30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3439 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

260. mál, uppsögn fastráðins starfsfólks

Ólafur Ólafsson:

Herra forseti. Ég tel mig ekki geta látið hjá líða að ræða nokkuð um það mál eða öllu heldur þáltill., sem hér liggur fyrir, og sérstaklega gera alvarlegar athugasemdir við grg., sem fylgir henni, og málflutning hv. 5. þm. Norðurl, e.

Tilefni þessarar till. er vafalaust verkfallsátök sem áttu sér stað meðal starfsmanna tveggja verkstæða hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi eins og fram kemur í grg. með till. Ég fylgdist mjög vel með þessu máli frá báðum hliðum og er því gjörkunnugur í öllum atriðum. Ég er undrandi og harma hversu miklu moldviðri og slæmum áróðri hefur verið rótað upp vegna þessa máls og hversu miklum rangfærslum og múgæsingum hefur verið beitt og að þetta skuli vera komið hingað alla leið inn á hv. Alþ. Ég hef ekki á móti því að lög séu sett um réttindi og skyldur fastráðins starfsfólks, og ég veit að samvinnuhreyfingin, samvinnufélögin og samvinnufólkið í landinu mundi fagna því. Hitt finnst mér gjörsamlega fráleitt, að mæla bót því ólöglega verkfalli sem átti sér stað meðal starfsmanna á Selfossi og kasta rýrð á samvinnuhreyfinguna vegna þess, eins og átt hefur sér stað og gert er með flutningi þessarar þáltill. og sérstaklega með grg. sem henni fylgir, en þar segir að deilan hafi átt „rætur sínar að rekja til óréttmætrar og tilefnislausrar uppsagnar starfsmanns sem um áratugaskeið hefur unnið hjá Kaupfélagi Árnesinga:` Ég leyfi mér að mótmæla þessum fullyrðingum sem röngum. Það er mjög slæmt að í fjölmiðlum og á mannfundum hefur þetta mál svo til einvörðungu verið túlkað af hálfu verkfallsmanna og talsmanna þeirra og verið gróflega rangtúlkað, eins og hefur átt sér stað m. a. hér á Alþ. í dag.

Ástæðan fyrir því, að málið hefur ekki verið útskýrt nógsamlega af hálfu Kaupfélags Árnesinga, er hreinlega sú að það þótti of persónulegt og ekki nógu drengilegt gagnvart manninum sjálfum sem hér átti hlut að máli. En ég sé að ekki verður hjá því komist hér að upplýsa þetta mál algjörlega þar sem Kaupfélag Árnesinga og jafnvel samvinnuhreyfingin í heild er sakfelld í grg, með till. á röngum forsendum.

Umræddur maður hefur þegið laun hjá Kaupfélagi Árnesinga í rúm 30 ár, að vísu ekki samfellt vegna þess að hann hefur nokkrum sinnum hætt starfi, en ætíð verið ráðinn aftur og stundum með mikilli tregðu af hálfu verkstjóra og kaupfélagsstjóra. Fyrst hætti maðurinn starfi á árinu 1944, en kom aftur síðar á árinu. Á árinu 1971, í byrjun júní, sagði maðurinn upp starfi sínu vegna þess að hann vildi ekki vinna þau verkefni sem verkstjórinn sagði honum að vinna. Þá var hann fjarverandi í sex mánuði og stofnaði lítið eigið verkstæði þar sem hann ætlaði að vinna sjálfstætt. En það gekk illa og hann fékk ekki verkefni og leitaði að sex mánuðum liðnum á náðir kaupfélagsins aftur og var ráðinn í byrjun janúar 1971, þá verulega gegn vilja verkstjórans. Nú á þessu ári, í janúar, lenti hann svo enn í árekstri við verkstjórann vegna þess að hann vildi ekki hlýða að vinna það sem honum var sagt að vinna, og var hann þá fjarverandi í einn dag, en kom síðan daginn þar eftir aftur til vinnu og hélt áfram. En aðalástæðan fyrir því, að manninum var sagt upp starfi, er sú, að hann vann ekki. Samkvæmt vinnuskýrslum verkstæðisins fyrir jan.-febr. og mars er meira en helmingur vinnutímans dauður tími sem ekki er unninn, en var auðvitað greiddur manninum. Ég segi þetta ekki til þess að kasta rýrð á manninn, heldur til þess að skýra frá því og sýna fram á að manninum var ekki sagt upp að ástæðulausu. Það er líka rétt að upplýsa það að manninum var sagt upp með tilskildum uppsagnarfresti samkv. samningum við bifvélavirkja (Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. um að tala gætilega til þeirra sem hafa ekki aðstöðu til að verja sig hér.) Ég skal reyna það, Hann var ekki heldur trúnaðarmaður á vinnustað þegar honum var sagt upp. Hins vegar mun hann hafa verið það áður. Einnig er rétt að upplýsa að verkfallsmenn fóru í ólögmætt verkfall án þess að leita eftir samningum um málið og leita sátta, eins og samningar og lög mæla fyrir um. Einnig er rétt að upplýsa það að kaupfélagið leitaði eftir sáttum og bauðst til þess að endurráða manninn á sömu kjörum og bauð honum afgreiðslustarf á lager í sömu deild, en því var hafnað þrátt fyrir það að hann var áður búinn að biðja um léttara starf. Síðan hélt verkfallið áfram og verkfallsmenn fengu vaxandi stuðning við sitt ólöglega verkfall, bæði hjá launþegasamtökunum og pólitískum aðilum. Og auðvitað lét kaupfélagið undan og dró uppsögnina til baka til þess að firra frekari vandræðum og forðast að gripið yrði til örþrifaráða eins og útlit var fyrir.

Hér er að mínu mati um mjög alvarlegt mál að ræða þar sem starfshópur tekur með ólöglegum hætti umsamið vald af atvinnufyrirtæki með stuðningi fjöldasamtaka. Og svo er ætlast til nú að Alþ. leggi blessun sína yfir slíkt!

Nú er það ekki nýtt að einstakir starfshópar taki sér vald sem þeir eiga ekki, og vil ég tilfæra dæmi sem er andstætt því tilfelli, sem hér um ræðir. Fyrir tæpum tveimur árum skeði það hjá Kaupfélagi Rangæinga að verkstjóra, sem búinn var að vinna hjá því í rúm 30 ár, var sagt upp starfi. En hver haldið þið, hv. alþm., að ástæðan hafi verið? Hún var sú að mennirnir, sem unnu á verkstæðinu, svo til allir eins og einn maður, skrifuðu bréf til kaupfélagsstjóra þar sem þess var krafist að verkstjóranum yrði sagt upp starfi tafarlaust og ef hann væri ekki hættur innan þriggja mánaða mundu þeir allir leggja niður störf. Þessi maður fékk engan stuðning launþegasamtakanna í landinu og Kaupfélagið valdi frekar þann kostinn að láta manninn hætta en að eiga langvarandi verkfall á hættu.

Öll svona vinnubrögð eru óþolandi og alls ekki í samræmi við eðli samvinnufélaganna. Því til staðfestu vil ég skýra frá því, að á mjög fjölmennum fundi æðstu forustumanna samvinnuhreyfingarinnar, sem haldinn var í Rvík 10. mars s. l., var það samdóma álit að vegna þess samdráttar, sem sýnilegur er framundan í starfrækslu samvinnufyrirtækjanna, hlyti að verða af nauðsynlegum ástæðum að fækka fólki, en það bæri að gera með þeim hætti að segja ekki upp fastráðnu starfsfólki, heldur að ráða ekki fólk í stað þess sem hætti af eðlilegum ástæðum. Þetta er sú stefna sem þessi fundur æðstu manna samvinnufélaganna og samvinnuhreyfingarinnar markaði nú á þessum vetri. Þetta er örugglega stefna samvinnufélaganna í samskiptum við starfsfólkið, og þau mundu örugglega fagna eðlilegum reglum og lögum um vinnuvernd, enda væri slíkt í samræmi við eðli hreyfingarinnar. Samvinnufélögin mundu einnig fagna reglum um skyldur starfsfólks við vinnuveitendur.

Því miður er allt of mikið um það — ég er ekki að deila á neinn sérstakan — að kæruleysi og slóðaskapur eigi sér stað á Íslandi hjá starfsfólki. Ég er ekki að deila á neinn sérstakan, en það er nú einu sinni þannig að þetta þyrfti að batna. Við hljótum öll að viðurkenna það. Það er mjög algengt að fólk mæti í vinnu illa fyrirkallað, bæði af of mikilli vinnu í frítímum og jafnvel af of mikilli vínneyslu í frítímum. Þetta þekkjum við sem stjórnum stóru atvinnufyrirtækjunum. Og ég vil minna á að það mættu koma reglur um þetta. (Forseti: Ég verð enn á ný að aðvara hv. ræðumann um það að ræða ekki hér um einkamál fólks sem ekki hefur aðstöðu til að verja sig.) Herra forseti. Ég er ekki að ræða þarna um einkamál og ég er ekki að beina þessu til neins sérstaks. Ég er að minna á þetta þegar þessi mál eru á dagskrá, bæði vegna samvinnufyrirtækjanna og fyrirtækisins sem ég vinn við og vegna þjóðarheildarinnar.

Herra forseti. Ég tel það ekki sæmandi þessari hæstv. d. að samþ. þessa þáltill. með þeirri grg. sem henni fylgir og legg til að hún verði felld.