30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Efnislega er ég með þessu frv., en ég verð að segja það að ég hef ekki átt von á því, miðað við reynslu af Viðlagasjóði, að 2. gr. yrði sett upp á þennan hátt, og ég mótmæli því algjörlega. Hér er um stofnun að ræða sem allir landsmenn taka þátt í, og það er alveg útilokað að stjórn stofnunarinnar verði með þeim hætti er 2. gr. gerir ráð fyrir. Á þessu verður að finna heilbrigðari og eðlilegan flöt og ég get ekki sætt mig við löggjöf með þessum hætti eins og til er stofnað. Þetta er ekki sæmandi og fer ég ekki um það fleiri orðum til þess að tefja ekki tímann.

Svo segir í 7. gr. — einmitt með hliðsjón af því hvernig 2. gr. gerir ráð fyrir stjórnarskipun — að hún hafi það mikið vald að þessir menn geti án þess að gera Alþ. nánari grein fyrir ákveðið tölur sem nema stórum fjárhæðum, og er það enn eitt dæmið um hvernig Alþ. á að samþykkja hér óútfyllta víxla endalaust. Ég held að það sé tími til kominn fyrir okkur alþm. að átta okkur á því hvað við erum að aðhafast hérna, afsala okkur endalaust ákvörðunarvaldi varðandi stórar fjárhæðir og fá svo aldrei neina grg. meir um það.

Í 8. gr. segir síðan um innheimtu iðgjalda með uppboði o. s. frv., o. s. frv. Ég vænti þess að þau mörgu lagaákvæði, sem þar er vitnað til, séu ekki til annmarka fyrir einn eða neinn og ef einhver í sambýli gerist seinn að greiða þá sé ekki tilkynnt um uppboð fyrir einhverja sameign ef aðeins einn í stóru sambýli á hér hlut að máli. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu þar sem ekkert svigrúm er til að athuga það með hvaða hætti þetta á að fara fram þegar um uppboð ræðir. Efnislega fagna ég þessu frv. og þakka ráðh.fyrir að undirbúa það og mun ekki tefja á annan h átt framgang málsins.