30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3446 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Helgi F. Seljan; Herra forseti. Ég fæ þetta mál til umsagnar í þeirri n., sem um það á að fjalla, og get þar athugað það betur. Ég vil lýsa yfir eindregnum stuðningi við tilgang og eðli þessa frv. Það er í eðli sínu mjög ágætt mál og nauðsyn þessa máls hefur verið undirstrikuð all harkalega að undanförnu og vonandi að nóg sé komið af slíku nú um stundir. Ég tek sem sagt undir það að ég fagna því að þetta frv. skuli fram komið og slíkur sjóður eða slík trygging skuli á stofn sett.

Það er aðeins tvennt sem ég vildi aðeins minnast á við 1. umr. þó að auðvitað verði það athugað betur í n. Það er í fyrsta lagi varðandi 2. gr. frv. um stjórn sjóðsins. Mér sýnist fljótt á litið að það sé kannske örlítið hæpið fyrirkomulag sem þar er gert ráð fyrir og ég þykist vita að hæstv. ráðh. hafi ekkert haft í huga varðandi helmingaskiptareglu eða neitt því um líkt, en hins vegar hefði mér í fljótu bragði þótt eðlilegast að annað tveggja yrði varðandi stjórn þessarar stofnunar að í fimm manna stjórnina yrði kjörið af Sþ., form. þá skipaður úr þeim hópi af ráðh., eða þá alveg eins sú hugmynd að fjórir væru kosnir af Sþ., en ráðh. skipaði form. án tilnefningar. Ég sé út af fyrir sig ekki nauðsyn þess t. d. að tryggingarfélögin eigi að fá þessa sérstöku umbun þó að þau annist að mínu viti þessa sjálfsögðu þjónustu, með því að eiga þarna fulltrúa. Það kann vel að vera að fyrir því séu einhver rök sem ég hef ekki komið auga á. Reyndar væri gaman að sjá þessi tryggingarfélög koma sér saman um fulltrúa í þessa stjórn, en vel getur það verið, því að auðvitað vitum við að það er ekki samkeppninni fyrir að fara hjá þessum tryggingarfélögum, þó að fjöldi þeirra sé mikill. Þar virðist samábyrgðin vera sterkari, svona svipað og hjá olíufélögunum okkar, þannig að það getur nú vel verið að þau komi sér bróðurlega saman um þetta. Ég sé hins vegar ekki nauðsyn á því að þau tilnefni þarna einn stjórnarmann, en það kann vel að vera að að betur athuguðu máli geti ég á það fallist.

Í öðru lagi vaknar upp spurningin jafnhliða þessu, sem reyndar er vakin athygli á í grg. með frv., þ. e. a. s. um Bjargráðasjóð. Það er alveg rétt, eins og segir í 4. gr., að það eru skýrt afmörkuð verkefni sem þessi Viðlagatrygging hefur annars vegar og svo Bjargráðasjóður hins vegar. Einnig er það ljóst, eins og segir í grg., að tryggingin muni létta mjög á almennri deild Bjargráðasjóðsins. Enn þá hefur þó Bjargráðasjóður til meðferðar ýmis alvarleg tjón sem trygging nær ekki yfir, og ég hef um það dæmi þar sem aðeins hefur verið hægt að bæta brot af því tjóni þó að stjórnarmenn í Bjargráðasjóði hafi allir verið af vilja gerðir, Á það þá alveg sérstaklega við Búnaðardeildina þar. Ég verð að segja það að ég hef mjög góða reynslu af stjórnarmönnum Bjargráðasjóðs, en ég hef einnig heyrt þá kvarta um t. d. mismun kjara og bóta miðað við Viðlagasjóð, og þá vaknar sú spurning hvort um slíkt gæti orðið að ræða eftir að þetta frv. væri orðið að lögum. Ég held að um leið og við afgreiðum þetta þyrftum við í raun að athuga stöðu Bjargráðasjóðs almennt eftir þessa breyt. og þá um leið bætta möguleika hans á því að sinna sínum skyldum. Ég vildi gjarnan fá þær upplýsingar í n., sem um þetta mál fjallar, og í raun og veru er þetta kjörið tækifæri til þess að athuga stöðu þessa annars of veika sjóðs að mínu viti, og þyrfti í raun og veru að takast fyrir samhliða ef á annað borð er þörf á bættri aðstöðu fyrir Bjargráðasjóð til að sinna verkefnum sínum. En það kann að vera að einmitt með þessari skipan, sem hér er lagt til, muni verkefnum verða þannig af honum létt að hann muni geta betur sinnt öðrum verkefnum. Það kann vel að vera að svo verði. Ég dreg það þó örlítið í efa áfram varðandi búnaðardeildina. Jafnvel hefur mér dottið í hug, — það er bara fljótfærnisleg till. mín, að það verði jafnvel spurning um að Bjargráðasjóður kæmi að einhverju leyti inn í þessa Viðlagatryggingu, sem sérstök deild þá vitanlega, sveitarfélögin legðu áfram fjármagn til þessa sjóðs, en ættu þá um leið aðild að stjórn þessarar sérstöku deildar eins og þau eiga að stjórn Bjargráðasjóðs.

Þetta voru aðeins þær ábendingar sem ég taldi rétt að koma hér á framfæri við 1. umr., en mun annars geta fjallað um málið í nefnd.