29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

335. mál, framhaldsnám hjúkrunarkvenna

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég fylgi þá úr hlaði fsp. sem fyrr á þingi var lögð fram af Þórarni Þórarinssyni, en fsp. þessi er til hæstv. menntmrh. um framhaldsnám hjúkrunarkvenna og er 4. liður á þskj. 358 og hljóðar fsp. svo:

„Hvenær má vænta ráðstafana til að tryggja hjúkrunarkonum rétt til framhaldsnáms við Háskóla Íslands í hjúkrunarfræðum?“

Ég hefði kannske sjálfur orðað þessa fsp. eilítið öðruvísi, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, var skipuð n. til þess að semja reglugerð um námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands. Þessi n. var skipuð á árinu 1973 og mun hafa skilað áliti í des. s. l. og mun það álit vera til athugunar hjá læknadeild Háskóla Íslands. En mér kemur málið þannig fyrir að með óbreyttum inntökureglum í Háskóla Íslands muni ekki aðrir komast í þetta nám en þeir sem hafa stúdentspróf og að sjálfsögðu eru í þeim hópi einhverjar eða einhverjir sem hafa hvort tveggja lokið stúdentsprófi og einnig námi frá Hjúkrunarskóla Íslands, en þetta er raunar ekki nema lítill hluti þeirra sem brautskráðir eru frá þeim skóla. Jafnframt komast auðvitað í þetta nám þeir eða þær sem hafa stúdentsmenntun, og mér vitanlega er ekki gerð krafa til þess að stúdentar, sem þessa námsbraut velja sér, hafi endilega hjúkrunarmenntun frá Hjúkrunarskóla Íslands jafnframt. Ég hef út af fyrir sig ekkert við þetta að athuga.

Það er stórt mál og má um það deila hver skuli vera inntökuskilyrði í Háskóla Íslands, hvort þau eigi að vera ein og algild eða hvort þau eigi að vera eitthvað breytileg eftir því hvaða nám er valið, hversu vítt svið menn kjósa sér innan veggja þeirrar stofnunar. En auðvitað er þetta mál mikið áhugaefni hjúkrunarkonum og hjúkrunarmönnum sem vilja auðvitað í senn viðhalda og auka þekkingu sína og telja sig vera vel undir það búin með tilliti til náms í Hjúkrunarskóla Íslands og með tilliti til sinnar starfsreynslu enda þótt þessir aðilar uppfylli ekki skilyrði um inntöku í Háskóla Íslands eins og nú stendur. Áhugamál þessara hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna — og það er auðvitað langstærsti hluti þeirra sem ekki fullnægir inntökuskilyrðum í Háskólann — er að hafa aðstöðu til aukningar menntunar sinnar sem mundi jafnframt tryggja þeim að það kæmi ekki til eins konar yfirstétt, ef ég má nota það orð, innan þessarar greinar sem þó byggðist ekki endilega á umframreynslu og þekkingu í hjúkrunarstarfinu sjálfu. — Ég sé ekki ástæðu til að hafa þennan inngang lengri.