29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (2508)

214. mál, innheimta afnotagjalda sjónvarps og hljóðvarps

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Fá mál hafa verið eins rækilega rædd austur á landi a. m. k. og sjónvarpsmálin og þau hafa borist hér inn í þingsalina og er næstum því að bera í bakkafullan lækinn að koma þeim að enn einu sinni. Þó benda nýgerðar samþykktir hreppsnefnda Egilsstaðahrepps og Reyðarfjarðarhrepps til þess að enn sé þörf vakandi umr. um málið yfirleitt, og nú nýverið fékk ég auk þess sérstaka beiðni frá bændum í Breiðdalshreppi um að koma sératökum óskum þeirra á framfæri við rétta aðila.

En þegar sú fsp., sem hér um ræðir á þskj. 407 og fram er borin til hæstv. menntmrh., var lögð fram fyrir páska hafði ég aðeins óljósar spurnir af því efni sem þær fjalla um, og satt að segja trúði ég þeim ekki allt of vel, svo sérstæð þótti mér sú innheimtuaðferð sem um er spurt og rétt þykir að fá svör hæstv. ráðh. um hvernig sé réttlætt og hvort eða hvernig hann hyggst bregðast við í málinu.

Af þessu fékk ég svo persónulega reynslu, og niðurlag hreppsnefndarsamþykktar þeirra Egilsstaðamanna fer í sömu átt. Leyfi ég mér að vitna til hennar hér orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Egilsstaðahrepps mótmælir harðlega að afnotagjöld fyrir útvarp og sjónvarp eru nú innheimt sameiginlega og menn látnir greiða fyrir útvarpstæki þó að eigandi sjónvarpstækis eigi ekkert útvarp.“

Það eru því ýmsir fleiri en ég sem spyrja svipaðra spurninga nú og eru hér á þskj. 407, svo hljóðandi:

„1. Er það rétt, að innheimtudeild Ríkisútvarpsins innheimti sameiginlega gjald af sjónvarpi og hljóðvarpi, án tillits til þess, hvort viðkomandi á hljóðvarpstæki eða ekki?

2. Ef svo er, hvaðan kemur stofnuninni heimild til svo sérstæðrar innheimtu?

3. Mun ráðh, hafa afskipti af þessu máli og þá hver?“