28.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3385 í B-deild Alþingistíðinda. (2487)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Virðulegi forseti. Ég get verið hv. síðasta ræðumanni sammála um það að yfirstandandi verkfall á stóru togurunum er mjög alvarlegt mál og mikilvægt að sú vinnudeila, sem liggur að baki verkfallinu, leysist svo að þessi framleiðslutæki geti farið aftur á flot og veitt til þess að auka framleiðsluna fyrir þjóðarbúið.

Ég vil láta það koma hér fram, senn ætti að vera óþarfi því að öllum hv. þm. ætti að vera kunnugt um það, að staða stærri skuttogaranna er ákaflega erfið og mun erfiðari en staða annarra fiskiskipa, eins og t. d. minni skuttogaranna. Þess vegna eru hinar almennu ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur staðið að til þess að bæta úr rekstrarstöðu fiskiskipastólsins og sjávarútvegsins í heild, ekki fullnægjandi til þess að koma í veg fyrir hallarekstur stærri togaranna. Þarna þarf meira til að koma.

Hv. þm. spyr hvað ríkisstj, hafi gert og hvað hún hyggist gera til þess að stuðla að lausn á þeirri kjaradeilu sem leitt hefur til þessa verkfalls. Ég vil svara þessari spurningu þannig að ríkisstj. hefur fylgst náið með samningaviðræðum aðila og haft samband við þá sem og auðvitað sáttasemjara ríkisins. Við höfum auk hinnar almennu yfirlýsingar, sem gefin var út til þess að stuðla að lausn þeirrar kjaradeilu sem átti sér stað milli Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, gefið fyrirheit, sem nú hefur verið efnt, sérstaklega til sjómanna um það að þeir hafi rétt til þess að draga 10% af brúttótekjum sínum frá skatti í stað 8% áður og þeir þurfi til þess að fullnægja því skilyrði að hafa stundað fiskveiðar í 4 mánuði. Í stað 6 mánaða áður. Þetta átti sinn þátt í því að samningar tókust að lokum á bátaflotanum og á minni skuttogurunum, en er bersýnilega ekki nægilegt til þess að kjaradeilan á stóru togurunum leysist. Þess vegna hefur ríkisstj. lýst því yfir við togaraeigendur að hún sé reiðubúin að taka til athugunar og beita sér fyrir, ef það mætti verða til lausnar yfirstandandi kjaradeilu, að létta greiðslubyrði stóru togaranna fyrst um sinn og einkum á þessu ári og þá væntanlega með því að lengja lánstíma lánanna sem á stóru togurunum hvíla. Ríkisstj. hefur einnig lofað að taka til meðferðar kröfu togaraeigenda varðandi kostnað sem þeir hafa talið sig hafa orðið fyrir vegna lagasetningar Alþ. í kjölfar togaraverkfallsins 1973 um kaup og kjör yfirmanna á togurum. Og loks hefur ríkisstj. heitið því að taka til meðferðar og greiða fyrir, eins og unnt er, breytingu á vanskilaskuldum togaraútgerðarinnar í samningsbundin lán, bæði í tengslum við það almenna skuldauppgjör sem fram fer í sjávarútveginum, en einnig varðandi tiltekna aðra kröfuhafa, að því er snertir stóru togarana.

Ég býst ekki við því að hv. þm. og fyrirspyrjandi ætlist til þess að ég greini nánar frá þessum málum í einstökum atriðum, því að það er ekki unnt að gera fyrr en ljóst er að slíkar aðgerðir séu til þess fallnar að deilan leysist því að þrátt fyrir allt er hér fyrst og fremst um kjaradeilu að ræða. Og ég hygg eftir að hafa kynnt mér málavöxtu að vonir standi til að aðilar hafi til meðferðar hugsanlega kerfisbreytingu á kaupi og kjörum á stærri skuttogurum sem í senn nái þeim tilgangi að jafna kaup og kjör áhafnarinnar á stóru skuttogurunum miðað við kaup og kjör áhafnarinnar á smærri skuttogurunum, svo og að slík kerfisbreyting leiði til meira samræmis í kostnaði við mannahald á stóru skuttogurunum og hinum minni, en eins og kunnugt er hefur því verið haldið fram og ég hygg með nokkrum rétti að tekjur sjómanna á smærri skuttogurunum hafi jafnvel verið hærri en á stærri skuttogurunum, aftur á móti hafi heildarkostnaður við mannahald á stóru skuttogurunum verið umtalsvert hærri en mannakostnaður á smærri skuttogurunum. Nú er sá stærðarmunur, sem er á þessum togarategundum, e. t. v. ekki slíkur að hann gefi tilefni til slíks munar, hvort heldur frá sjónarmiði sjómanna eða rekstraraðila.

Ríkisstj. mun sem sagt leggja á það áherslu að raunverulegar samningaviðræðar eigi sér stað og menn ræði efnislega um lausn deilunnar og mun stuðla að því að lausn fáist með skynsamlegum hætti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem skiptir mörg hundruð og þúsund manns, og það hefur mikla þýðingu fyrir þjóðarheildina.

Hv. þm. spurði hver væri afstaða ríkisstj. varðandi sölu þessara togara úr landi. Af því tilefni vil ég svara að ríkisstj. hefur ekki tekið neina afstöðu í þeim efnum, enda ekki gefist tilefni til þess þar sem engin umsókn um slíka sölu hefur borist ríkisstj. Sú afstaða verður tekin að athuguðu máli.

Almennt vil ég segja það að eins og rekstraryfirlit Þjóðhagsstofnunarinnar um rekstur stóru togaranna annars vegar og smærri togaranna hins vegar sýnir, þá er rekstrarafkoma hinna stærri mun lakari og þar er um sérvandamál að ræða. Ég vil leyfa mér að láta í ljós þá von að hér sé orsökin fyrst og fremst byrjunarörðugleikar sem vart hefur verið við í rekstri stærri togaranna og eftir að búið er að lagfæra ýmsa galla, t. d. sem fram hafa komið í smíði þessara stærri togara, og unnt er að halda þeim úti til veiða án hléa, þá megi ætlast til þess að rekstrarafkoma þeirra batni mjög. Það er von til þess að svo verði ef miðað er við reynsluna af smærri skuttogurum því að rekstrarafkoma þeirra hefur farið batnandi eftir að rekstraraðilar þeirra og áhafnir sigruðust á byrjunarerfiðleikum. Ég teldi það mjög mikinn skaða ef við hefðum ekki fjölbreyttan fiskiskipaflota til útgerðar frá Íslandi og þá mismunandi stærðir, þ. á m. bæði stóra togara og minni togara, því að stærri togararnir geta betur sótt á djúpmið og einnig nokkuð fjarlæg mið. Ég held að slík fjölbreytni sé nauðsynleg til frambúðar. En við þurfum samt sem áður að horfast í augu við staðreyndir og velja okkur framleiðslutæki í samræmi við þann arð sem vænta má að þau gefi, bæði þeim, sem við þau vinna og á þeim starfa, og þjóðarbúinu í heild.