29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3421 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

244. mál, aðild Íslands að háskóla Sameinuðu þjóðanna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessari mjög svo áhugaverðu fsp. frá hv. 2, þm. Austf. vil ég leyfa mér að svara þannig:

Samkv. stofnskrá háskóla Sameinuðu þjóðanna, er samþykkt var á 28. Allsherjarþingi árið 1973, er skipulag hans þannig hugsað að starfsemin fari fram við vísinda- og kennslustofnanir víðs vegar um heim tengdar háskólanum með mismunandi hætti. Háskólanum er ætlað að sinna viðfangsefnum er miklu varða örlög, þróun og velferð mannkyns og er gert ráð fyrir að starfsemi hans beinist ekki síst að vandamálum hinna svonefndu þróunarlanda. Skipulag, verksvið og starfshættir stofnunarinnar eru enn mjög í mótun og sitthvað óljóst um hvernig þeim málum verði háttað í framkvæmd. Fjár til starfseminnar er ráðgert að afla með frjálsum framlögum aðildarríkja og annarra aðila. Háskólaráð skipað 24 fulltrúum hefur verið sett á laggirnar og rektor skipaður en það er núverandi rektor New York-háskóla. Ákveðið er að höfuðstöðvar háskóla Sameinuðu þjóðanna verði í Tokyo í Japan, en að öðru leyti er óákveðið hvar starfsemi háskólans fari fram, þ. e. hvaða stofnanir verði við hann tengdar. Hin ýmsu ríki og stofnanir hafa lýst ábuga á slíkum tengslum en af hálfu háskólans munu engar ákvarðanir um þau efni verða teknar fyrr en heildarstefna og starfsemi hans hefur verið mótuð frekar.

Varðandi fyrri lið fsp. skal þetta svo tekið fram sérstaklega: Af íslenskri hálfu var snemma lýst fylgi við hugmyndina um háskóla Sameinuðu þjóðanna og látinn í ljós áhugi á könnun möguleika á einhvers konar þátttöku Íslands í starfsemi hans. Var í því sambandi einkum rætt um rannsóknir varðandi auðlindir hafsins. Menntmrn, taldi nauðsynlegt, áður en tekin yrði ákvörðun um aðild Íslands að starfsemi háskólans, að fram færi skipuleg athugun málsins í ljósi fáanlegra upplýsinga um fyrirhugaða uppbyggingu og fjármögnun stofnunarinnar. Hefur rn. gengist fyrir myndun starfsnefndar í þessu skyni með fulltrúum þeirra rn. og stofnana sem málið varðar öðru fremur. Tilnefndir hafa verið fulltrúar í slíka samstarfsnefnd frá utanrrn., sjútvrn., Háskóla Íslands, Rannsóknaráði ríkisins, Hafrannsóknastofnuninni og Framkvæmdastofnun ríkisins, en nefndarstörf eru ekki hafin.

Hins vegar er þess að geta að fyrir frumkvæði fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hefur verið rædd nokkuð hugmynd um að stofnað yrði af íslenskri hálfu til frekari samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar á sviði jarðhitafræða og þá einmitt hugsanlega innan vébanda Sameinuðu þjóðanna. Í framhaldi af því var fulltrúi Íslands í auðlindanefnd Sameinuðu þjóðanna aðalflm. að till. sem borin var fram á fundi n. í Tokyo um síðustu mánaðamót. Var þar bent á mikilvægi jarðhita sem orkugjafa og lagt til að því yrði beint til forráðamanna háskóla Sameinuðu þjóðanna að kanna möguleika á að sú stofnun beitti sér fyrir rannsókn og hagnýtri fræðslu á þessu sviði. Till. þessi var samþ. í auðlindanefndinni, en ákveðið að hún tæki auk jarðhita einnig til sólarorku.

Í 2. lið fsp. er spurt, við hvaða háskóladeildir eða rannsóknastofnanir íslenskar samstarf geti helst komið til greina. Af því, sem sagt hefur verið á undan, er ljóst að athugun þessara mála er allt of skammt komin til þess að unnt sé að segja nokkuð ákveðið um þetta atriði. Líkur benda þó til að eðlilegustu aðila um hugsanlegt samstarf við háskóla Sameinuðu þjóðanna af íslenskri hálfu sé að leita meðal vísindastofnana á sviði haf- og fiskifræða og svo jarðhitarannsókna, eins og raunar kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda.

Þess skal að lokum getið að í embættismannanefnd um norrænt menningarmálasamstarf, sem í sæti eiga fulltrúar menntamálaráðuneyta frá Norðurlöndunum, hefur verið um það rætt að æskilegt væri að Norðurlandaríkin hefðu samráð sín í milli varðandi hugsanleg framlög til háskóla Sameinuðu þjóðanna og í hverri mynd þau yrðu látin í té. Var á þeim vettvangi nýlega skýrt frá því að sænska ríkisstj. hefði í fjárlagafrv. lagt til að Svíþjóð legði fram eina millj. sænskra kr. í stofnsjóð háskólans, en að öðru leyti er ekki kunnugt að Norðurlandaríki hafi tekið ákvörðun varðandi þátttöku sína í starfsemi stofnunarinnar eða framlög til hennar.

Þetta verð ég að láta nægja sem svör við fsp. hv. þm.