25.11.1974
Neðri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

21. mál, trúfélög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta frv. af þeim sökum að ég tel mjög nauðsynlegt að frv. af þessu tagi verði lögfest og ákveðnar reglur settar um það hvaða reglur skuli gilda um löggildingu forstöðumanna trúfélaga, eins og það heitir að forminu til. Ég vek athygli á því í því sambandi að ég álít að mjög nauðsynlegt sé að endurskoða þær löggildingar, sem veittar hafa verið fram að þessu, og bendi á í því sambandi að fyrir nokkrum missirum var forstöðumanni svokallaðs Ásatrúarsafnaðar veitt löggilding og var það rökstutt með því að slík löggilding fælist innan ramma stjórnarskrárinnar um trúfrelsi. Nú er ég að vísu ekki sammála þessu, og mér þykir augljóst að það hafi átt sér stað mistök, þegar af þeirri ástæðu að ég tel mjög hæpið að sú skilgreining, sem sá söfnuður hefur gefið á ásatrú, sé í raun og veru fullnægjandi til þess að heimilt eða rétt sé að hið opinbera veiti honum slíka viðurkenningu eins og fólst í löggildingu forstöðumannsins.

Það gefur að sjálfsögðu auga leið að hvorki þeir menn, sem nú kalla sig Ásatrúarmenn, né neinir aðrir geta sagt um það með nokkrum líkum, hvað þá heldur vissu, hvernig sú ásatrú var sem forfeður okkar iðkuðu. Ég vil benda á í því sambandi að Snorra-Edda, sem er eitt aðalhelgirit, eins og þeir kalla, nútíma Ásatrúarmanna, er kannske síst af öllu fullgild í þessu sambandi þar sem höfundur hennar varar við því í formála að það sé ekki hin andlega spektin, sem þar er fjallað um, og leit sjálfur ekki á þetta rit sem neitt trúarrit, heldur fyrst og fremst sem sögulegar upplýsingar.

Í þessu frv. segir að trúfélag, sem óski skráningar, skuli senda dóms- og kirkjumálarn. trúarjátningar og kenningar þess. Það gefur að sjálfsögðu auga leið að um ekkert slíkt getur verið að ræða í þeim Ásatrúarsöfnuði sem nú er. Það liggur ekkert fyrir um þessi atriði. Það liggur ekki fyrir hjá nútímamönnum hvernig þessu var háttað hjá forfeðrum okkar. Ég álít að það væri mikill sómi að því og raunar hreinsun að hið opinbera hlutaðist til um að afturkalla þessa löggildingu. Hitt liggur mér í léttu rúmi hvort þeim mönnum, sem þar standa að, verði gefin heimild til þess að halda áfram að gifta fólk, ferma og greftra, ef þeir gera það í einhverju öðru nafni. En ég álít að vegna sóma okkar sjálfra og virðingar fyrir forfeðrum okkar getum við ekki látið þetta viðgangast öllu lengur.

Ég bendi á í þessu sambandi að með löggildingu forstöðumanns trúfélags er söfnuðinum sem slíkum veitt ákveðin staða innan þjóðfélagsins. M.a. hygg ég að útvarpsráð líti svo á að slík löggilding sé vísbending um það og raunar sé ríkisútvarpið skuldbundið til þess að veita slíkum söfnuðum tíma í ríkisútvarpinu fyrir sínar trúariðkanir og bænahöld og þeir eigi þess vegna rétt á því, Ásatrúarmenn, sem svo kalla sig, að koma inn í helgidagskrá útvarpsins eftir þeim venjum sem tíðkast hafa. Slíkt væri að sjálfsögðu með öllu óþolandi og ekkert annað en skopstæling á því sem við venjulegir menn eigum við með trúarbrögðum og eigum við með því að við viljum þjóna guði okkar.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta langt mál. Ég minni að vísu á það að síðasta tilraun, sem gerð var til slíkrar trúariðkunar í nafni ása, var viðhöfð í Nasista-Þýskalandi, og frægt er það þegar Hitler flutti ræðu við lát forstöðumanns þess safnaðar og þau ummæli sem hann hafði í því sambandi.

Ég vona sem sagt að löggilding þessa frv. muni valda því að löggilding forstöðumanns Ásatrúarsafnaðarins svokallaða verði aftur tekin og forfeður okkar hreinsaðir af öllu samneyti eða andlegum skyldleika við þá menn sem nú fremja spjöll í þeirra nafni.