26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ræða mín við 2. umr. þessa máls gaf hv. 3. þm. Reykv. tilefni til ýmislegra heimspekilegra bollalegginga. Hann, hv. þm., talaði um efnahagslegt fullveldi í sambandi við meirihlutaeign íslenska ríkisins í járnblendiverksmiðjunni. Um það vil ég leyfa mér að segja: Það eflir ekki efnahagslegt fullveldi þegar slíkir bögglar fylgja skammrifi eins og búast má við samkv. þessu frv. og enginn veit hve stórir verða. Samningurinn, sem stendur á bak við eignaraðild þessa fyrirtækis og fjármögnun þess, byggist því miður á ýmsum atriðum sem ekki eru nægilega upplýst. Það er t. d. alveg ljóst að við getum samkv. samningnum orðið skuldbundin til stórkostlegra fjárútláta af hálfu ríkisins aðeins ef Union Carbide þóknast. Hér á ég við ákvæðið í aðalsamningi sem skuldbindur íslenska ríkið til að kaupa hlut Union Carbide eftir 15 ár hvort sem okkur líkar betur eða verr. Engin sams konar skylda hvílir hins vegar á Union Carbide ef við óskum að selja okkar hlut. Þeir hafa aðeins rétt til kaupa, en ekki skyldu. Í slíku ákvæði felst að mínum dómi lítilsvirðing á sjálfsákvörðunarrétti íslendinga. Og þetta ákvæði er arfur frá ráðherratíð hv. 3. þm. Reykv., nema hvað þá var það sýnu lakara að því leyti til að þá var um 10 ár að ræða, en ekki 15 eins og nú hefur þó fengist framgengt. Ég endurtek því að efnahagslegt fullveldi okkar væri betur tryggt með því að láta Union Carbide um eignaraðild þessa fyrirtækis, en við gerðum hins vegar samning um orku og aðstöðu, — samning sem fyllilega væri samboðinn fullveldi Íslands. Sjálf ættum við svo að reka hliðariðngreinar sem upp gætu risið.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta nú, en sá ástæðu til þess að gera athugasemd í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Reykv.