29.04.1975
Sameinað þing: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3430 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

202. mál, viðgerð flugvéla á Keflavíkurflugvelli

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Á þskj. 392 hef ég leyft mér að flytja þáltill. um viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu flugvéla á Reykjavíkurflugvelli, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga í samráði við Flugleiðir hf. og önnur flugfélög, er hagsmuna hafa að gæta, á hvern hátt hagkvæmast sé að koma upp aðstöðu til viðgerða og viðhalds flugvélum á Keflavíkurflugvelli.“

Með þessari þáltill. fylgir nokkuð löng grg. þar sem aðalatriði þessa máls eru rakin og sé ég því ekki mikla ástæðu til þess að fylgja henni úr hlaði með langri framsögu þó mig langi til þess að víkja að nokkrum atriðum lítillega.

Eins og hv. þm. vita er Keflavíkurflugvöllur eini alþjóðlegi flugvöllurinn sem við íslendingar eigum og hefur hann verið notaður í sambandi við flug yfir Atlantshafið, bæði af flugvélum íslendinga og flugvélum sem eru í eigu útlendinga. Menn hafa bundið nokkrar vonir við það að á Keflavíkurflugvelli gæti orðið vaxandi starfsemi í sambandi við flugið á þessari flugleið yfir Norður-Atlantshafið og þó að nú um sinn hafi orðið nokkur samdráttur í lendingum flugvéla á Keflavíkurflugvelli, eins og víða annars staðar, sem er afleiðing þeirra erfiðleika er flugið á við að stríða víða um heim, þá gera menn sér þó vonir um að í framtíðinni muni verða um vaxandi lendingar á Keflavíkurflugvelli að ræða sem gætu gefið verulegar tekjur í þjóðarbúið og veitt vaxandi atvinnu í sambandi við þessa starfsemi.

Eitt atriði, sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd í sambandi við rekstur Keflavíkurflugvallar ef nokkuð á að verða af þessum draumum sem ég var hér að rekja, er að koma þar upp viðgerðaraðstöðu sem nú er í algeru lágmarki þess sem þyrfti að vera. Till. þessi miðar fyrst og fremst að því að hið opinbera láti athuga í samráði við Flugleiðir hf. og önnur þau innlend flugfélög sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þessa starfsemi hvernig best verði að þessum málum staðið því að allir þeir, sem eitthvað þekkja til þessara mála, vita að það þarf að marka einhverja stefnu í þessum málum sem fylgt verður svo að átökin í þessum málum verði samræmd og hnitmiðuð og við vitum að hvaða marki her að keppa í þessum efnum.

Til viðbótar þessum almennu rökum fyrir því að það sé meira en tímabært að athuga hvernig að þessum málum skuli standa, þá bætist og það við að nú hefur verið yfirlýst að fyrir dyrum standi nokkuð miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. M. a. hefur því verið lýst yfir af ráðamönnum að til standi að greina á milli hernaðarflugsins, sem rekið er þaðan, og þess venjulega farþegaflugs, sem hefur haft þar aðstöðu, og til standi að reisa nýja flugstöðvarbyggingu fyrir farþegaflugið og e. t. v. aðrar byggingar. Í sambandi við byggingu nýrrar flugstöðvar og aðstöðu í kringum hana er alveg nauðsynlegt að gera sér góða grein fyrir því hvernig best verði unnið að því að byggja upp þessa viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu sem tillgr. fjallar um.

Í öðru lagi er svo til viðbótar þessu að nefna það að í janúar s. l. brann viðgerðarflugskýli Flugfélags Íslands á Reykjavíkurflugvelli til grunna og sú starfsemi, sem þar var innt af hendi í þágu innlenda farþegaflugsins og raunar erlenda líka, hefur búið við mjög slæm skilyrði og verið nánast á hrakhólum. Úr þessu þarf að bæta og þá kemur að sjálfsögðu upp í hugann hvort ekki sé eðlilegast að þessi aðstaða, viðgerðaraðstaða og viðhaldsaðstaða fyrir íslenskar flugvélar, sé best komin á einum og sama stað, þ. e. a. s. suður á Keflavíkurflugvelli. Það er a. m. k. álit mitt að svo sé, og ég þori að fullyrða að það er álit margra þeirra sem unnið hafa að fluginu og best þekkja til þessara mála.

Eina ástæðu til viðbótar vil ég nefna enn þá, en hún er sú að við höfum starfandi í landinu Flugvirkjafélag Íslands sem í munu vera 170–180 lærðir flugvirkjar. Þar af munu um 100 hafa starfað í flugskýlinu á Reykjavíkurflugvelli sem brann í janúar eins og ég vék að. Þó að sumir þessara flugvirkja hafi fengið einhverja vinnu annars staðar og vinni áfram að viðgerðum og viðhaldi Flugfélagsvélanna í því húsnæði sem félagið hefur fengið á Keflavíkurflugvelli og hjá Landhelgisgæslunni, þá er staðreyndin þó sú að innan þessarar stéttar er nú, eftir því sem mér er tjáð, um verulegt atvinnuleysi að ræða sem okkur er að sjálfsögðu metnaðarmál og nauðsynlegt frá þjóðfélagslegum hagsmunum skoðað að reyna að vinna bug á. Til þess að svo verði þarf að skapa þessari mikilvægu starfsemi í sambandi við flugið þá aðstöðu sem til frambúðar sé.

Ég vil þá að síðustu aðeins geta þess að í sambandi við viðgerð og viðhald íslenskra flugvéla er um talsvert mikla gjaldeyriseyðslu að ræða. Ég hef birt með þáltill. yfirlit yfir viðhaldskostnað Loftleiða og Flugfélags Íslands á árinu 1971–1974 sem sýnir þetta vel og skal ekki teygja tímann með því að lesa það upp frá ári til árs, nema ég vil geta þess að það er mjög eftirtektarvert hversu innlendur kostnaður við þessa viðhaldsstarfsemi er misjafn hjá þessum tveimur flugfélögum. Af upplýsingum, sem ég hef aflað mér, sést að á þessum árum, 1971–1974, er aðeins um 7% af viðhaldskostnaði flugvéla þeirra, sem eru í eigu Loftleiða, hér innanlands, þ. e. a. s. að 93% hans eru til fallandi erlendis. En hjá Flugfélagi Íslands er viðhaldskostnaðurinn á þeirra vélum um 67% innanlands, en ekki nema 33% erlendis. Þegar menn hafa þetta í huga og líta á þær tölur sem birtar eru um viðhaldskostnaðinn þessi 4 ár, þá sjá þeir að hér er um verulegt gjaldeyrisatriði að tefla fyrir íslendinga og þegar af þeirri ástæðu sérstök ástæða til þess að íhuga þessi mál alvarlega og reyna að taka þau föstum tökum í byrjun.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til þess að fara fleiri orðum um þessa þáltill. Ég legg því til að umr. verði frestað og þáltill. vísað til allshn.