29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Í tilefni af þessum umr. vildi ég aðeins upplýsa það sem mér er kunnugt um. Eftir hið umfangsmikla verkefni Lénharð fógeta og eftir þann kostnað sem af þeirri leikritagerð hlaust tók fráfarandi útvarpsráð ákvörðun í samráði við embættismenn þeirrar stofnunar, að taka ekki fleiri íslensk leikrit upp á því ári vegna fjárhagserfiðleika stofnunarinnar. Nú hefur hins vegar verið ákveðið af útvarpsráði að stefna að því að taka upp a. m. k. 6–7 íslensk leikrit á hverju ári, og nú þegar hafa verið ákveðin verkefni sem fram undan eru, þrjú verk nú þegar ákveðin sem tekin verða upp væntanlega á næstunni.

Ég get vel fallist á þau sjónarmið að sjónvarpið þjóni mikilvægum tilgangi í því að flytja list til fólks víða um land. En þá hefði ég haldið að það væri æskilegra að leikhúsin hér í Reykjavík gætu farið með sína hópa í ferðalög á hina ýmsu staði úti á landi þannig að fólk þar kæmist í bein tengsl við leikhúsið eins og það best er, en ekki á sjónvarpsskerminum. Þetta gæti farið saman, en ég held þó að það ætti að vera aðalreglan og ætti að stefna að því að leikhúsið færi með sína flokka í ferðalög um landið og með sín verk, en sjónvarpið og útvarpið ættu síðan að stuðla að því að vinna að því að sýna og flytja verk sem eru heppileg og vel til fallin að sýna og flytja í sjónvarpi og útvarpi. Ég er sannfærður um að ef að þessu verður unnið með dyggilegum hætti og með góðum stuðningi Alþ. og hæstv. ráðh. en einmitt vegna þess að allir eru sammála um að efla íslenska leikritagerð á þessum vettvangi þá gæti Alþ. og ríkisstj. unnið að því og stutt við bakið á Ríkisútvarpinu með því að auka fjárveitingar í þessu skyni til Ríkisútvarpsins.