28.04.1975
Efri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

134. mál, launasjóður rithöfunda

Jón G. Sólnes:

Herra forseti, Ég ætla ekki að tefja umr. eða afgreiðslu þessa frv., en það var aðeins út af ummælum hv. 10. landsk. að mig langar til að koma hér fram með örstutta athugasemd.

Ég skal nú fúslega viðurkenna það að ég er að fara út á mjög hálan ís persónulega að vera að blanda mér í umr. um jafn göfugt og hástemmt mál sem vísindi og listir eru. En ég vil þó láta það koma hér fram að mitt mat er að skáld og listamenn hafi átt miklu meiri almenn ítök í hjörtum íslensku þjóðarinnar á því tímabili þegar Alþ. hafði úr litlum fjármunum að spila til þess að verðlauna þessa menn fyrir þeirra góðu og mikilvægu störf. Það hefur því komið upp í huga mínum hvort tengsl listamanna við þjóðina og sá hljómgrunnur, sem virðist vera milli þeirra og almennings í heild, sé ekki í öfugu hlutfalli við það mikla fjármagn sem nú er almennt veitt til þessara hluta af opinbera fé.