28.04.1975
Efri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Eftir því sem ég skil þetta frv. er verið að úthluta söluskatti sem ríkið hefur innheimt af bókum. Þess vegna finnst mér eðlilegt að sá söluskattur gangi til rithöfunda eins og upphaflega var ráð fyrir gert í þáltill. sem er kveikjan að þessu frv. og við allir þekkjum, a. m. k. þeir sem áttu sæti á síðasta hv. Alþ. Ég held þess vegna að það sé rétt að binda þetta frv. við rithöfunda, þó að ég sé fyllilega sammála mörgu því og flestu því sem hv. 1. landsk. þm. hefur sagt um hlutverk og hlutskipti tónlistarmanna. En ég held að það þurfi þá að leysa það mál með öðrum hætti, að það verði ekki lausn, sem báðum hentar, að skipta söluskatti rithöfunda á milli fleiri aðila en rithöfundanna. Ég þykist ekki vera minni tónlistaraðdáandi en margur og ég vil tónskáldum allt það besta. En ég held að Alþ. verði að taka mál þetta fyrir með öðrum hætti en þeim að láta þá fá hlutdeild í þessum mjög svo takmarkaða sjóði, 21 millj., sem ætlaður en til rithöfunda og er endurgreiðsla á söluskatti, sem ríkið hefur tekið af bókum og hugverkum þeirra.