26.04.1975
Neðri deild: 74. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3340 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. meiri hl. (Ólafur G. Einarsson) :

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir 13 breyt. sem samþ. voru við 3. umr. í hv. Ed. á frv. til d. um ráðstafanir í efnahagsmálum o. fl., en vegna þess þarf frv. að koma aftur :til einnar umr. í þessari hv. deild.

Tvær af þessum till. voru fluttar af fjh.- og viðskn. Ed. en ein af hv. þm. Geir Gunnarssyni. Allar voru þessar till. samþ. samhljóða í Ed.

Í fyrsta lagi er sú breyt. að á eftir 20. gr. komi ný gr. sem verði 21. og er svo hljóðandi: „Fjmrn. er heimilt að fella niður tolla af þeim lyfjum, er falla undir tollskrárnúmer 30.01.00 og 30.02.00. og af þeim sérlyfjum, sem skráð eru á sérlyfjaskrá, og af þeim óskráðum sérlyfjum sem til landsins eru flutt með heimild heilbrigðisyfirvalda skv. 3. málsgr. 64. gr. l. nr. 30/1963, er falla undir tollskrárnúmer 30.03.09.“

Þarna er um að ræða ýmis efni úr dýraríkinu, framleidd til að lækna eða koma í veg fyrir sjúkdóma, eins og segir í tollskránni. Það er einnig um að ræða bóluefni og lyf til dýralækninga.

Í öðru lagi er breyt. á 34. gr. sem verður 35. gr. og er um innheimtu kirkjugarðsgjalda. Greinin er svo hljóðandi:

„Eindagi kirkjugarðsgjalda er hinn sami sem á útsvörum. Stjórnir kirkjugarða geta falið ríkissjóði innheimtu kirkjugarðsgjalda. Í hreppsfélögum geta stjórnir kirkjugarðanna þó falið sveitarsjóðum innheimtuna. Innheimtulaun skulu vera 6% af innheimtu fé. Stjórnum kirkjugarðanna er heimilt að hafa innheimtuna í eigin höndum gegn sömu þóknun: “

Breytingin er þess eðlis að raunverulega má innheimta kirkjugarðsgjöldin með sama hætti og verið hefur, en innheimtulaunin gangi til ríkissjóðs eða þess sem ríkissjóður felur innheimtuna. Er þá að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að ef ríkissjóði er falin innheimtan, þá muni það vera innheimtumenn ríkissjóðs sem hana annist eins og hingað til. Í vændum mun vera breyt. á þeirri löggjöf sem fjallar um þóknun til innheimtumanna ríkissjóðs.

Þá er í þriðja lagi brtt., sem samþ. var samhljóða í Ed., frá Geir Gunnarssyni, en hún er við ákvæði til bráðabirgða, verður d-liður þar, og er svo hljóðandi:

„Fyrir árslok 1975 skal fjmrh. láta fara fram sem nákvæmasta könnun á framfærslukostnaði barna, þ. á m. hvernig honum er háttað eftir mismunandi aldri og fjölda barna í fjölskyldu, svo að hafa megi niðurstöður könnunarinnar til hliðsjónar við álagningu skatta og ákvörðun tryggingabóta, sem greiddar eru vegna barna. Skýrsla um könnunina skal lögð fyrir Alþ.“

Ég hef þá gert grein fyrir þessum breyt.