28.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3384 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ástæðan til þess að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár er mjög alvarlegt ástand sem upp er komið í atvinnumálum okkar íslendinga þar sem verulegur hluti togaraflotans, allir stóra togararnir, hefur nú stöðvast. Ég tel ástæðu til að gera þetta alvarlega ástand að umtalgefni hér og grennslast fyrir um það hvað hæstv. ríkisstj. hefur gert og hyggst gera til þess að leysa úr þessu óviðunandi ástandi.

Svo sem kunnugt er, er hið formlega tilefni deila undirmanna um kaup og kjör við atvinnurekendur og nú síðast vélstjóra. Hins vegar hafa samningaviðræður við undirmenn á togurunum verið reknar ákaflega slælega. Það er naumast hægt að segja að ræðst hafi verið við, og það er alkunna að ástæðurnar fyrir þessari alvarlega stöðvun eru mun víðtækari. Þessi stöðvun hófst 9. apríl, fyrir nærri því þremur vikum. Síðan hafa togararnir verið að stöðvast einn af öðrum þar til þeir munu nú allir 22 vera stöðvaðir. Áhafnirnar á þessum skipum eru 24 á skipi eða 528 manns alls. Þessi stöðvun hefur í vaxandi mæli haft lamandi áhrif á starfsemi frystihúsa og fiskvinnslustöðva. Þar hefur verið sagt upp kauptryggingu sem snertir á annað þúsund manns. Þannig er nú þegar ljóst að þessi stöðvun hefur bein áhrif á daglegt líf og afkomu nær 2000 fjölskyldna, en snertir auðvitað þjóðina alla í mjög ríkum mæli.

Stóru togararnir eru mikilvirkustu veiðitæki þjóðarinvar. Einmitt vegna ytri erfiðleika hljótum við nú að leggja áherslu á það að kappkosta sem mesta framleiðsluaukningu, og sem betur fer hefur bolfiskafli á fyrstu mánuðum þessa árs verið til muna meiri en sömu mánuði í fyrra og þar munar ekki síst um afla togaranna. Þessi aflaaukning styrkir að sjálfsögðu efnahagslega stöðu okkar. En það er hætt við því að þetta ástand kunni að breytast ef stöðvun stóru togaranna verður langvinn.

Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. alþm. að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er enn ákáflega alvarleg. Við lifum raunar á erlendum neyslulánum og tölur, sem voru birtar eftir Hagstofu Íslands í fréttum hádegisútvarpsins, sýna að enn sigur á ógæfuhlið á fyrstu mánuðum þessa árs.

Ég lít svo á að það sé skylda hæstv. ríkisstj. að vinna mjög kappsamlega að lausn þessarar deilu. Ég vil minna á það að verulegur hluti þessara stóru togara er í félagslegri eign og raunar eru togararnir allir keyptir fyrir fjármuni almennings í ríkara mæli en nokkur önnur framleiðslutæki, með lánum af almannafé sem hafa komist allt upp í 102.6% af verði togaranna. Því er hér ekki um að ræða vanda svokallaðra togaraeigenda, heldur sameiginlegan vanda allrar þjóðarinnar. Í þessu sambandi höfum við heyrt umtal um það að einstakir togaraeigendur tali um að selja slíka stóra togara úr landi. Það er að sjálfsögðu ekkert einkamál þeirra heldur, eins og til fjármögnunar hefur verið stofnað, og ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvernig ríkisstj. líti á slíkar hugmyndir. En fyrst og fremst vil ég spyrja hæstv. forsrh. um það hvað ríkisstj. hafi gert og hvað hún hyggist gera til þess að leysa þennan vanda og tryggja það að allir stóru togararnir verði starfræktir með hámarksafköstum. Ég spyr um þetta sem alþm. og ekki síst sem kjörinn fulltrúi Reykjavíkur þess kjördæmis sem hæstv. forsrh. er einnig fulltrúi fyrir. Héðan eru flestir stóru togararnir gerðir út, hér bitnar stöðvunin á langflestum og einatt hér er atvinnuástandið tæpast, veruleg samdráttareinkenni í iðnaði og ýmsum þjónustugreinum. Ef ekki verður bundinn endir á stöðvun stóru togaranna með skjótum hætti kann afleiðingin að verða háskaleg fyrir atvinnuöryggi á þeim stöðum þar sem stórir togarar eru gerðir út og þá ekki síst í Reykjavík. Í því sambandi er einnig ástæða til að minna á að nú nálgast sá tími þegar skólanemendur koma á vinnumarkaðinn og þá veitir ekki af að framleiðslutæki okkar séu hagnýtt til hins ítrasta, bæði til þess að tryggja skólafólki vinnu og þjóðarheildinni þátttöku skólafólks í framleiðslustarfseminni. Standi stöðvun stóru togaranna eitthvað sem heitir lengur er ærin ástæða til að óttast atvinnuleysi sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar. Í því sambandi vil ég minna á það að hæstv. núv. ríkisstj. hefur lýst því yfir oftar en nokkru öðru að það sé grundvallarstefna hennar að tryggja fullt atvinnuöryggi á Íslandi. Þess vegna ber ég fram fsp. mínar til hæstv. forsrh. og vonast til þess að fá skýr svör.