26.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3370 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Sú yfirlýsing, sem við höfum heyrt frá hæstv. samgrh., var ákaflega lítilvæg eins og menn hafa heyrt og leysir ekkert úr þessu vandamáli sem ég er alveg sannfærður um að á eftir að reynast mjög alvarlegt vandamál einmitt fyrir sveitarfélögin á þessum slóðum.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs aftur og ætla að segja örfá orð, er ræða sú sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason hélt. Hv. þm. var afar vanstilltur eins og menn heyrðu og beitti stórum orðum. Ég skil ákaflega vel, að honum líður ævinlega illa þegar hann er minntur á þá ræðu sem hann flutti á aldarafmæli Þjóðminjasafnsins. Ég var sjálfur viðstaddur þegar þessi ræða var flutt, og ég verð að segja það að það hreinlega þyrmdi yfir mig. Ég hef að vísu reynslu —(Gripið fram í.) já, er ýmsu vanur. Ég hef alllanga reynslu af því hversu ákaflega álút íslensk stjórnvöld geta stundum verið í viðskiptum við útlendinga. En ég hef aldrei heyrt þetta hugarfar sett fram á þann hátt sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason gerði í þessari ræðu sem ég man ákaflega vel eftir og hef ekki afflutt á einn eða neinn hátt og ákaflega margir þm. muna eftir sjálfir. Það var einn sem hvíslaði því að mér áðan að hann hefði í mörg ár kunnað heila kafla úr þessari ræðu utan bókar einmitt vegna þess að hún sýndi þetta hugarfar, og það væri ágætt ef hv. þm. vildi birta ræðuna einu sinni enn þannig að hann yrði þá búinn að birta hana þrisvar. Það sakar ekki að endurtaka þessa ræðu vegna þess að hún sýnir nákvæmlega inn í þetta óþjóðholla hugskot.

En hv. þm. vék að spurningu sem ég bar upp við þingflokkana snemma árs í fyrra, og það hefur svolítið verið vikið að bréfi sem ég skrifaði Union Carbide þá, og er þá rétt að það komi fram nákvæmlega eins og það var. Ég gerði grein fyrir því í þessum umr., að ég t,el, að viðhorfin, röksemdirnar fyrir nauðsyn slíkrar verksmiðjubyggingar, hafi gjörbreyst við olíuverðshækkunina haustið 1973, þó að það væri nauðsynlegt að það lægi fyrir sem valkostur hvort ætti að nýta orku í verksmiðjuframleiðslu eða nýta hana í þágu þessa markaðar sem opnaðist með snöggum hætti. Þess vegna neitaði ég að bera fram frv. um málmblendiverksmiðju á síðasta þingi. Viðsemjendur okkar, Union Carbide, óskuðu þá eftir því að ég aflaði vitneskju um það hver væri afstaða þingflokkanna til þessa máls, og mér fannst það vera skylda mín sem iðnrh. að verða við þeirri ósk. Þess vegna bar ég þessa spurningu upp við þingflokkana. Sú könnun leiddi í ljós að meiri hl. þings var ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til málsins, hvorki þingflokkur Alþb. né þingflokkur Sjálfstfl. Því skrifaði ég í þessu bréfi að ég væri sammála megindráttunum í því samkomulagi sem þá lá fyrir — sem var allt öðruvísi en það samkomulag sem núna er — en ég hefði kannað það að meiri hl. þings væri ekki reiðubúinn til að taka afstöðu og þess vegna gæti ég ekkert um það sagt hver afstaða Alþ. yrði til málsins. Það var þetta sem stóð í þessu bréfi, það var þessi könnun sem ég var að framkvæma, og ég greindi frá þeirri niðurstöðu að ég gæti ekkert um það sagt hvaða afstöðu Alþ. tæki til málsins.