér að nota þá heimild nema fyrir viðskiptabankana þannig að það séu þeir sem láni það fé og þeir einir og þeir verði jafnframt að ábyrgjast endurgreiðslu á þessu fjármagni til baka. Ég held að það sé engin hætta á því að ég fari út í neinar slíkar lánveitingar og hefur aldrei hvarflað að mér að gera það því að þessa hluti er ekki hægt að leysa nema í nánu samstarfi og samvinnu við bankakerfið. Ef bankarnir treysta ekki sínum viðskiptamönnum til þess að greiða þetta fjármagn á þessum skamma tíma, þá verður þetta fjármagn ekki látið til fyrirtækjanna.

Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. En hitt er ljóst að það er erfitt eins og fyrri daginn að sætta sjónarmið í sjávarútveginum í þessum efnum. Það vill hver líta á sína hagsmuni frá sínu þrengsta sjónarhorni. Hvað snertir leiðarann, sem 8. landsk. þm. las úr Vísi, held ég að það sé þægilegt að skrifa svona leiðara og það er ákaflega mikilsvert atriði fyrir Vísi að fá ritstjóra Alþýðublaðsins til þess að lesa upp leiðara sína hér á Alþ. Þeir kannske geta þá skipst á ef þeir skrifa á sama hátt jafnskynsamlega um landbúnaðarmálin og þeir hafa löngum gert. Og þeir ætla nú að fara að bæta því við að skrifa og tala af svipaðri skynsemi um sjávarútvegsmál.