30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3448 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ábendingum hv. 2. þm. Reykn. Í skipunarbréfi til þessarar n., sem var falið að athuga þessi mál, tók ég fram „ofviðra“ einnig en það var samhljóða álit þeirra þriggja manna, sem þessa n. skipuðu, að það væri ákaflega erfitt að gera sér grein fyrir bótum af völdum ofviðra og það mundi hækka iðgjöldin verulega ef þau væru tekin inn. Þess vegna legðu þeir þetta til sem er lagt til í þessu frv. því að það er samið af þessari n. og lagt fram svo af mér, að vísu eftir að örfáar breyt, voru gerðar á frv. í fullu samráði við n.

Í sambandi við 2. gr. skal ég hugga hv. 7. landsk. þm. með því að ég hafði enga helmingaskiptareglu í huga í sambandi við þessa 2. gr. og gr. er samin af n. en ekki af mér, hins vegar er það alltaf matsatriði. En aðeins út af því að tryggingarfélögin eigi að fá einn mann í stjórnina, þá er ég þeirrar skoðunar að þar sem er lagt töluvert á tryggingarfélögin í sambandi við þetta frv. til þess að komast hjá skriffinnskubákni, þá legg ég á það áherslu að tryggingarfélögin eigi einn fulltrúa af fimm í stjórninni. Tryggingarfélögin hafa félagsskap með sér sem er nokkuð breytilegur eftir eðli trygginga, þannig að þau félög sem annast hústryggingar og lausafjártryggingar kæmu til með að tilnefna mann í stjórnina og fer það þá auðvitað eftir meiri hl. atkv. í þeim félagsskap hver tilnefndur er á hverjum tíma. Ég held að þetta sé mikilvægt atriði. Hitt er atriði sem má skoða og ég legg ekkert ofurkapp á.

Í sambandi við það að Alþ. sé að afsala sér valdi eins og 1. landsk, þm. orðaði það, þá get ég alls ekki fallist á það. Alþ. ætlar að gerast nokkuð viðamikið ef það ætlar að sjá um allan rekstur í landinu og vera með nefið niðri í öllum rekstri, í hvaða félagi sem er. Hitt er alger misskilningur hjá hv. þm. ef hann hleður því fram að Alþ. eigi ekki rétt á að fá grg. og skýrslur. Ég held að standi ekkert á hv. alþm. að spyrja um alla mögulega hluti og þær spurningar eru sumar sjálfsagðar og eðlilegar. Sumar eru orðnar svoleiðis að það er varla hægt að bera þær fram á Alþ. En hinu er ég alveg sammála og harður á, að Alþ. á ekki að afsala sér of miklu valdi í hendur framkvæmdavaldsins á hverjum tíma, Alþ. getur ekki haft allt í höndunum því að Alþ. hefur þó það hlutverk að vera löggjafarsamkoma og Alþ. má ekki ganga svo langt í því að standa í framkvæmdum á löggjöf og starfsemi við undirbúning að löggjöf gleymist eða liggi í haugum fyrir n. frá byrjun þings til loka þings. Það er hlutur sem Alþ. verður að taka rögg á sig og kannske taka betur til hendinni en það hefur gert nú á mörgum undanförnum árum og þá er ég ekkert að sakast við neinn sérstakan.

Annars ætla ég ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vil þakka mönnum fyrri undirtektir við þetta frv. Ég tel að það sé mjög mikils virði að hraða gerð þessa frv., og ég hygg að það eigi ekki að ganga neitt inn á verksvið Bjargráðasjóðs. Mín skoðun er sú og þeirra þriggja ágætu manna sem þetta frv. sömdu að það sé rétt að Bjargráðasjóður haldi sínu sjálfstæði og sínu hlutverki. Hér er um hreint tryggingaratriði að ræða en hitt er meira á sviði félagsmála og sveitarstjórnarmála. Það eru margar minni háttar bætur sem um er að ræða hvað Bjargráðasjóð snertir, og ég held að það sé rétt að halda sér við þá löggjöf eins og hún er, en stefna að því að lögfesta þetta frv. þó að ég sé ekki að mæla gegn því að það séu gerðar á því einhverjar skynsamlegar breyt. ef mönnum sýnist.