29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3410 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

331. mál, bætur vegna snjóflóðs í Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Fsp. þessi er fram borin vegna snjóflóða er urðu 19. des. s. l. í Siglufirði. Þá eyðilögðust tvö hús í snjóflóði. Í fyrstu voru vonir bundnar við það að Brunabótafélag Íslands mundi bæta það tjón, jafnvel þótt því væri það ekki beinlínis skylt að lögum, en daginn eftir, þegar hin miklu snjóflóð urðu í Neskaupstað, var sú von úr sögunni. Þá voru uppi vangaveltur um það, hvort Viðlagasjóður mundi ekki koma inn í og leysa þennan vanda, en með bréfi Viðlagasjóðs var ljóst að svo yrði ekki að sinni. Fjárhagsaðstoð frá Bjargráðasjóði var hins vegar bersýnilega ófullnægjandi miðað við núverandi reglur hans. Með allt þetta í huga var þessi fsp. fram borin, þ. e. a. s. hvort ríkisstj. mundi ekki gera ráðstafanir til þess að tryggja því fólki, sem ætti um sárt að binda, viðunandi bætur.

Síðan fsp. þessi var fram borin hefur ýmislegt gerst í máli þessu sem hefur skýrt það. Alþ. hefur fjallað um frv. sem var borið fram á Alþ. til lausnar vanda þeirra sem urðu fyrir tjóni í snjóflóðum í Neskaupstað, og í því frv. var heimild til þess að leysa einnig vanda annarra er svipað stæði á um. Ef gert er ráð fyrir því að stjórn Viðlagasjóðs noti þessa heimild má ætla að þeirri fsp., sem ég hef borið hér fram, sé þar með svarað. En að sjálfsögðu væri gott að fá staðfestingu hjá hæstv. forsrh. á því að lausn sé fengin. Þess vegna hef ég borið fram þessa fsp., hvort ríkisstj. muni ekki tryggja þessu fólki, sem hér um ræðir, viðunandi bætur.