30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3437 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

260. mál, uppsögn fastráðins starfsfólks

Flm. (Soffía Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja í hv. d. ásamt Ragnari Arnalds þáltill. á þskj. 522 sem fjallar um takmörkun á rétti atvinnurekenda til að segja upp fastráðnu starfsfólki að eigin geðþótta. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa og leggja fyrir Alþ. lagafrv. er m. a. kveði á um réttindi og skyldur fastráðins starfsfólks, og heimildir atvinnurekenda til að segja því upp. Skal að því stefnt að takmarka rétt atvinnurekenda til að segja upp fastráðnu starfafólki að eigin geðþótta, t. d. vegna skoðanaágreinings, og verði uppsögn því aðeins lögleg, að hún sé nægilega rökstudd, svo sem að sýnt sé fram á vanrækslu í starfi eða að verið sé að fækka starfsfólki.“

Sú skoðun hefur lengi verið uppi að þörf sé lagasetningar um vinnuvernd er m. a. tryggi starfsmönnum góðan aðbúnað og öryggi á vinnustað, taki til atriða varðandi vinnutíma og vinnutilhögun, hvíldartíma, orlof og greiðslu vinnulauna svo og ákvæða um ráðningar og uppsagnir. Árið 1964 var lagt fram á alþingi frv.til l. um vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfresti vinnuvernd, greiðslu vinnulauna, uppsagnarfresti o. fl., en það dagaði uppi. Þó var í tíð vinstri stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili skipuð n.til að vinna að gerð frv. til l. um vinnuvernd, en það frv. hefur ekki enn verið lagt fram.

þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., fjallar um ákvæði varðandi uppsögn fastráðinna starfsmanna og takmörkun á valdi atvinnurekenda til að segja þeim upp að eigin geðþótta.

Öllum er í fersku minni að nýlega stóðu yfir verkfallsátök á Selfossi milli Kaupfélags Árnesinga annars vegar og hóps starfsmanna á einu af verkstæðum þess hins vegar. Þessi deila var sérstæð að því leyti að hún reis vegna aðfarar yfirstjórnar Kaupfélags Árnesinga á hendur einum starfsmanna þess. Sá hinn sami hefur um 35 ára skeið unnið hjá kaupfélaginu og þar af verið trúnaðarmaður í 25 ár.

Þessi óréttmæta uppsögn úr starfi varð til þess að gripið var til verkfalls til þess að standa vörð um þann rétt verkafólks að njóta atvinnuöryggis og þurfa ekki að sæta uppsögnum að geðþótta atvinnurekenda. Þessar verkfallsaðgerðir nutu stuðnings í orði og verki af hálfu fjölmargra aðila víðs vegar um landið, enda hlaut stéttvísu verkafólki að renna blóðið til skyldunnar þegar svo freklega var vegið að einu helsta grundvallaratriði almennra mannréttinda, réttinum til vinnunnar. Sem kunnugt er lyktaði þessum átökum á þann veg að kaupfélagsstjórnin varð að beygja sig og sá starfsmaður, sem var órétti beittur, var endurráðinn.

Þetta tilvik, sem hér hefur verið tekið dæmi af, gefur vissulega tilefni til nokkurra hugleiðinga, því að þetta mál eitt sér er vitanlega aðeina einn þáttur í miklu stærra samhengi. Í fyrsta lagi er ástæða til að líta þessa deilu alvarlegum augum þar eð í hlut á samvinnuhreyfingin sem er ein merkust félagsmálahreyfing sem risið hefur hér á landi, að sínu leyti hliðstæð verkalýðshreyfingunni og af sömu rót runnin. Brautryðjendur samvinnuhreyfingarinnar börðust fyrir efnahagslegum framförum og vildu m. a. tryggja almenningi hagkvæma verslunarhætti. Þeir höfðu ævinlega mannlega velferð og sjónarmið félagshyggju að leiðarljósi, en snerist gegn gróðahyggju og kaupmannavaldi síns tíma. Það er rétt að minna á þessi viðhorf framherjanna nú um þessar mundir þegar nýafstaðin deila ber því órækt vitni að forustu samvinnuhreyfingarinnar hefur borið meira en lítið af leið. Í annan stað er rétt að íhuga það hver sé réttur og staða einstaklingsins í þeim tilvikum er skoðanaágreiningur rís, ef til beinnar valdníðslu kemur af hálfu valdhafa, hvernig er í reynd komið rétti starfsmanns til að hafa sjálfstæðar skoðanir og tjá sig um þær. Þá er sú spurning einnig nærtæk hverjir það eru sem oftast eiga í vök að verjast á vinnuatað. Og þar mætti nefna fáein dæmi. Þeir, sem láta sig hagsmuni verkafólks nokkru varða og eru á verði gegn hvers konar hugsanlegri skerðingu á réttindum þess, eru oft taldir örðugir og óþægilegir á vinnustað. Gætir þá stundum tilhneigingar af hálfu atvinnurekenda til að losa sig við þá. Þeir, sem eru teknir að eldast og slitna, standa sömuleiðis höllum fæti. Þá er oft fyrir borð borinn réttur þeirra til þess að leggja sitt starf af mörkum, þótt kraftar séu teknir að dvína. Þá eru konurnar, varaliðið á vinnumarkaðinum, sem ýmist má kalla út þegar vel árar eða senda heim þegar í harðbakkann slær réttlitlar eða vita réttlausar. Staða þeirra í atvinnulífinu mótast í ríkum mæli af því hvort um þenslu eða samdrátt í efnahagslífinu er að ræða. Það er alkunna að jafnskjótt og samdráttar fer að gæta eru konurnar þær fyrstu, sem slíkt bitnar á eins og mörg dæmi sanna, t. d. núna þessa dagana. Mörg þau störf, sem heyra til undirstöðugreinum hins íslenska atvinnulífs, t. d. í fiskiðnaði, byggjast í ríkum mæli á vinnuafli kvenna, en því fjarri að þær njóti atvinnuöryggis í samræmi við það. Það er ekki bráðónýtt fyrir atvinnurekendur að hafa slíkt varalið til taks þegar á liggur, en hafa að öðru leyti lágmarksskyldum að gegna gagnvart því, enda er réttur kvenna til atvinnuöryggis í þessum undirstöðugreinum atvinnulífsins harðsóttur.

Það er löngu tímabært að fjalla af fullri alvöru um það aðkallandi verkefni að setja löggjöf um vinnuvernd sem tryggi atvinnuöryggi starfsmanna og takmarki vald forstjóra og atvinnurekenda til uppsagnar að eigin geðþótta. Húsbóndavald þessara aðila er einfaldlega sterkara en svo að verkafólk geti til lengdar unað við það. Þá er rétt að hafa það í huga að spor í áttina til aukinnar réttarbótar vinnandi fólki til handa verður að stíga nægilega langt fram á við. Skaðabætur einar sér nægja ekki endilega, því að þær tryggja ekki óskoraðan rétt starfsmanns til vinnu á þeim vinnustað þar sem hann kýs að stunda starf sitt. Þann rétt verður að tryggja með löggjöf sem gerir ráð fyrir því að atvinnurekenda megi dæma til að taka aftur til vinnu starfsmann sem hann hefur vikið úr starfi ólöglega, svo fremi að sá hinn sami vilji halda áfram störfum á þeim vinnustað og allar sanngirniskröfur mæli með því.

Ég vil minna á það að hina síðari áratugi hefur yfirleitt gætt í vaxandi mæli umsvifa af hálfu löggjafarvalds á sviði vinnuverndar í því skyni að tryggja réttarstöðu þess aðila, sem selur vinnu sína gagnvart þeim, sem kaupir hana, og þá þróun má raunar rekja lengra aftur, Öll rök hníga að því að hraðað verði setningu laga um vinnuvernd er taki m. a. til þeirra atriða sem ég hef stuttlega rakið hér.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., og vil leyfa mér að leggja til að umr. verði frestað, og málinu vísað til hv. félmn.