28.04.1975
Efri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Frsm. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Ég hafði tekið á mig sem form. n., að vera frsm., en var því miður fjarverandi þegar þetta mál var til 2. umr. hér í þd. Eins og fram kemur í nál. menntmn. voru tveir nm. fjarverandi, þeir hv. 2. þm Vestf., Steingrímur Hermannsson, og 1. landsk. þm. Jón Árm. Héðinsson. Hann upplýsti mig um það síðar að það mundi hafa orðið einhver misskilningur um fundarboðun til hans og er ástæða til að harma það.

Ég verð kannske, herra forseti, að eyða örlítið meiri tíma nú við 3. umr. en orðið hefði ef ég hefði verið hér við 2. umr. málsins. Ég skal þó reyna að stytta mál mitt eins og frekast er kostur.

Þegar þetta mál var til 1. umr. í þessari hv. d. lýsti hv. 1. landsk. þm. strax þeirri skoðun sinni, sem hann og endurtók áðan og mun trúlega hafa haft uppi við 2. umr. málsins, varðandi það að eðlilegt væri að taka þarna inn tónskáld líka eða tónlistarmenn. Þá kom og fram hjá tveimur hv. þm., bæði hv. 1. landsk. þm. og hv. 2. þm. Norðurl. e., að það væri máske vafasamt á þessum tíma, eins og þeir orðuðu það, að vera að stofna til nýrrar sjóðamyndunar, eins og fjárhagsástandið væri hjá ríkissjóði. Um slíkt hefur auðvitað hver og einn sínar skoðanir og getur fært þar mörg gild rök máli sínu til stuðnings. Hv. 1. landsk. þm. lýsti því yfir, eins og kemur fram í Alþt., 9. hefti, þar sem skýrt er frá 1. umr. þessa máls, að hann mundi binda stuðning sinn við þetta frv. því að það yrði gerð breyt. í þessa átt sem hann hefur lagt til í hv. menntmn. Meðnm. mínir voru hins vegar ekki á því að breyta málinu þannig og töldu það vera sjálfstætt mál. Hver og einn einasti þeirra tók undir nauðsyn þess að þarna þyrfti eitthvað að gera, og þegar ég segi sem mína skoðun að ég tel rithöfunda standa þarna öllum okkar listamönnum framar, þá er ég ekki að kasta rýrð á eina einustu stétt íslenskra listamanna nema síður sé.

Ég tel að íslenskir rithöfundar hafi gegnum aldir lagt svo ómetanlega mikið af mörkum til þess að efla og viðhalda tungu vorri, menningu og sögu að engri annarri stétt listamanna sé gert nokkuð of lágt undir höfði þó að þeir séu taldir sérstaklega fyrstir. Að mínu mati hafa engir lagt fram stærri skerf til þess að stuðla að því að íslensk þjóð er í dag fullvalda menningarþjóð. Þetta segi ég án þess — og endurtek: að ég telji mig um leið þurfa að kasta nokkurri einustu rýrð á aðra hópa listamanna í landi okkar.

Hæstv. menntmrh. rakti hér við 1. umr. allan aðdraganda málsins. Ég endurtek ekkert af því sem þar var sagt, en tek eindregið undir þá skoðun hans að það sé mikil nauðsyn á því að fram fari ítarleg allsherjarúttekt á því hvað gert er til þess að efla listir í landinu, annars vegar af hálfu ríkisvaldsins og hins vegar af hálfu sveitarfélaganna, hvort þarna sé um augljósa mismunun að ræða, hvort fjármagninu mætti jafnvel betur vera varið o. fl., o. fl. sem þar gæti komið til greina.

Þegar þáltill. sú, sem má segja að sé kveikjan að þessu frv., var til umr. á sínum tíma vakti 3. þm. Sunnl. athygli á því að það var farið inn á hættulega braut ef ætti að tiltaka söluskatt af ákveðnum vörum, eða af einni vörutegund, sem ætti að renna til tiltekinna starfshópa, og ég tek undir þessa skoðun. Ég lít ekki á samþykkt þessa frv. sem slíka, heldur sem viðurkenningu til þeirra manna sem hér um ræðir. En samþykkt þessarar till. var tilefni nefndarskipunar, og sú n. lagði síðan til það frv. sem hér er fjallað um. Og eins og þar er skýrt tekið fram í 4. gr. þá eru menn ekki enn búnir að gera sér fulla grein fyrir því hvernig eðlilegast og farsælast verði komið fyrir framkvæmd um stjórn þessara. mála. Þar af leiðandi er gert ráð fyrir því að sett verði reglugerðarákvæði sem síðar meir verði síðan lögfest af hinu háa Alþ. þegar jákvæð reynsla er komin á framkvæmd málsins. Það er ákaflega lærdómsríkt að fletta í gegnum gömul Alþt. frá þeim tíma þegar Alþingi Íslendinga hafði úr ákaflega litlu að spila, úr ákaflega litlum fjármunum að spila til þess að skipta á milli mjög margra og aðkallandi verkefna um allt land. En ég hygg að það sé ekki hægt að benda á mörg þjóðþing sem hafi þá sýnt sínum rithöfundum meiri sóma heldur en íslendingar gerðu þá í gegnum sína löggjafarsamkomu. Og vegna hvers? Vegna þess að íslendingar hafa ávallt skilið að það eru bókmenntir okkar sem eru að meginþræði fjöregg okkar.

Það urðu oft ákaflega skemmtilegar deilur meðan sá háttur var uppi innan veggja Alþ. að vera að ræða um einstaka menn og fjárveitingu til þeirra. Sem betur fer er það næsta liðin tíð. Það kom fyrir laust eftir 1930 að einn af okkar merkustu stjórnmálamönnum sagði þegar verið var að ræða till. um styrk til tiltekins ungs rithöfundar, að hann væri ákaflega lítið hrifinn af því sem hann skrifaði, en hann hefði trú á því að hann mundi geta skrifað betur síðar meir og hann væri meðmæltur styrk til hans, ekki út á það sem hann hefði skrifað, heldur til þess að hann héldi áfram að skrifa því að hann vissi að hann mundi geta skrifað betur. Og sá rithöfundur hefur öðlast alþjóðafrægð.

Árni Jónsson frá Múla sem einnig lét sig mikið skipta þessi mál, sagði á Alþ. 1926, með leyfi forseta:

„Ég er ekki mikið fyrir að óvöndum listamönnum séu veittar viðurkenningar. En í heild ber að líta á að það er aðeins ein list, sem við stöndum svo framarlega í og þar sem við erum jafnfætis þeim fremstu og það er orðsins list. Í henni stöndum við engum að baki. Hún hefur þroskast með okkur gegnum aldir og átt fleiri iðkendur en allar aðrar listir í landinu“.

Eins og ég sagði, oft var deilt hart um menn og þeirra verk. Það gat skipt viðkomandi ungan listamann og hlýtur að gera, hvort sem hann er rithöfundur eða stundar aðrar greinar listar, miklu, að fá einhverja viðurkenningu og enn fremur og ekki síður skipti það máli hér áður fyrr.

Bjarni Jónsson frá Vogi sem ég hygg að hafi öllum þm. máske fremur, að öðrum ólöstuðum, lagt sig fram um að efla og styrkja listir á Íslandi sagði við afgreiðslu fjárlaga 1923, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðvíkjandi styrkjum til listamanna, þá er þess að geta, að enginn er svo vitur að geta sagt hvort réttara sé að veita A, B eða C þennan eða hinn styrkinn, því að eigi er auðið að vita fyrir fram hverjir verða afburðamenn.“

Og Bjarni Jónsson sagði áfram:

„Listamenn fluttust hingað þegar landið byggðist og hafa alltaf verið hér. Þrátt fyrir allt hefur því verið veitt athygli, að jafnvel á svörtustu tímum þjóðarinnar stóðu íslendingar jafn framarlega öðrum þjóðum í listfengi.“

Þetta var dómur þess manns sem á þeim tíma var viðförulli en flestir landar okkar.

Ég tók fram áðan, herra forseti, að mörgum ungum manni hefði orðið hjálp að fjárstyrk þeim sem Alþ. veitti til þessara mála. Það er tilefni þess frv. sem hér liggur fyrir að svo megi verða áfram þótt menn greini á og telji að það sé máske hægt að eyða þessum krónum á skynsamlegri hátt. Ég virði allar skoðanir í þá átt. Menn hafa á þessu mismunandi skoðanir, en þetta skipti sköpum fyrir marga að í hlut féll stuðningur við málið. Og einmitt við afgreiðslu fjárl. 1910 og 1911 var vitnað til ungs manns sem hafði hæfileika og áhuga til þess að stunda ritstörf, en því miður ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að sinna þeim. En fyrir vikið að hann fékk örlítinn stuðning frá því opinbera breyttist hagur hans. Og hann sagði að þetta hefði skipt sköpum og hann mundi geta farið að þjóna löngun sinni, en fram að því hafði matstríðið, eins og hann orðaði það, orðið að ganga fyrir öllu. Og hann kvað:

Ungum lék mér löngun á

að lifa til að skrifa,

en sköp hafa því svo skipt,

ég má skrifa til að lifa.

Ég vænti þess að þessi upphæð, sem hér er nefnd og hefur verið óbreytt í þessu frv. frá 1972, það er nú 21 millj., verði samþ. og eins reglurnar um hvernig farið verði með þetta hvað hækkanir snertir, þ. e. a. s. að viðmiðunin verði við kennara í menntaskóla. Það er viðmiðun sem á við um úthlutun listamannalauna og hefur gefist vel. En þarna er ávallt um mikið matsatriði að ræða hvaða leið á að finna.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Ég legg til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir.