26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3366 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þennan óvenjulega fund að ráði, enda komið langt fram yfir hádegi á laugardegi. Ég get þó ekki látið hjá líða að leiðrétta með örfáum orðum rangtúlkun hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar á ræðu hv. þm. Braga Sigurjónssonar við 2. umr. þessa máls varðandi stefnu Alþfl. í stóriðjumálum.

Stefna flokksins í stóriðjumálum hefur verið skýrt mörkuð á fleiri en einu flokksþingi Alþfl. Flokkurinn hefur þar lýst sig fylgjandi því að komið yrði á fót stóriðju á Íslandi í því skyni að hagnýta þá orku sem er fólgin í fallvötnum landsins og í jarðhita þess. Það hefur verið tekið skýrt fram að flokkurinn vilji meta það hverju sinni með hverjum hætti slík stóriðja skuli skipulögð, það geti verið um að ræða starfrækslu alíslenskra fyrirtækja eins og átt hefur sér stað með sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna t. d. sem Alþfl. studdi á sínum tíma, það gæti orðið með því að semja við erlend fyrirtæki um rekstur stóriðju á Íslandi, eins og átti sér stað þegar álverinu var komið á fót í Straumsvík og Alþfl. studdi, og það gæti líka verið um að ræða samvinnu íslendinga, íslenskra einstaklinga og íslenska ríkisins við erlenda aðila, eins og átti sér stað þegar kísilgúrverksmiðjunni var komið á fót, sem Alþfl. studdi, og eins og á að eiga sér stað ef þetta frv. verður samþ. sem Alþfl. styður. Flokkurinn vill m. ö. o. fá að meta það hverju sinni hvaða rekstrarform sé hagkvæmast. En stóriðja er nauðsynleg til þess að hagnýta þær mikilvægu auðlindir sem fólgnar eru í fallvötnum og jarðhita landsins.

Þetta vil ég að komi skýrt og ljóst fram fyrst hv. þm. gerði sér leik að því að rangtúlka ræðu Braga Sigurjónssonar um þetta efni.

Í framhaldi af þessu lagðist hv. þm. enn einu sinni svo lágt að rangtúlka gersamlega ræðu sem ég fyrir mörgum árum hélt á afmælishátíð Þjóðminjasafnsins. Ég hef svo oft áður leiðrétt þetta að það liggur við að mér finnist varla taka því að leiðrétta hv. þm. einu sinni enn. Ég ætla samt að gera það með örfáum orðum.

Ég lét þess getið í þessari ræðu að sagt hefði verið að líklegasta leiðin til þess að varðveita sjálfstæði kynni að vera fólgið í því að farga sjálfstæði. Af því að ég gat ekki um það í ræðunni, hver hefði sagt þetta, hefur hv. þm. Magnús Kjartansson hvað eftir annað á undanförnum árum lagt mér þessi orð í munn og sagt að það sé stefna mín í utanríkismálum og nú í stóriðjumálum að farga sjálfstæði íslendinga. En sannleikurinn er að sá, sem sagði þessi orð, var Winston Churchill. Og hann lét sér þau um munn fara skömmu eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari þegar alþjóðasamvinna fór mjög að færast í vöxt. En alþjóðasamvinna getur auðvitað verið með þeim hætti að nauðsynlegt sé að ríki, bæði stór og smá, fargi að einhverju leyti formlegu sjálfstæði sínu. Meira að segja aðild að Sameinuðu þjóðunum, sem íslendingar eru aðilar að, og ég veit ekki betur en hv. þm. styðji, þýðir í reynd ef sáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grandskoðaður að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna farga að vissu leyti nokkrum hluta af formlegu sjálfstæði sínu og þetta á í enn ríkara mæli við aðild að ýmsum öðrum alþjóðastofnunum eða alþjóðasamningum. Það var þetta sem sir Winston Churchill átti við þegar hann sagði að þróunin á síðara hluta 20. aldar virtist vera sú að það kynni að vera nauðsynlegt að farga sjálfstæði þjóða í því skyni að treysta sjálfstæði þeirra aðila sem teldu nauðsynlegt að gerast aðilar að alþjóðasamtökum eða gera alþjóðasamninga. En þessi ummæli nota ég einmitt til þess að sýna fram á að þótt aðild smáþjóða að alþjóðasamstarfi væri eðlileg og nauðsynleg, þá yrði það engu að síður að gerast með þeim hætti að smáþjóðir varðveittu sjálfstæði sitt. Einmitt aukin alþjóðasamvinna ætti að sýna smáþjóð eins og íslendingum fram á að þær ættu ekki aðeins rétt á sjálfstæði, heldur hefðu skyldu til að varðveita þjóðerni sitt. Á þetta vildi ég sérstaklega minna á 100 ára afmæli Þjóðminjasafnsins. M. ö. o.: niðurstaða mín er þveröfug við það sem þessi heiðarlegi þm. hefur hvað eftir annað reynt að láta líta út fyrir að ummæli mín hefðu hnigið að. (Gripið fram í.) Hv. þm. Magnús Kjartansson má vera ósammála mér eins lengi og hann lystir. Ég er búinn að láta tvíprenta ræðuna í heild þannig að hver einasti heiðarlegur maður getur séð og lesið hvað ég raunverulega sagði, hver var raunverulega niðurstaðan. Hv. þm. má halda áfram að endurtaka ósannindin eins lengi og hann lystir. Það er raunar honum líkt að gera það, þrátt fyrir það að hann hafi texta fyrir framan sig sem er þveröfugur. Það lýsir þessum manni vel.

Þá ætla ég að síðustu að fara örfáum orðum um þá ræðu í heild sem hann flutti hér áðan. Ég held að það sé rétt að segja frá því að nokkrum mánuðum áður en þessi hv. þm., sem þá gegndi starfi iðnrh., lét af því embætti, en meðan hann enn hafði vonir um að sitja áfram í embættinu, þá kvaddi hann okkur núv. hæstv. iðnrh. til fundar við sig í skrifstofu sína í Arnarhvoli. Hann kvaddi okkur til fundar við sig sem formenn þingflokka þáv. stjórnarandstöðu, sem formenn þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. Erindið var að ræða við okkur um þá samninga sem þá voru á döfinni og komnir á lokastig við Union Carbide um stofnun málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Málavextir voru þeir að hann var orðinn í minni hl. í sínum eigin flokki í þessu máli, þ. e. a. s. hann hafði ekki stuðning síns eigin þingflokks til þess að gera samning við Union Carbide sem hann þó sjálfur persónulega og ríkisstj. vildi gera. Erindi hans við okkur, formenn þingfl. Sjálfstfl. og Alþfl., var að spyrjast fyrir um stuðning okkar við það að hann ritaði Union Carbide bréf þess efnis að það væri tryggt að í byrjun næsta þings væri þingmeirihl. fyrir löggjöf sem staðfesti samningsgerðina við Union Carbide, eins og málið lá þá fyrir. En það er í grundvallaratriðum eins og það mál sem nú liggur fyrir. Ég tjáði og hafði umboð míns þingfl. til að tjá hæstv. iðnrh. að Alþfl. styddi þetta mál og mundi greiða atkv. með frv. um það efni, hvort sem það kæmi fram þá á vorþinginu eða á haustþinginu. Þeirri afstöðu er Alþfl. enn trúr. Þess vegna fylgir hann þessu máli, hvort sem það er flutt af fyrrv. hæstv. iðnrh. eða núv. hæstv. iðnrh. Það er málið sem öllu skiptir, en ekki það hver flytur það. En nú er hv. þm. kominn í stjórnarandstöðu eftir að hafa beðið Alþfl. um stuðning við að skrifa Union Carbide bréf þar sem því væri lýst yfir að það væri þingmeirihl. fyrir stofnun slíkrar verksmiðju. Þá snýr hann algjörlega við blaðinu og hefur nú, eftir að hann kom í stjórnarandstöðu, hamast gegn þessu máli sem í raun og veru er hans eigið afkvæmi. Ræðan, sú þjóðernissinnaða ræða, sem hann hélt áðan í tilefni af þessu máli og í framhaldi af skoðanaskiptum sínum í málinu, mun varðveitast í þingsögunni sem sígilt dæmi um hræsni loddarans.