30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3450 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um breyt. á l. nr. 72 frá 28. maí 1969 um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Með þeim lögum, sem hér er lagt til að breyta, var sú kvöð lögð á Seðlabankann að gengistryggja inneign Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins eins og hún væri á hverjum tíma. Á þeim tíma benti Seðlabankinn á í umsögn sinni m. a. að gera mætti ráð fyrir þeim möguleika að þegar til gengislækkunar kæmi og gengistryggingin yrði virk, þá væri enginn gjaldeyrisvarasjóður fyrir hendi sem hugsanleg inneign Verðjöfnunarsjóðs gæti talist hluti af. Með þessu var í rauninni vakin athygli á því meginatriði að gengistryggingin gæti aðeins náð svo langt sem nettógjaldeyriseign Seðlabankans hrykki til og það, sem væri greitt þar fram yfir, yrði af eigin fé bankans, en slík ráðstöfun á fjármunum bankans verður að teljast óeðlileg, auk þess sem um væri að ræða beina peningaútgáfu.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að gengistrygging Verðjöfnunarsjóðsins haldist en Seðlabankanum jafnframt heimilað að veita lán innanlands með gengisákvæði. Slíkrar heimildar er þörf þegar þannig stendur á að gjaldeyriseign bankans hrekkur ekki til að tryggja inneign Verðjöfnunarsjóðs og um vexti af slíkum lánum yrði að fara eftir vaxtakjörum á sambærilegum lánum erlendis.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir þeim möguleika að gjaldeyriseign Seðlabankans að viðbættum skuldabréfum samkv. 1. gr. hrökkvi ekki til gengistryggingar Verðjöfnunarsjóðsins. Þess vegna þykir eðlilegt, að ríkissjóður taki á sig að tryggja það sem þar er umfram.

Frv. gerir ekki ráð fyrir neinni breytingu á því meginatriði að inneign Verðjöfnunarsjóðs hjá Seðlabankanum sé jafnan gengistryggð. Hins vegar er óhjákvæmilegt að gera Seðlabankanum kleift að framkvæma þá gengistryggingu án þess að ganga á eigið fé og felur í sér verulega aukið traust bankans út á við. Er Seðlabankanum því heimilað að stofna til gengisbundinna lána innanlands, en jafnframt er gert ráð fyrir að ríkissjóður taki á sig vissar skuldbindingar, þ. e. a. s. ef bein gjaldeyriseign Seðlabankans að viðbættum þeim gengisbundnu útlánum nægir ekki til að fullnægja gengistryggingu Verðjöfnunarsjóðs. Með slíkri breytingu á lögunum varðandi Verðjöfnunarsjóð ætti að vera tryggt í framtíðinni að framkvæmd gengistryggingarinnar gæti gengið eðlilega fyrir sig án óeðlilegra og óheppilegra peningalegra aukaverkana. Vegna þeirra breytinga, sem gerðar voru á ráðstöfun gengishagnaðar í des. s. l. við staðfestingu á brbl., sem gefin voru út á s. l. hausti, og þeirra breytinga á lögunum vegna gengisbreytingarinnar í sept., sem ráðgerðar eru, er hins vegar nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að ganga endanlega frá greiðslu tryggingarinnar vegna gengislækkunarinnar frá því í sept. Vegna hinna sérstöku aðstæðna á árinu 1974, sem leiddu til verulegrar tekjuaukningar hjá Seðlabankanum, þá fellst bankinn á að það, sem á vantar að bein gjaldeyriseign bankans hrökkvi til að standa undir gengistryggingunni verði í þetta sinn greitt af tekjum bankans. Það skal því tekið fram að fullt samkomulag er á milli ríkisstj. og bankans í þessum efnum.

Samræmis vegna er eðlilegt að þetta frv. verði samferða frv. um breyt. á lögum um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabankans um nýtt gengi, sem er næsta mál á dagskrá.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til hv. sjútvn.