26.04.1975
Neðri deild: 74. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3342 í B-deild Alþingistíðinda. (2442)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Að mínum dómi er ákaflega mörgu í þinglegri meðferð þessa máls ábótavant og e. t. v. aðfinnsluvert. Ég tel að málið hafi ekki fengið nægilega athugun hér í þinginu og mörgum spurningum um mikilvæga þætti þess er enn ekki fullsvarað. Að mínum dómi hefði Alþ. átt að geyma afgreiðslu þessa máls til haustþings, en fela sérstakri þingmannanefnd að kanna betur málsástæður milli þinga. Þrátt fyrir þessa skoðun mína þýðir hún ekki að ég sé fyrir fram andvígur stóriðjurekstri af þessu tagi, en ég er ekki á þessari stundu við því búinn að taka endanlega afstöðu til þessa máls og hef tekið þá ákvörðun að greiða ekki atkv. nú.