28.04.1975
Efri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

247. mál, söluskattur

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Á þskj. 470 höfum við hv. 2. þm. Vestf. flutt frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 frá 22. mars 1960, um söluskatt. Frv. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„1. gr. Við 7. gr. l. bætist svo hljóðandi málsgr.:

Þá er heimilt að endurgreiða sveitarfélögum og öðrum þeim, sem kosta snjómokstur á vegum eða götum, sannanlegan greiddan söluskatt af þessum framkvæmdum.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og öllum er kunnugt er söluskattur greiddur af ýmiss konar þjónustu sem einstaklingar, sveitarfélög eða ríki láta í té. Þessi skattgreiðsla leggst sem ákveðin prósenta ofan á söluverð þjónustunnar. Þeim mun dýrari sem þjónustan er þeim mun hærri verður þess vegna skatturinn.

Það hefur löngum verið um það deilt hvaða aðferðum væri réttlátast að beita við skattlagningu og hafa skattar til opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, einkum verið tekjuskattar af tekjum skattgreiðanda, eignarskattar og skattar lagðir á verð söluvara og ýmiss konar þjónustu,eins og söluskatturinn svonefndi er.

Á síðari árum höfum við aukið mjög söluskattsinnheimtu hlutfallslega og horfið að því sem sífellt stærri lið í tekjuöflun ríkisins. Þetta hefur orðið til þess að ýmsar hugmyndir hafa komið upp um það hvernig réttlátast væri að innheimta söluskatt, og eftir því sem söluskatturinn hefur hækkað þeim mun augljósari hafa orðið ýmsir ókostir hans, eins og t. d. þeir að hann leggst með auknum þunga á þá þætti ýmiss konar þjónustu sem eru mönnum jafnvel óviðráðanlegir.

Það, sem hér er tekið til meðferðar, er söluskattur á snjómokstur. Nú er það svo að snjóþyngsli eru mjög mismunandi mikil í landinu. Í aðalatriðum er það svo að snjóþyngra er um norðanvert landið heldur en sunnanvert, en þó er verulegur kostnaður við snjómokstur um allt land.

Ég er þeirrar skoðunar að einmitt söluskattur á þjónustu eins og þessi sé ekki réttlátur. Þegar koma þungir vetur getur þessi þjónusta orðið einstökum byggðarlögum næsta örðug og kostnaðarsöm inn í þetta blandast almenn aðstaða til samgangna. Okkur er öllum vel kunnugt að samgöngur eru þegnum í þjóðfélaginu mjög mismunandi erfiðar. Sums staðar á landinu hafa menn slétta, malbikaða eða steinsteypta vegi sem eru tiltölulega greiðfærir allan ársins hring annars staðar eru vegirnir að vísu ekki malbikaðir en þó svo vel upp byggðir að þeir verjast í öllu venjulegu tíðarfari og eru færir meginhluta ársins. Enn koma svo svæði þar sem vegirnir eru illfærir að vetrum, bæði vegna þess að þeir eru illa upp byggðir og oft eru þessir illa uppbyggðu vegir í mjög snjóþungum byggðarlögum.

Enn höfum við ekki tekið upp þá reglu að ríkisvaldinu skuli skylt að halda vegum um byggðir opnum allan veturinn. Víða er það svo að Vegagerðin opnar vegina ákveðna daga, annaðhvort einu sinni eða tvisvar í viku, einu sinni í hálfum mánuði eða jafnvel ekki nema einu sinni í mánuði. Allvíða er það svo að Vegagerðin kostar ekki að fullu snjómokstur nema einu sinni á ári, þ. e. a. s. þegar vegirnir eru opnaðir á vordögum og snjó rutt af þeim í síðasta sinn.

Langvíðast, þar sem mjólkurflutningar fara fram á norðanverðu landinu og raunar annars staðar, þurfa sveitarfélögin að greiða helming af kostnaði við snjómokstur. Þar sem hægt er að nota vegi milli héraða eða milli þéttbýlisstaða njóta byggðarlögin þess, en þeir vegir eru að jafnaði ruddir oftar á kostnað ríkisvaldsins heldur en vegirnir um sveitirnar. Þessi kostnaður við snjómokstur á þjóðvegum í sveitum landsins er mörgum sveitarfélögum býsna þungur baggi.

Þá er ekki síður rétt að nefna það að bæjarfélög á snjóþungum svæðum landsins hafa mjög mikinn kostnað af snjómokstri. Ég hef fengið nokkrar tölur um þann kostnað sem hefur orðið af snjómokstri í vetur á nokkrum stöðum og er rétt að ég nefni þessar tölur.

Á Akureyri hefur kostnaður við snjómokstur samtals frá áramótum orðið 10 millj. 595 þús. kr. Lætur nærri að söluskattur, sem greiddur er til ríkisins af þessari upphæð, sé 1 millj. 130 þús. kr., eða um það bil 100 kr. á hvert mannsbarn á Akureyri. Þetta er kannske ekki sérstaklega há upphæð en þetta er skattur sem ríkið innheimtir af því að borgararnir á þessum stað hafa orðið fyrir sérstökum kostnaði og sérstökum óþægindum af náttúrunnar völdum. Á árinu 1974 var kostnaður á Akureyri við snjómokstur 8 millj. 640 þús. kr. og söluskattur, sem þá var greiddur, var um 800 þús. kr. Það ár var ekki eins snjóþungt eða kom ekki eins erfiður snjóakafli eins og kom núna í vetur. En þó að kostnaður sé nú um hálf ellefta millj. eða rúmlega það frá áramótum eru tæpast líkur á öðru en við þennan kostnað bætist verulega fyrri hluta næsta vetrar.

Ef tekið er eitt hérað eins og Eyjafjarðarsýsla, þá er sá kostnaður, sem sveitarfélögin hafa lagt í vetur. 4 millj. 748 þús. kr. frá 1. jan. til 1. maí. Þetta er hluti sveitarfélaganna í kostnaði í Eyjafjarðarsýslu við að moka þjóðvegi. Og söluskattur af þessari upphæð er tæpar 800 þús. kr. Og í Suður-Þingeyjarsýslu hefur hluti sveitarfélaga og annarra aðila en ríkisins í kostnaði við snjómokstur á þjóðvegum utan þéttbýlisstaða orðið rúmlega 21/2 millj. kr. á sama tíma. Söluskattur til ríkisins af þeirri upphæð er nokkuð yfir 400 þús. kr. Þá má nefna sem dæmi að Dalvík hefur greitt um 180 þús. kr. í söluskatt af snjómokstri það sem af er þessu ári. Á Húsavík er þessi upphæð tæp 150 þús. kr. Og svona mætti lengur telja.

Þessar upplýsingar eru aðeins af mjög takmörkuðum hluta landsins og mér er kunnugt um það að sveitarfélög, t. d. á Austurlandi, hafa orðið að leggja í gífurlegan kostnað við snjómokstur í vetur, og á Vestfjörðum er að öllum jafnaði mikill kostnaður við snjómokstur.

Nú er það svo að auðvitað er ekki hægt á nokkurn hátt að losa sveitarfélögin við að leggja í kostnað við að hreinsa götur sínar þó að það sé snjór sem á þær kemur. En mér finnst óréttlátt að þessi aðstöðumunur, sem birtist í því hversu misjafnlega snjóþungt landið er, sé notaður sem tekjuöflunarleið fyrir ríkisvaldið. Þess vegna höfum við hv. 2. þm. vestf. leyft okkur að flytja þetta frv. sem hér er til umr. Þá má auðvitað um það deila hvort það væri ekki eðlilegt að nú þegar væri gerð krafa um það að ríkisvaldið héldi öllum þjóðvegum opnum yfir vetrarmánuðina. Það er vissulega orðið svo að samgöngur eru engu síður nauðsynlegar á veturna heldur en sumrin, og það hlýtur að koma að því að sú staðreynd verði viðurkennd. Sérstaklega er nauðsynlegt að samgöngur haldist milli verslunarstaðanna annars vegar og hinnar dreifðu byggðar hins vegar. Er þetta bæði vegna venjulegrar verslunarþjónustu, póstsamgangna og þó alveg sérstaklega vegna þeirra vöruflutninga sem að öllum jafnaði fara fram úr sveitum landsins til þéttbýlisstaðanna allan ársins hring.

En þó að það væri vissulega mikils vert að ríkisvaldið tæki að sér að fullu að halda opnum þjóðvegunum, þá er þó hitt enn meira um vert ef tækist á tiltölulega skömmum tíma að hækka svo vegina að þeir verðust sómasamlega fyrir snjó. Það er kannske rétt að vekja hér athygli á því af því að ég nefndi hér tvö byggðarlög, Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu, að þá er það svo, að oftast er miklu snjóléttara í Eyjafirði, einkum framan til í firðinum sem kallað er, heldur en í Suður-Þingeyjarsýslu. Þess vegna kann að koma nokkuð á óvart að í vetur hefur orðið miklu meiri kostnaður við að halda þjóðvegum í Eyjafjarðarsýslu opnum heldur en í Suður-Þingeyjarsýslu. Til þess liggja tvær ástæður. Önnur er sú að á þeim kafla, sem snjóþyngstur var í vetur, þ. e. a. s. í janúarmánuði, var ekki eins mikill munur á snjóalögum í þessum tveim héruðum og mjög algengt er. En hitt veldur þó e. t. v. meira, að í vissum hlutum Suður-Þingeyjarsýslu hefur þegar tekist að byggja upp háa vegi sem eru að mestu varðir fyrir snjó í þeim veðrum sem við höfum kynnst, a. m. k. á undanförnum árum. Það er ekki hægt að neita því að uppbygging vegar, eins og t. d. frá Húsavík fram um Aðaldal og Reykjadal, hefur valdið algjörri byltingu í samgöngum á tiltölulega skömmum tíma. Áður var þessi leið afar erfið til flutninga að vetrinum en nú er það ekki nema undir einstaka kringumstæðum sem nokkurn teljandi snjó setur á þessa leið. Þetta hefur sannfært okkur, sem þekkjum þetta og við þessar aðstæður búum, um það að í raun og veru er hægt að byggja þannig upp vegina alls staðar á landinu að í flestu tíðarfari séu þeir að mestu sjálfkrafa varðir fyrir snjó. Þetta er auðvitað það markmið sem við þurfum að stefna að, og ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt jafnréttismál að þessi uppbygging veganna í vissa hæð yfir umhverfið sitt sé aðalmál okkar í vegagerð í dag og þurfi að sitja fyrir öðrum málum, svo sem lagningu slitlags á vegi og öðru slíku.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál að þessu sinni. Ég vil leyfa mér að leggja til að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og til 2. umr.