26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3368 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Út af fyrirspurn þeirri, sem kom hér fram áðan um hafnargerðina á Grundartanga vildi ég endurtaka það sem ég hef áður sagt þar um þótt það hafi ekki verið hér í þingræðu. Hafnargerðin við Grundartanga mun verða eign borgfirðinga og akurnesinga eins og þeir hafa sjálfir óskað eftir.

Út af þeim ótta, sem fram hefur komið hjá hv. þm. um að höfn þessi muni draga úr fjárveitingu til annarra hafnagerða í landinu, vil ég taka eftirfarandi fram: Tekjur ríkissjóðs í sköttum og arður af eign í fyrirtækinu mun verða meiri en nemur kostnaði við hafnargerðina og kostnaði við byggingu verksmiðjunnar. Af þeirri ástæðu mun þessi framkvæmd hvorki í hafnargerð né öðru verða til þess að draga úr fjárveitingum til annarra hafna í landinu. Hins vegar mun hafnargerðin verða til þess að íslendingar eignast mjög góða höfn sem á eftir að verða mikil innflutningshöfn fyrir allt Vesturland og meira en það. Í upphafi þarf lánsútvegun vegna þessara framkvæmda, sem mun verða tengd málinu, en öðru ekki, og mun því ekki hafa áhrif á aðrar lántökur íslendinga til annarra framkvæmda heldur en þeirra sem þarna er um að ræða og því ekki draga úr möguleikum þeirra til lánsútvegunar á erlendum vettvangi.

Út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, er hann líkti mér við Viktoríu drottningu, þá verð ég að segja það að marga skemmtilega atburði lifir maður um ævina. Það var sagt um Viktoríu drottningu þegar hún var búin að ríkja í 60 ár að bretar gætu ekki hugsað sér Bretland án drottningarinnar. Nú hef ég ekki verið þm. í tvo áratugi. Samt finnst þessum hv. þm. að óhugsandi sé annað en ég sé alltaf á vettvangi þar sem rætt er um málefni borgfirðinga eða þegar þá varðar mestu. Svo miklu lofi hef ég aldrei búist við, og veit ekki hvort ég á að þakka það, af því að mér finnst það oflof. Hitt er alveg rétt að ég hef gefið yfirlýsingar í þessu máli og gerði það fyrir kosningar í fyrra. En það er algert oflof að ég hafi lagt mikla vinnu í þetta mál í héraði. Ég hef nefnilega ekki ferðast milli bæja eða sveita til þess að tala fyrir þessu máli. Það hafa aðrir hv. þm. gert, eins og hv. 5. þm. Vesturl. veit, en ég ekki. Ég hef komið á eina þrjá fundi um þetta mál. Ég kom á einn í fyrra, þar sem ég gaf yfirlýsingar um afstöðu mína, og svo á framboðsfundum og hef ekkert dregið undan um afstöðu mína. Sú lína, sem hv. 5. þm. var að tala um að ég hefði fengið frá núv. ríkisstj., getur ekki verið komin þaðan á vordögum 1974 því að þá var núv. ríkisstj. ekki orðin til. Hafi ég fengið línuna að láni frá öðrum, þá hafa það verið áhrif frá vinstri stjórninni, en ekki þeirri sem nú situr. Satt að segja var það mitt mat eftir að hafa kynnst þessu máli að það væri mál sem ég vildi standa að, og því tók ég þá ákvörðun.

Ég skal ekki fara út í almennar umr. um þetta mál, ekki heldur út í að ræða um þá hættu sem lífríki Hvalfjarðar stafi af því. Ég tel hins vegar að það komi fram í þessum umr. að það sé hægt að koma í veg fyrir að þessi verksmiðja hafi áhrif á það, það sé mergur málsins að fara þarna að eins og hefur verið ákveðið um aðra stórframkvæmd í Borgarfirði sem er brúin yfir Borgarfjörð. Þar fóru bændur fram á að fá úttekt á stöðunni núna og eftirlit með áhrifum sem kynnu að verða. Þetta hefur verið ákveðið og gert í samráði við þá. Eins á að gera í sambandi við verksmiðjuna. En þeir reikna ekki með að það sé hægt að gefa upp áhrifin fyrr en verkið hafi verið unnið og það sé hægt að meta. Í báðum tilfellum á svo að vera hægt að hafa áhrif á að koma í veg fyrir hættu, ef áhrif verða. Það er hins vegar álit sérfræðinga í báðum tilfellum að áhrifin muni sáralítil eða engin verða. Það er þetta eftirlit sem nauðsynlegt er. Ég veit ósköp vel að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Þess vegna þurfum við líka að eiga skemmtikrafta og þeir eru nauðsynlegir. En þeir koma ekki að haldi ef brauðið skortir. Maðurinn verður líka að hafa brauð til þess að hann geti notið þess að horfa á „Delerium Bubonis“. Það er ekki hægt að njóta þess ef menn skortir brauðið. Þess vegna skulum við, hvorki hv. 5. þm. Vesturl. né aðrir, ekki gera lítið úr því að brauðið þurfi að vera með.

Við tölum um byggðastefnu, bæði ég og aðrir hv. þm. Eitt af því, sem ég hef orðið var við að hafi heyrst, er að þessi framkvæmd væri ekki í þágu byggðastefnu. En hvað með fólksfjölgun í Vesturlandskjördæmi? Síðan 1930 hefur fólkinu í landinu fjölgað um tæp 99% í heild, en í Vesturlandskjördæmi um 44%. Hvað segir þetta? Það segir það að þetta kjördæmi hefur einnig þörf fyrir byggðastefnu eins og önnur kjördæmi ef það á að halda sínum hlut í landinu. Og það þarf enginn mér að segja að ef mannfjölgunin verður ekki æskileg í Vesturlandskjördæmi sem og annars staðar, þá hefur það áhrif á stöðu þess fólks sem þar býr, í þjóðfélaginu í heild og Alþ. íslendinga. Til þess að það megi verða að fólki fjölgi þarf að auka atvinnu og atvinnumöguleikana. Þetta er aðalþáttur byggðastefnunnar. Möguleikarnir einmitt í þessu kjördæmi til þess að gera þetta felst meðal annars í því góða hafnarstæði sem er við Hvalfjörð. Ég vil líka minna á það að þetta mun verða til þess að tryggja raforku á þessu svæði, tryggja betri samgöngur en nú er, og ég vil líka benda á það að einmitt þetta svæði hefur nú möguleika á meiri fjölbreytni í skólum heldur en flest önnur svæði þessa lands. Það verður til þess að efla þá að fólki fjölgi í Vesturlandskjördæmi. Ég minni einnig á gott sjúkrahús og uppbyggingu heilsugæslustöðvar. Allt þetta og margt fleira mætti telja til er tryggir félagslegar framfarir á Vesturlandi með atvinnu og eðlilegri fólksfjölgun svo og blómlegar og góðar sveitir. Það mun verða hagkvæmara fyrir bændurna í þessum sveitum — þó að hv. 5. þm. Vesturl. hristi höfuðið, þá mun það verða hagkvæmara að selja á þeim mörkuðum sem þarna skapast því að það verða engar blómlegar sveitir nema markaðir séu góðir, og því styttra sem er á þá, því betra. Því á þessi hv. þm. að átta sig á, jafnvel þótt hann vilji setja það öðruvísi upp í revíu. Þess vegna er niðurstaða mín sú að hér sé um að ræða byggðastefnu í framkvæmd á þessu sviði fyrir þetta svæði sem mun einnig vegna hröðunar á neyslu raforkunnar verða til þess að tryggja öðrum byggðum landsins hraðari uppbyggingu en að öðrum kosti væri.