29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3408 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

334. mál, nýskipan iðnfræðslu og tæknimenntunar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mun leitast við að svara hér fsp. hv. 4. þm. Reykv. um hvað líði störfum n. þeirrar sem skipuð var 1973 til að vinna að skipan iðnfræðslu og tæknimenntunar. Svar mitt er á þessa leið:

Hinn 10. og 22. júlí 1970 og 9. febr. 1971 skipaði menntmrn. verk- og tæknimenntunarnefnd til þess að kanna stöðu tæknimenntunar innan skólakerfisins og eðlileg tengsl hinna ýmsu fræðslustiga og gera till. um endurbætur í þessum efnum. Þessi n. lauk störfum 5. júlí 1971 og skilaði ítarlegu áliti sem m. a. fól í sér till. um endurskoðun iðnfræðslulöggjafarinnar, m. a. með það fyrir augum að ríkissjóður einn greiddi kostnað við iðnskólann, en í gildandi l. er mælt fyrir um að ríkissjóður og sveitarfélög greiði þennan kostnað sameiginlega. Hinn 15. febr. 1973 skipaði menntmrn. svo n. til þess að endurskoða lög nr. 68 frá 1966, um iðnfræðslu, og lög nr. 18 1971, um breyt. á þeim l. og átti þessi n. að skila frv. til nýrra iðnfræðslulaga fyrir árslok 1973. Í n. voru skipaðir Guðmundur Einarsson verkfræðingur, formaður, án tilnefningar, Haukur Eggertsson framkvæmdastjóri samkv. till. Félags ísl. iðnrekenda, Ólafur Pálsson húsasmiðameistari samkv. till. Landssambands iðnaðarmanna, Óskar Hallgrímsson bankastjóri án tilnefningar, Rúnar Bachmann iðanemi samkv. till. Iðnnemasambands Íslands, Snorri Jónsson framkvæmdastjóri samkv. till. Alþýðusambands Íslands og Þór Sandholt skólastjóri samkv. till. Sambands iðnskóla á Íslandi.

Þegar í upphafi útvegaði rn. margs konar gögn sem hún bað um. Formaður n., Óskar Hallgrímsson formaður iðnfræðsluráðs og Óskar Guðmundsson framkvæmdastjóri iðnfræðsluráðs, en hann hefur unnið mikið fyrir og með n., fóru í kynnisferðir, sumir um Norðurlönd og sumir til Þýskalands, og formaður sat einnig ráðstefnu varðandi iðnfræðslumál á vegum Menningarmálaráðs Evrópuráðsins og efnt var til ráðstefnu um verkefni n. hér í Reykjavík.

Menntmrn. hefur við fjárlagagerð undanfarin ár farið fram á fjárveitingu til þess að ráða verkfræðinga í þjónustu sína til þess að sinna iðnfræðslumálum og þá m. a. endurskipulagningu iðnfræðslunnar í landinu. Fékkst lengi vel ekki fé til þessa en það hefur verið veitt og réð rn. Hákon Torfason verkfræðing í þjónustu sína á s. l. ári og hefur hann jafnframt starfað fyrir endurskoðunarnefnd iðnfræðslulaga síðan í haust.

Í menntmrn. hefur verið mynduð verk- og tæknimenntunardeild til þess að sinna sérstaklega verkmenntunarmálum, m. a. í framhaldi af setningu nýrra grunnskólalaga. Þá hefur rn. lagt áherslu á að hraðað yrði endurskoðun námsskrár fyrir iðnfræðsluna en það er starf sem iðnfræðsluráð á að hafa með höndum. Í fjárl. þessa árs er varið 6 millj. kr. til námsskrárgerðar í verklegu námi fyrir iðnfræðslu- og fjölbrautaskóla. Menntmrn. hafði forgöngu um að skipuleggja starfið sem er mjög umfangsmikið því að viðurkenndar iðngreinar eru býsna margar, þær eru yfir 50 talsins. Verk þetta er nú hafið og er það unnið á vegum iðnfræðsluráðs í samstarfi við menntmrn. Á þessu ári verður einkum unnið að námsskrárgerð í málmiðnaðar-, byggingar- og rafiðnaðargreinum. Stefnt er að því að fyrstu drög að námsskránni í málm- og trésmiðagreinum og tréiðngreinum verði tilbúin næsta haust og kennt verði eftir þeim í fjölbrautaskólum í Breiðholti næsta skólaár. Þá er einnig stefnt að því að tilraunakennsla í iðnfræðsluskólum samkv. nýrri námaskrá geti hafist á næsta skólaári þótt í smáum stíl verði.

Iðnfræðslulög frá 1966 og 1971 eru að ýmsu leyti mjög erfið í framkvæmd og fyllilega tímabært að setja nýja löggjöf um þetta efni. Með iðnfræðslul. frá 1966 var ákveðið að iðnskólar skyldu vera einn í hverju kjördæmi landsins auk þeirra skóla sem þá störfuðu og höfðu minnst 60 nemendur er l. tóku gildi. Skólarnir eru kostaðir sameiginlega af ríkissjóði og sveitarfélögum eins og áður hefur komið fram. Verulegrar óánægju gætti sums staðar með staðsetningu skólanna og menn vildu ekki leggja niður gömlu iðnskólana sem voru að vísu mjög fámennir sumir, en menn hafa þrátt fyrir það kosið að halda þeim og hefur ekki verið talið fært annað en halda uppi iðnskólum viðar en l. gera ráð fyrir. Er þetta svo bæði á Austurlandi og Vesturlandi og raunar má segja um allt land. Með tilkomu fjölbrautaskóla, t. d. fjölbrautaskólans í Breiðholti, er ætlunin að verði iðnnámsbrautir og mun iðnnámið vafalaust færast í fjölbrautaform víða þegar fram líða stundir. En þá þarf einnig að tryggja að það iðnnám, sem fjölbrautaskólarnir veita, veiti nemendum sams konar réttindi og ef námið væri stundað í venjulegum iðnskóla. Sú breyting mun vafalaust verða að bóknám iðaskólanna færist í grunnskólana, en iðnskólarnir verði meiri sérfræðiskólar, meiri fagskólar, eftir en áður.

Það er sem sagt tvímælalaust mjög brýnt að endurskoða löggjöfina um iðnfræðslu og væntir rn. að sú n., sem situr og setið hefur nokkuð miklu lengur en gert var ráð fyrir í fyrstu að vera þyrfti, ljúki nú verkefni sínu þannig að unnt verði að leggja nýtt frv. um þetta efni fyrir Alþ. er það kemur saman í haust. Rn. skrifaði iðnfræðslunefnd 13. 6. 1974 um að hraða störfum og hefur nú alveg nýlega farið fram á að n. skili lagafrv. fyrir 1. ágúst n. k. þannig að unnt verði að ná því marki sem ég áðan nefndi. Endurskoðun löggjafarinnar og aukin verkmenntunarkennsla er áreiðanlega eitt af allra brýnustu verkefnum sem sinna þarf á næstunni.