30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

260. mál, uppsögn fastráðins starfsfólks

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Sérstakur fulltrúi samvinnuhreyfingarinnar í landinu hefur nú flutt sina jómfrúrræðu. Og kannske er áminning forseta endurtekin alveg nægileg svo að það þarf ekki mörg fleiri orð um þá ræðu. En e. t. v. hefur þessi ræða og sá vissi hroki, sem í henni kom fram gagnvart launafólki almennt í landinu, verið betri staðfesting á þeirri till., sem hér liggur fyrir, en sú grg. sem fylgdi till.

Það er svo að ég skal vera fáorður um þetta, enda hæfa hér fæst orð eftir að umr. er komin á þetta óvenjulega stig hér í þingsölum. En það er þó merkilegt að þegar viðkomandi framkvæmdastjóri samvinnufyrirtækis hefur ekki séð til þess ástæðu neins staðar, að því er sagt var hér áðan, af drengskap gagnvart þessum atarfsmanni né talið það eðlilegt eða drengilegt gagnvart honum að ræða þetta mál eða skýra á nokkurn hátt frá sinni hlið, þá skuli það vera gert hér með þessum hætti, og geta menn þá dæmt um drengskapinn í orðum hv. síðasta ræðumanns, Og mér þykir það býsna forvitnilegt gagnvart þessu máli öllu, ef eitthvað er til í þessum ódrengilegu upplýsingum, ódrengilegu samkvæmt áliti þess kaupfélagsstjóra sem hér átti hlut að máli, hvers vegna í ósköpunum starfsmennirnir, sem með þessum manni vinna, hafa þá staðið svo vel að baki honum sem raun ber um vitni. Ef allt það væri rétt, sem hér var upplýst og átti raunar eðli málsins samkvæmt aldrei að vera upplýst hér í þessum ræðustól, þá væri fróðlegt að fá á þessu skýringar.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar gagnvart þessum einstaka manni, en þarna hefur áreiðanlega legið fiskur undir steini og ég er hræddur um að hann hafi verið þess eðlis að það hafi verið þess vegna sem viðkomandi kaupfélagsstjóri vildi aldrei á opinberum vettvangi ræða þetta mál. En það var dálítið dæmigert fyrir viðhorf því miður allt of margra forustumanna samvinnuhreyfingarinnar í landinu er talað er um að starfsmenn samvinnufyrirtækjanna hafi „þegið“ laun hjá samvinnufyrirtækinu. Þetta er eins og gamla viðkvæðið gömlu selstöðukaupmannanna, þeir eru komnir í þeirra spor, menn þiggja laun hjá þeim og þeir eru að þiggja ölmusu fyrir sitt starf.

Það er alveg rétt, sem kom fram hér í ræðu hv. þm. Soffíu Guðmundsdóttur, að vissulega hefur samvinnuhreyfingin fjarlægst mjög sín upprunalegu takmörk, og við höfum í raun og veru aldrei fengið áþreifanlegri og átakanlegri staðfestingu þess en hér áðan í orðum þessa forkólfs samvinnuhreyfingarinnar í landinu. Það er að vísu mjög misjafnt, en fyrst og fremst fer það um of eftir þeim framkvæmdastjóra sem ræður í hverju tilviki því að í raun er það oftast svo að það er hann einn sem tekur ákvarðanir, en stjórnin er í raun lítið annað en nafnið tómt. Ég þekki mörg ófögur dæmi hér um, enda ekki langt um liðið síðan ég komst alvarlega í kynni við viðhorf framkvæmdastjóra í samvinnufyrirtæki gagnvart verkafólki. Ég man meira að segja eftir því að mitt kaupfélag, það var þegar ég var formaður verkalýðsfélags þar á staðnum, fékkst ekki einu sinni til þess að fallast á samkomulag sem Vinnumálasamband samvinnufélaganna hafði þó gert og stóð einhuga að.

Það er óþarft að hafa um þetta miklu fleiri orð. En þó hefur samvinnuhreyfingin úti um landsbyggðina ekki fjarlægst sín upphaflegu markmið líkt því á eins átakanlegan hátt og hér í aðalstöðvunum og þá á ég fyrst og fremst við það hvernig þessi hreyfing hefur æ ofan í æ gengið út á þá braut, sem ég tel henni ekki sæmandi, hlutafélagsbrautina í samvinnu við ýmsa mjög svo vafasama aðila einkaframtaksins. En sem sagt, ég heyrði það fljótlega eftir að ég var búinn að biðja hér um orðið að í raun réttri voru öll orð óþörf eftir þessa sérkennilegu ræðu og eftir áminningu hæstv. forseta.